Vignir Vatnar Stefánsson
Vignir Vatnar Stefánsson
„Þetta hafðist loksins, tók aðeins lengri tíma en ég ætlaði mér,“ segir Vignir Vatnar Stefánsson, tvítugur skákmeistari sem náði í gær lokaáfanga að stórmeistaratign eftir sigur á alþjóðlegu skákmóti í Serbíu

„Þetta hafðist loksins, tók aðeins lengri tíma en ég ætlaði mér,“ segir Vignir Vatnar Stefánsson, tvítugur skákmeistari sem náði í gær lokaáfanga að stórmeistaratign eftir sigur á alþjóðlegu skákmóti í Serbíu. Varð Vignir þar efstur með sjö vinninga af níu mögulegum.

Vignir varð þar með 16. stórmeistari Íslendinga í skák, og jafnframt næstyngstur til að ná þeim áfanga. Yngstur var Helgi Áss Grétarsson, eða 17 ára, þegar hann varð heimsmeistari unglinga í skák. Hjörvar Steinn Grétarsson varð einnig stórmeistari tvítugur, en er fæddur síðar á árinu en Vignir.

Vignir varð snemma efnilegur í skákinni, varð yngstur Íslendinga til að ná 2.400 skákstigum, aðeins 13 ára gamall. Í ársbyrjun 2022 náði hann fyrsta stórmeistaraáfanganum og öðrum áfanga um mánuði síðar. Þriðji og síðasti áfanginn náðist svo loks í Serbíu í gærmorgun.

„Ég hafði ætlað mér að klára þetta áður en ég yrði tvítugur, en það náðist ekki. Ég er samt mjög ánægður með að ná þessu loksins og get nú farið að setja mér ný markmið,“ segir Vignir við Morgunblaðið.

Næsta stórmót hans í skák er Reykjavik Open núna í lok mars, síðan er það Íslandsmótið í maí og í sumar er stefnt á þrjú mót í Tékklandi. Eftir að stórmeistaratign er komin í hús fara fleiri boð á erlend stórmót að berast. „Og þá fær maður kostnaðinn borgaðan,“ segir stórmeistarinn ungi.

Nú er stefnan sett á 2.600 skákstig en markmiðið hjá Vigni er að verða atvinnumaður í skák. „Með því að verða stórmeistari er maður kominn í hálfgerða atvinnumennsku,“ segir Vignir Vatnar. bjb@mbl.is