Hermann Ragnarsson fæddist í Keflavík 22. ágúst 1955. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 17. mars 2023.

Foreldrar Hermanns voru Ragnar Guðmundur Jónasson, f. 1927, d. 2020, og Bjarnheiður Hannesdóttir, f. 1930, d. 2012. Bræður Hermanns eru: Ragnar Gerald, f. 1948, d. 2016; Hannes Arnar, f. 1949, d. 1950; Hannes Arnar, f. 1950; Jónas, f. 1951; Guðmundur Ingi, f. 1954; Halldór Karl, f. 1957; Sigurður Vignir, f. 1960; Unnar, f. 1962.

Hermann var þrígiftur og þrífráskilinn, en tók aftur saman við fyrstu eiginkonu sína, Ingibjörgu Auði Finnsdóttur, f. 20. febrúar 1956, síðustu árin.

Börn Hermanns eru: 1) Sigurður Arnar viðskiptafræðingur, f. 16. september 1979 (móðir Guðrún Birna Sigurðardóttir, f. 1959), maki María Másdóttir húsgagnasmiður, f. 1978. Börn þeirra eru Ásdís Arna, f. 2002, kærasti hennar er Tómas Stitelmann, f. 2002, Emma, f. 2007, og Jónatan f. 2009. 2) Helga Sigrún efnaverkfræðingur, f. 28. júlí 1997 (móðir Hauður Helga Stefánsdóttir, f. 1958), maki Alexander Guðmundsson tónlistarmaður, f. 2001. 3) Stjúpdóttir; Edda María Vignisdóttir byggingafræðingur, f. 7. ágúst 1975 (móðir Hauður Helga Stefánsdóttir, f. 1958), maki Jeppe Grønning Kieldsen verkfræðingur, f. 1975. Börn hennar eru Snæfríður, f. 2006, og Hekla, f. 2010.

Hermann ólst upp í Keflavík og bjó þar alla sína ævi fyrir utan síðustu árin sem hann bjó í Hafnarfirði. Hann gekk í barna- og gagnfræðaskólann í Keflavík. Þaðan fór hann í Iðnskólann að læra múraraiðn. Hann útskrifaðist síðar sem múrarameistari úr Meistaraskólanum í Reykjavík og fór svo í Háskóla Íslands þar sem hann lærði til matstæknis fasteigna. Síðar fór hann í Stýrimannaskólann þar sem hann tók 30 tonna réttindi og þegar heilsan fór að bresta fór hann í Ferðamannaskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist sem leiðsögumaður.

Hermann vann sjálfstætt alla tíð, mest af við múrverk, byggingastjórnun og svo reri hann nokkur sumur á eigin báti. Þá var hann upphafsmaður Bláa lónsins eftir að hann uppgötvaði lækningamátt þess á psoriasis og öðrum húðsjúkdómum og kynnti hann það á alþjóðavísu.

Hermann var mikill mannvinur, athafnasamur og duglegur alla tíð. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur og var alltaf boðinn og búinn að rétta hjálparhönd til þeirra sem voru hjálpar þurfi. Mikla athygli vakti þegar hann hjálpaði tveimur albönskum fjölskyldum að fá íslenskan ríkisborgararétt eftir að þeim hafði verið vísað úr landi árið 2016.

Útför Hermanns fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 23. mars 2023, og hefst klukkan 13. Athöfninni verður streymt.

Sjá grein á

https://mbl.is/andlat

Elsku Hemmi minn – þar kom stundin. Fallinn ertu frá elsku karlinn. Þú komst inn í líf mitt og fjölskyldunnar minnar á besta tíma. Afi, sem var kletturinn okkar, var svo til nýfallinn frá og þú komst inn sem nýi kletturinn okkar. Sjálfkjörinn í verkefnið sem „maðurinn“ í fjölskyldu sem samanstóð af konum og börnum. Ég held ég tali fyrir hönd okkar allra þegar ég segi að þú varst til staðar fyrir okkur allar, á öllum tímum og í öllum verkefnum. Ekkert vafðist fyrir þér og þú reddaðir alltaf öllu. Fyrir mér varstu frábær. Þú komst fljúgandi inn í líf mitt þegar ég var 16 ára og mér fannst þú meiri háttar. Ég var nýbyrjuð í Verzló og nefndi við skólasystur mína að „Hemmi kærastinn hennar mömmu væri að koma að sækja mig“. Hún sagði „Hemmi – er hann úr Keflavík og hlær ógeðslega hátt?“ Já, lýsingin passaði. „Hann var einu sinni kærasti mömmu minnar líka og hann er frábær.“ Og það var svo sannarlega rétt. Þú varst frábær í alla staði og kenndir mér margt. Þú varst með eindæmum góður í að segja sögur, sérstaklega kjánasögur af sjálfum þér eins og þegar þú borðaðir þurrskreytingu í brúðkaupi og hélst það væri snakk; eða borðaðir freyðibaðskúlu í apótekinu í Keflavík sem þú hélst að væri brjóstsykur eða gleyptir aukatöluna á jakkafatavestinu þínu sem þú hélst að væri verkjapillan sem þú settir í brjóstvasann. Sögurnar eru endalausar og kjáninn í sögunum þínum varst alltaf þú, enda skipti það þig mestu að láta fólk hlæja og líða vel í kringum þig. Það var alltaf eitthvað í gangi og aldrei dauð stund. Við áttum skap saman og með sama aulahúmorinn sem passaði okkur vel. Ég vissi að þú varst alltaf sammála mér, og ef svo var ekki, þá tók það mig mjög stuttan tíma að fá þig til að vera sammála mér því þú gast alltaf séð mína hlið og skilið hana; eða alla vega léstu mér líða þannig. Hjartað í þér var ótrúlega stórt með pláss fyrir alla, það hefur þú sýnt og sannað í gegnum lífið þar sem þú hefur staðið við bakið á fólki sem minna mátti sín; hvort sem var fjárhagslega eða með annarri aðstoð. Óréttlæti þoldirðu ekki og þú barðist fyrir því sem var rétt og satt. Því miður gleymdirðu oft að hugsa um sjálfan þig og fékkst einum of oft síðasta sætið hjá sjálfum þér. Ég vil þakka þér fyrir allt elsku Hemmi minn. Fyrir tímann, hláturinn, gráturinn, gleðina, minningarnar, sönginn og dansinn. Takk fyrir þinn frábæra karakter. Takk fyrir að koma með Sigga inn í líf mitt og takk fyrir gefa mér Helgu Sigrúnu æslabelg fyrir systur. Hún líkist þér á margan hátt – er hvatvís, með stórt hjarta, hláturmild, góð í að segja kjánasögur af sjálfri sér og alltaf með (of) mörg járn í eldinum. Minning mín um þig mun lifa í gegnum hana. Takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið og fyrir að hafa verið góður stjúpi fyrir mig og afi fyrir Snæfríði og Heklu. Góða ferð í sumarlandið, elsku Hemmi minn, og ég veit, að þegar þar að kemur tekur þú á móti okkur hlæjandi með fiskibollur í dós og bjór í hendi – við elskum þig og söknum þín.

Þín

Edda María.

Nú þegar komið er að leiðarlokum, elsku Hemmi minn, langar mig að minnast þín með örfáum orðum.

Við ólumst upp í stórum bræðrahópi á Kirkjuvegi 4, gekk oft ýmislegt á eins og nærri má geta. Vorum við sendir í sveit saman í Borgarfjörðinn.

Við lærðum saman múrverk hjá Ásgeiri Benediktssyni. Að námi loknu stofnuðum við saman verktakafyrirtækið Húsanes árið 1980 ásamt Margeiri Þorgeirssyni. Við gengum saman lífsins veg frá fæðingu og fram yfir þrítugt. Það kom fljótt í ljós að þér voru gefnir miklir hæfileikar í vöggugjöf, meira en almennt gerist.

Þegar við vorum í sveitinni þá kepptum við í sundi fyrir Héraðssamband Borgarfjarðar og í öll skiptin fórst þú á verðlaunapall. Þér datt í hug að taka þátt í stakkasundi á sjómannadaginn, auðvitað vannst þú, ekki bara einu sinni heldur þrjú ár í röð. Höfðum við bræðurnir áhuga á fjallaferðum og jeppum og þú ákvaðst að taka þátt í torfærukeppni Íslands og þar sigraðir þú, ekki bara einu sinni heldur þrjú ár í röð.

Hemmi minn, þér var ekki bara gefið líkamlegt atgervi heldur varst þú einstaklega réttsýnn og vel gerður maður sem máttir helst ekkert aumt sjá. Langar mig að segja frá litlu atviki sem sýnir hvaða mann þú hafðir að geyma, þau eru mörg slík. Á þeim árum sem þú varst með mér í verktakarekstrinum sé ég að það eru smiðir að störfum í kjallaraíbúð þar sem eldri kona bjó, og var öryrki, en hafði farið á milli vita í kerfinu. Þetta var í desember, í kulda og trekki, menn voru þar að skipta um gler og laga útihurð. Ég spyr mennina hvað þeir séu að gera og þeir tjá mér að þú hafir sent þá í þessar lagfæringar. Ég hringi í þig og spyr þig hvort þú teljir að þessi reikningur verði nokkurn tíma greiddur, þú varst fljótur til svars og sagðist ekki gera þér neinar vonir um það því þú myndir ekki senda reikning fyrir þessari vinnu.

Til er málsháttur, „allt kann sá er bíða kann“, það er ekki hægt með nokkrum sanni að segja að þessi málsháttur eigi vel við þig. Þú varst einhver óþolinmóðasti maður sem ég hef kynnst. Það sem þú tókst þér fyrir hendur varð að ganga hratt og örugglega fyrir sig. Þú komst alltaf beint að þeim málum sem þurftu úrlausnar. Ef þér fannst menn sýna þér ósanngirni og óbilgirni þá varst þú svo fastur fyrir og fylginn þér. Oftast við slíkar aðstæður hélst þú þínum hlut. En ein er sú barátta þar sem þú þurftir að játa þig sigraðan, það var við Bakkus konung, en ekki tókst honum að sigra þinn karakter. En ekki tókst honum að sigra þinn karakter. Þú hélst réttsýninni, manngæskunni og þínum stóra karakter allt til enda.

Síðustu vikur hrakaði heilsu þinni verulega, elsku Hemmi minn, og var það mikil lífsreynsla að fylgjast með þér á lokagöngu þinni. Það var fallegt að sjá hvernig börnin þín, Sigurður Arnar og Helga Sigrún, vöktuðu og pössuðu þig síðustu dagana. Helga Sigrún bjó um sig við hlið þér á sjúkrastofunni og Sigurður Arnar var meira og minna við hlið þér. Þetta er mikið mannkostafólk, er ég stoltur af því að vera frændi þeirra. Ingibjörg Finnsdóttir, þín fyrsta eiginkona, stóð með þér eins og stoð og stytta í þínum veikindum og var hún við hlið þér þegar kallið kom.

Ykkur og fjölskyldunni votta ég mína dýpstu samúð. Elsku bróðir minn, ég kveð þig að sinni. Mamma, pabbi og Raggi bróðir munu taka þér með opnum faðmi.

Þinn bróðir, Dóri.

Halldór Karl Ragnarsson.

Elsku hjartans Hemmi frændi.

Nú ert þú farinn frá okkur, yfirgefur þessa jarðvist og það er ég viss um að vel verði tekið á móti þér í sumarlandinu. Þú sem varst svo mikið göfugmenni; gæðablóð, réttsýnn, heilsteyptur, glaðlyndur, kærleiksríkur og mikill mannvinur. Þú vildir öllum ávallt allt það besta og lést þig náungann varða, ekki síður þá sem minna mega sín.

Ég á fallegar minningar með þér sem ég er búin að hugsa mikið um undanfarið. Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar við fórum saman í ógleymanlega bátsferð á Rib-bát sem þið pabbi áttuð saman á Akureyri, bátur sem fór með farþega út frá höfninni á Akureyri á miklum hraða. Þú vildir rífa aðeins upp stemninguna um borð og fékkst því Pétur til þess að koma og vera með uppistand um borð. Það vildi ekki betur til en svo að enginn af farþegunum var íslenskumælandi, það kannaðist enginn af þeim við Pétur og þeir nenntu eiginlega ekki að hlusta á hann. Eins var hávaðarok svo öldugangurinn var það mikill að það heyrðist nánast ekkert í Pétri. Mikið sem við gátum hlegið að þessari ferð.

Leiðir okkar lágu nokkrum sinnum óvænt saman í gegnum ferðalög, útilegur. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þar sem við hittumst á sólbjörtum degi, þú sast fyrir utan hjólhýsið þitt og varst að gæða þér á morgunkaffi, þú bauðst mér að setjast hjá þér. Við áttum innilegt spjall um heima og geima. Þú vildir vita allt um mig og mína. Þér var svo annt um allt fólkið þitt og sýndir svo mikinn áhuga á öllu því sem við vorum að fást við. Þú sagðir mér einnig hvað þú værir stoltur af börnunum þínum og barnabörnum og sagðir mér margar góðar sögur af ykkur bræðrum frá gömlum og góðum tímum. Við hlógum hátt og mikið og það má segja að dalurinn hafi ómað af hlátrasköllum. Ég er sérstaklega þakklát fyrir þessa stund og geymi hana í hjarta mínu.

Þau góðverk sem þú færðir í þennan heim verða seint færð í orð því þau eru svo fjöldamörg. Þú snertir mörg hjörtu á lífsleiðinni og þar á meðal mitt og fyrir það vil ég þakka þér, takk fyrir að kenna mér og varpa ljósa á þá hluti sem raunverulega skipta máli í lífinu.

Guð blessi fallegu börnin þín, barnabörn, bræður, frændfólk og vini og veiti þeim styrk í sorginni.

Ég kveð þig með hlýju og söknuð í hjarta. Ég elska þig elsku besti frændi minn, góða ferð í sumarlandið.

Þín,

Sigrún Halldórsdóttir.