Skoðun Rannveig S. Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu tjáði skoðun sína á því hvernig ríkissjóður gæti lagt peningastefnunni lið.
Skoðun Rannveig S. Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu tjáði skoðun sína á því hvernig ríkissjóður gæti lagt peningastefnunni lið. — Morgunblaðið/Eggert
Líkt og alkunna er ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti um eitt prósentustig í gær. Fyrir vikið eru meginvextir bankans, það eru vextir á sjö daga bundnum innlánum, nú 7,5%

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Líkt og alkunna er ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti um eitt prósentustig í gær. Fyrir vikið eru meginvextir bankans, það eru vextir á sjö daga bundnum innlánum, nú 7,5%.

Yfirlýsing peningastefnunefndar í gær var frábrugðin öðrum undanfarin misseri að því leyti að ekki var minnst á fjármál hins opinbera. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundinum nefndina ekki getað beðið eftir að aðrir gripu til aðgerða, en öll hjálp væri vissulega vel þegin. Hann sagði það ekki hlutverk nefndarinnar að hlutast til um aðgerir ríkissjóðs, það væri hlutverk kjósenda. Rannveig S. Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri peningastefnu tók undir með Ásgeiri að þau hefðu ekki sérstaka skoðun á aðgerðum ríkissjóðs, en sagði það þó sína persónulegu skoðun að ríkið gæti hjálpað til.

„Ef ég tala bara fyrir sjálfa mig þá held ég að það hefði hjálpað til og myndi hjálpa til ef það væri gripið til einhverra aðgerða á tekjuhliðinni sem virkuðu hratt og drægi þá líka úr eftirspurn. En það er nú bara mín skoðun,“ sagði hún.

Þá hefur vakið athygli að framsýna leiðsögnin nú er nokkuð frábrugðin þeim fyrri, að því leyti að ekki reyndist kveðið jafn fast að orði um þörfina á frekara aðhaldi að þessu sinni. Var því velt upp á fundinum hvort þetta mætti túlka sem svo að Seðlabankinn teldi sig komast fyrir versnandi horfur í einu skrefi með hækkuninni. Svaraði seðlabankastjóri því til að nú væri stigið stórt skref til að ná tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum en það ætti eftir að koma í ljós hvort frekari aðgerða væri þörf.

Stýrivaxtahækkanir virki

Á fundinum impraði Seðlabankastjóri á því að leiðni peningastefnunnar væri góð, hún hefði miðlast vel. „Það þýðir ekkert að halda því fram með neinum hætti að miðlunarferlið sé stíflað eða við séum ekki að hafa áhrif,“ sagði hann og bætti við að mótvindurinn væri mikill, þá væri gríðarlega mikil aukning í eftirspurn sem kæmi fram í hagvexti og að einhverju leyti líka í launahækkunum.

„Við sjáum ekki betur en að allir kanalar peningastefnunnar virki mjög vel, stýrivaxtabreytingar okkar hafi töluvert mikil áhrif, og þess vegna teljum við að það sé mjög mikilvægt að grípa til aðgerða strax og stíga stór skref.“ Vonast hann til þess að með því náist árangur fyrr og jafnvægi í efnahagslífinu. „Það er ekkert fengið með því að bíða,“ sagði hann.

Engin merki um að hægist á

Þrátt fyrir að enga stíflu sé að finna í miðlunarferlinu sögðu þau engin merki á lofti um að hægjast sé á hagkerfinu. „Það er í rauninni ekkert sem bendir beinlínis til þess að það sé eitthvað mikið að hægja á neinu. Það er hægt að toga í einhverja þræði og tína þá til, en svona heilt yfir þá er mikill þrýstingur alls staðar,“ sagði Rannveig og Ásgeir tók undir með henni.

„Það er mjög mikilvægt að peningastefnan bregðist við eins og staðan er núna og hægi á kerfinu. Eins og Rannveig segir, þá eru eiginlega engin merki um að það sé að hægja á. Kannski sjáum við það þegar á líður, ég veit það ekki. Það er allavega mjög mikilvægt að við notum þau tæki sem við höfum,“ sagði hann.

Stýrivextir

Væntingar um vaxtaþróun hafa breyst verulega á alþjóðavísu á undanförnum vikum

Seðlabanki Bandaríkjanna ákvað að hækka stýrivexti um 0,25% í gær

Seðlabanki Evrópu hækkaði stýrivexti um 0,5% í síðustu viku

Englandsbanki greinir frá vaxtaákvörðun í dag