Bankastjóri Lilja Björk segir bankann bjóða ýmsar lausnir til að mæta hærri greiðslubyrði húsnæðislána.
Bankastjóri Lilja Björk segir bankann bjóða ýmsar lausnir til að mæta hærri greiðslubyrði húsnæðislána. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Björn Leví Óskarsson blo@mbl.is Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans segist spennt fyrir komandi ári hjá bankanum. Fram undan eru óvissutímar en hún horfir björtum augum til framtíðar.

Viðtal

Björn Leví Óskarsson

blo@mbl.is

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans segist spennt fyrir komandi ári hjá bankanum. Fram undan eru óvissutímar en hún horfir björtum augum til framtíðar.

Hægt að lækka greiðslubyrði

Fyrirséð er að fjölmörg heimili horfa fram á að greiðslubyrði húsnæðislána hækki talsvert á næstu mánuðum og árum, þegar fastir vextir taka að losna. Lilja bendir á að stór hluti fasteignalána bankans sé nú þegar á breytilegum vöxtum sem hafa hækkað talsvert undanfarið. Enn sem komið er ráða flestir við hærri greiðslur en viðbúið er að róðurinn þyngist.

„Það eru margir möguleikar í stöðunni. Það er til dæmis hægt að endurfjármagna lánið og lengja lánstímann til að lækka greiðslur. Við höfum líka boðið fólki að skipta yfir í verðtryggð lán eða blöndu af verðtryggðu og óverðtryggðu og nýta svo færið síðar og fara aftur í óverðtryggt þegar vextir lækka,“ segir Lilja Björk og bendir á að auðvelt muni vera fyrir viðskiptavini að endurfjármagna í gegnum í app.

„Það er helst unga fólkið sem ég hef áhyggjur af, sem keypti á toppi fasteignaverðs og á tiltölulega dýrar eignir og þ.a.l. há lán. Ef þú ert ekki með tvær fyrirvinnur á þokkalega góðum launum þá getur verið erfitt að ráða við hækkanir. Þá er kannski minnsta rýmið til að bregðast við með einföldum hætti. Í þeim tilvikum þá ráðlegg ég fólki að tala við okkur sem fyrst. Við reynum alltaf að finna leið út úr vanda og aðstoða fólk.“

Hún bindur vonir við að draga muni úr verðtryggingu lána og að í framtíðinni verði aðeins óverðtryggð lán, en til þess þurfi aukinn stöðugleiki að vera til staðar. Þá bendir hún á að ef fólk ræður við örlítið hærri greiðslur þá sé góð fjárfesting að greiða inn á lánið sitt.

„Það er mjög einfalt að fara í app og greiða inn á lán og góð tilfinning að sjá höfuðstólinn lækka. Þá er líka verið að búa í haginn því húsnæðið er eign sem getur nýst sem veð ef fólk þarf á fjármagni að halda síðar á lífsleiðinni,“ segir hún.

Góð tímasetning skuldabréfa

Landsbankinn lauk nýverið við útgáfu sértryggðra skuldabréfa á erlendum markaði, en bankinn hafði ekki gefið út skuldabréf erlendis síðan síðla árs 2021. Beðið hafði verið eftir nýjum íslenskum lögum sem tóku gildi 1. mars, sem samræmdi reglur um sértryggð skuldabréf í Evrópu sem gerði útgáfuna mögulega.

„Við vorum með allt tilbúið þegar þessi lög voru sett, þannig við gátum farið mjög hratt af stað. Í svona erlendum útgáfum þarftu alltaf að vera tilbúin að nýta gluggann þegar hann opnast, tala nú ekki um í svona óvissuástandi.,“ segir Lilja Björk um útboðið. Daginn eftir að útboðinu lauk féll Silicon Valley Bank sem hefur skapað miklu ókyrrð í fjármálaheiminum.

„Kjörin voru góð og tímasetningin frábær, þó við hefðum ekki getað vitað það fyrir fram. Þetta segir manni að það er mikilvægt að halda plani en ekki bíða eftir fullkominni tímasetningu.“

Óvissa endurspeglast í verði

Lilja Björk segir að sú ólga sem einkennt hefur fjármálamarkaði erlendis sé allt annars eðlis en það ástand sem uppi var í aðdraganda fjármálakrísunnar 2008.

„Við fylgjumst með úr fjarlægð, en ég veit bara af fyrri reynslu að þessir hlutir hafa alltaf áhrif á allan markaðinn. Óvissan, sem var mikil fyrir, hefur aukist. Það er verðbólga, það er stríð og aukin óvissa á mörkuðum. Aukin óvissa endurspeglast alltaf í þeim kjörum sem bjóðast á fjármálamarkaði. Það er mikilvægt fyrir okkur, að hafa í huga að íslensku bankarnir standa allir mjög sterkt. Við þurfum að vera áfram að vera dugleg að vera í sambandi við markaðsaðila erlendis því góður aðgangur bankanna að erlendri fjármögnun er lykilatriði fyrir íslenskt atvinnulíf.“

Sækir síður í bundin innlán

Seðlabankinn kynnti í síðustu viku að dregið yrði úr kvöðum á verðtryggðum innlánum, en í dag er hver innborgun bundin til þriggja ára. Lilja segist skilja það vel að þrýst sé á að innlán verði verðtryggð, nú þegar verðbólgan er farin af stað.

„Fólk hefur ekki leitast eftir því að fara í bundin innlán, fólk vill ekki hafa sparnaðinn sinn bundinn,“ segir Lilja Björk og tekur fram að verðtryggð innlán þyrftu alltaf að vera bundin í ákveðinn tíma.

„Við sjáum að þar sem samkeppnin ríkir er um að ræða óbundna reikninga með góðum vöxtum. Fólk hefur ekki leitað eftir því að festa sparnað í lengri tíma og kýs að hafa peninginn lausan en sækir líka í góða vexti og öryggi. Við erum nú þegar að bjóða góð kjör ef sparnaður er festur í meira en mánuð. En hvort fastur verðtryggður sparnaður nær flugi fer meira eftir því hvort sparnaðarhegðun breytist og hvort þetta sé það sem þarf til að breyta hegðuninni. Þetta kemur í ljós og við mætum að sjálfsögðu til leiks með góða vöru fyrir fólk.“

Arðsemi eigin fjár

Hagnaður bankans var 17 milljarðar og arðsemi eigin fjár Landsbankans var á síðasta ári 6,3% eftir skatta, og rekur hann þar lestina í ár á eftir hinum viðskiptabönkunum tveimur. Arðsemi Íslandsbanka var 11,1%, og arðsemi Arion banka var 13,7% á árinu. Lilja Björk segir að lægri arðsemi bankans skýrist að öllu leyti af 14% eignarhaldi bankans í Eyri Invest, sem heldur utan um tæplega 25% hlut í Marel. Hlutabréfaverð Marel lækkaði umtalsvert á árinu sem leið sem leiddi til þess að eignarhlutur bankans rýrnaði um 10,5 milljarða á árinu. Að öðru leyti gangi rekstur bankans vel.

„Grunnrekstur bankans var góður. Við erum búin að vera að víkka út okkar þjónustuframboð og auka markaðshlutdeild. Tekjur af hefðbundinni bankaþjónustu hafa aukist. Það er mikilvægt að banki skili ásættanlegri arðsemi og sé vel rekinn til langs tíma. Við viljum eiga greiðan aðgang að fjármögnun, geta staðið af okkur alls kyns sveiflur í efnahagsumhverfinu og ekki síst að rekstrinum sé traustur og stöðugur.“

Hún sér fram á að arðsemi bankans á þessu ári verði góð og í samræmi við markmið bankans. „Við verðum áfram vel rekinn banki og í samræmi við það kappkostum við að veita viðskiptavinum okkar samkeppnishæf kjör. Ég er bjartsýn á 2023, þrátt fyrir talsverðar áskoranir í umhverfinu.“

Meiri kraftur í hópnum

Nýtt húsnæði

Í gær flutti fyrsti hópur starfsfólks Landsbankans í nýtt húsnæði við Reykjastræti. Alls munu á milli 600 og 650 manns starfa í nýju húsnæði og flyst starfsemin úr tólf húsum í Kvosinni og tveimur í Borgartúni. Lilja Björk segist spennt fyrir því að taka húsið í gagnið. „Við erum núna í mörgum og misgóðum húsum í Kvosinni með marga króka og kima. Húsakosturinn ber þess merki að vera ekki byggður sem ein heild. Það er mikilvægt fyrir öll fyrirtæki að starfsfólk finni að það sé hluti af stórum hópi. Þannig myndast meiri kraftur í hópnum. Við erum að fara í hús þar sem þú finnur að þú ert hluti af heild. Við fækkum fermetrum um tæplega helming með þessum flutningi. Þetta verður gjörbreyting fyrir okkur og nýja húsið mun gera okkur að enn betri banka.“

Enn er ekki komið í ljós hvað verður um gamla Landsbankahúsið við Austurstræti og aðrar fasteignir í Kvosinni. Lilja Björk segir að ríkið hafi óskað eftir viðræðum um kaup á húsinu en það er ekki frágengið.