Margrét Magnúsdóttir fæddist á Ísafirði 17. september 1933. Hún lést á Hrafnistu Boðaþingi 4. mars 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Hannesína Bjarnadóttir, f. 1. desember 1907, d. 21. febrúar 1982, og Magnús Jónsson skipstjóri, f. 5. janúar 1909, d. 28. ágúst 1979.

Systkini hennar eru Sjöfn, f. 1929, látin; Jón, f. 1931, látinn; Bragi, f. 1936, og Sigurlaug, f. 1938, látin. Samfeðra Fríða Ingibjörg, Guðmundur og Hafdís.

Árið 1951 kynnist Margrét eiginmanni sínum, Jóni Fanndal Þórðarsyni frá Laugalandi, f. 10. febrúar 1933, d. 7. september 2015. Jón og Margrét eignuðust fimm börn og eru þau í aldursröð: 1) Hanna, f. 1953, gift Bjarnþóri Gunnarssyni, börn þeirra Kristjana, Jón Fanndal og Gunnar Pétur. 2) Helga María, f. 1956, gift Styrmi Sigurðssyni og eiga þau eina dóttur, Ástu Hlín. 3) Magnús, f. 1958, kvæntur Ernu Ragúels, börn þeirra Margrét, Linda Rós og Gunnar Már. 4) Halldór, f. 1960, kvæntur Guðrúnu Benediktsdóttur, börn þeirra Heiðar Bjarki, Þórður Helgi og Hafdís Birna. 5) Jón Þór, f. 1969, kvæntur Oddnýju Sif Guðmundsdóttur, börn þeirra Vigdís, Magnús Bjarki og Kjartan Ingi. Langömmubörnin eru 16.

Margrét ólst upp á Ísafirði, hún lauk hefðbundinni skólagöngu og lauk námi frá Húsmæðraskólanum á Ísafirði. Hún réð sig í kaupavinnu að Ármúla en þar lágu leiðir þeirra Jóns saman. Þau hófu búskap á nýbýlinu Laugarási og ráku þar garðyrkjubú til margra ára. 1984 fluttu þau til Reykjavíkur og þar starfaði hún á Borgarspítalanum þar til 1994 er þau fluttu vestur á Ísafjörð þar sem hún var með verslunarrekstur ásamt eiginmanni sínum einnig starfaði hún í Bræðratungu sem matráðskona.

Árið 2007 fluttu þau til Reykjavíkur og undu þar hag sínum vel en síðustu æviárunum eyddi Margrét á Hrafnistu Boðaþingi.

Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 23. mars 2023, klukkan 13.

Mamma lagði upp í sitt lokaferðalag laugardaginn 4. mars og hefði orðið 90 ára á þessu ári. Það er erfitt að kveðja en það er líka gæfa að hafa átt yndislega og góða mömmu sem gaf mér það besta sem ég hef lært í lífinu.

Góðar minningar úr sveitinni á mínum uppeldisárum eru svo margar. Mamma sem situr við saumavélina að sauma á okkur systkinin, mamma að baka heilu staflana af sætabrauði og í þá daga var allt eldað frá grunni. Það var oft gestkvæmt í Laugarási og þá var gaman. Mamma var snillingur í að galdra fram flott kaffiborð með glæsilega smurðu brauði og kökum enda húsmæðraskólagengin. Það var eins og hún fyndi á sér að einhver kæmi fljótlega í heimsókn. Svo liðu árin og ég kom heim með manninn minn Bjarnþór í fyrsta sinn, svo ung, en hún varð strax hrifin og treysti honum vel til að passa mig. Það var alltaf sérstaklega gott samband þeirra á milli og það var alltaf svo gott að koma með börnin okkar í heimsókn í sveitina til mömmu og pabba. Það var farið í sundlaugina á hverjum morgni.

Mamma elskaði að fara í ferðalög og á tónleika, hún fylgdist svo vel með öllu í pólitík og tísku, spurði alltaf þegar við komum til hennar hvað væri að frétta af okkur, börnum og barnabörnum. Hún hafði líka einstakt lag á að kynnast ungu fólki, spurði um allt og ekkert dregið undan.

Síðustu árin var hún á hjúkrunarheimilinu Boðaþingi og undi sér nokkuð vel þar og var alltaf svo þakklát starfsfólkinu. Hún var alltaf svo glöð að fá okkur til sín og þá helst börnin og barnabörnin en þá var dekkað borð að hætti hennar.

Elsku mamma mín. Takk fyrir allt, minning þín í hjarta mér um ókomna tíð mun ylja mér.

Þín dóttir,

Hanna.


Ertu farin elsku mamma

yfir hafið mikla, breiða.

Landamæri lífs og dauða,

leiða þig í hvolfið heiða.

Þetta ljóð orti pabbi þegar móðir hans lést og kemur það upp í huga okkar núna þegar mamma hefur kvatt þennan heim. Það er margs að minnast og hugur okkar reikar til bernskuáranna í Laugarási við Djúp. Við minnumst iðjusemi móður okkar sem sjaldan féll verk úr hendi á erilsömu heimili og tók að auki fullan þátt í garðyrkjustörfunum.

Í Laugarási var mjög gestkvæmt og oft margt um manninn. Vel var tekið á móti gestum og alltaf voru til kökur og kruðerí. Mamma var mjög fjölhæf og vandvirk hvort heldur sem var við matseld, bakstur, hannyrðir, saumaskap eða hvað annað sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var mjög félagslynd og átti einstaklega gott með að kynnast öðru fólki alveg fram á síðasta dag. Hún fylgdist vel með fólkinu sínu og því sem var að gerast í heiminum. Hún var alltaf félagslega virk og var einn af stofnendum kvenfélags Nauteyrarhrepps á sínum tíma ásamt öðrum konum í sveitinni. Hún stofnaði og rak um árabil Saumastofu Margrétar sem framleiddi vinnusloppa fyrir Frystihúsin á Vestfjörðum og fékk hún aðrar konur í sveitinni til liðs við sig við saumaskapinn.

Mamma var afskaplega barngóð og hún naut þess sérstaklega þegar hún fékk barnabörnin í heimsókn og fylgdist vel með því sem þau tóku sér fyrir hendur. Eftir að pabbi okkar lést þá leitaði hugur mömmu oft vestur í Laugarás og við systkinin fórum í tvígang með mömmu vestur og áttum dýrmætar stundir á æskuslóðunum og þá var gaman og gott að rifja upp gamlar minningar.

Eins er gott að minnast síðustu fjölskyldustundarinnar sem við áttum 10. febrúar síðastliðinn þegar pabbi hefði orðið níræður.

Eftir að hún varð ein, bjó mamma nokkur ár í þjónustuíbúð í Eirborgum þar sem hún naut stuðnings frábærs starfsfólks. Þegar heilsu hennar fór að hraka fluttist hún á hjúkrunarheimili í Boðaþingi og dvaldi þar til dánardags.

Fjölskyldan vill þakka öllum þeim sem önnuðust hana, eins þeim fjölmörgu sem glöddu hana með heimsóknum.

Elsku mamma, við þökkum þér allt það góða sem þú gafst okkur og trúum því að pabbi hafi tekið vel á móti þér og þér líði vel og sért umvafin ættingjum og vinum sem á undan eru farnir. Við heyrum í anda ykkur Systu syngja Vökudrauminn, Ljúft er að láta sig dreyma...

Man ég þig í bernsku bláma

blíð var höndin, sem mig leiddi.

Móðurástin mild og fögur

mínar æskuslóðir greiddi.

/

Þín lund var glöð sem lækur kátur

lékst þér oft við smáu börnin.

Brosið milt, með blik í augum

blíðust móðir, besta vörnin.

/

Til feðra vorra farin ertu

þar fögur blóm á grundu skarta.

Síðan munum fleiri fara

og fylgja þér í landið bjarta.

/

Nú þú býrð í himnahöllu

handan jarðlífs, amsturs, kvíða.

Þar á meðal margra vina

munt þú eftir okkur bíða.

/

Klökkur nú ég minnist móður

minning björt í huga mínum.

Þar ég veit að guð minn góður

geymir þig í faðmi sínum.

(Jón Fanndal Þórðarson)

Helga, Magnús,
Halldór og Jón Þór.

Elsku amma Magga okkar, nú ert þú komin til hans afa Jóns í blómabrekkuna fögru. Þótt það sé sárt að kveðja þig er ljúft að vita af þér í fanginu hans afa aftur.

Við minnumst ljúfra og góðra tíma með þér og stendur upp úr þegar við frænkur laumuðumst upp í fataskápinn hjá þér í Hnífsdal og héldum tískusýningar í öllum fallegu og fínu fötunum þínum við dræmar undirtektir. Þótt þú værir nú ekki alsátt með þær uppákomur á sínum tíma breyttist það eftir að þið afi fluttuð suður og byrjaðir þú þá að bjóða okkur frænkum í svokölluð frænkukvöld þar sem við fengum frjálsar hendur um fataskápinn. Þau kvöld eru ógleymanleg.

Það var alltaf gott að koma í heimsókn til þín og geta spjallað um allt á milli himins og jarðar og stóðu þær heimsóknir oft yfir í margar klukkustundir. Þú elskaðir að fá fólk í heimsókn til þín. Þú varst svo lífsglöð og elskaðir að hafa fólk í kringum þig og neitaðir sjaldan góðri veislu. Alltaf varstu með puttann á púlsinum og vissir hvað var í gangi hjá fjölskyldunni þinni og fannst fátt betra en að heyra nýjustu fréttir frá fólkinu þínu. Við minnumst þess með gleði í hjarta hversu hreinskilin þú varst og hvað þú lést allt flakka, sama hversu óheflað það var, og átti það sérstaklega við um fatavalið og tískuvitið okkar. Rifnar gallabuxur voru ekki vinsælar.

Við þökkum þér fyrir allar góðu minningarnar og þú munt ávallt lifa í hjörtum okkar. Við elskum þig og söknum þín mjög mikið.

Amma okkar svo blíð og góð,

við faðmlögum þínum ei gleymum.

Við kveðjum þig í hugarró

og hittumst við aftur í draumheimum.

Þín barnabörn,

Vigdís, Ásta Hlín og Hafdís Birna.

Skrítið að hugsa til þess amma mín að þú sért farin og að við munum ekki spjalla aftur yfir kaffibolla eða ekta súkkulaði fyrir jólin.

Margir hafa bent mér á að ég hafi verið einstaklega heppin að eiga ömmu og afa svona lengi. Fyrir mér er það bara eðlilegt en mikið er ég þakklát fyrir samfylgdina. Börn okkar Hjartar hafa verið rík af ömmum og öfum í sínu lífi. Eins og ég þekkja þau ekkert annað og eru hálfvængbrotin yfir því að nú hafi fækkað í þeim hópi en við kennum þeim að meta þann tíma sem þau hafa átt með ykkur afa og að minnast allra góðu samverustundanna.

Það eru ófáar stundirnar sem er ljúft að minnast. Ég man eftir mér í Laugarási, í gróðurhúsunum, í sundlauginni í góðu veðri, brunnin á rassinum eftir að hafa rennt mér á plastpoka í snjónum um páska og fá heitt kakó og bakkelsi á eftir, í búleik í kofanum hans Jóns Þórs, að veiða síli í ánni, stelast til að hlusta í sveitasímanum og auðvitað spennunni yfir að sjá bílljós koma niður í Skjaldfannardalinn.

Ég man eftir því þegar þið afi komuð stundum til okkar á Bakkaveginn í Hnífsdal um jól og allan þann bakstur sem fór fram korter í jól. Auðvitað var bakað fram á nótt með tilheyrandi kjaftagangi og galsa en við krakkarnir áttum að fara að sofa en lágum á hleri.

Ég man eftir stundum í Hnífsdal mörgum árum síðar, þegar þið áttuð heima á Garðaveginum. Ég ólétt að Andra Þór og Hjörtur á sjó. Þið afi tókuð það mjög alvarlega að elda ofan í óléttu konuna en ég borðaði allt sem var borið á borð. Ljúffengast fannst mér allt úr fiski sem var í matinn, eitthvað sem ég hafði aldrei borðað áður t.d. saltaðar kinnar, gellur, saltfiskur og fleira. Þið afi höfðuð lag á að gera þetta allt girnilegt og er þetta með því besta sem ég fæ í dag.

Ég man einnig eftir sláturgerðinni í Sjálandinu þegar Peta Guðrún var nýfædd. Við mamma, amma og afi gerðum slátur og ég skrifaði allt samviskusamlega niður. Það hefur reyndar ekki komið yfir mig löngun aftur til þess að taka slátur en gott að vita af uppskriftunum frá ykkur og ljúft að ylja sér við minninguna.

Amma fylgdist vel með allri þjóðfélagsumræðu og spurði okkur Hjört út í alla fjölskyldumeðlimi okkar beggja í hverri heimsókn. Hún hafði gaman af því að spyrja Hjört út í það sem stóð hæst hverju sinni en hann vissi vel hvar ætti að gefa í og ýkja svolítið en þá sagði hún alltaf: Nei Hjörtur, nú lýgur þú.

Amma var glaðlynd, ákveðin og hreinskiptin manneskja en maður þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af því að hún segði ekki nákvæmlega það sem henni fannst. Hún lét mig alveg vita ef veskið var ljótt eða klippingin ekki að hennar skapi.

Elsku amma, ég finn enn svo sterkt fyrir stóra og gefandi persónuleika þínum en ég veit að hann mun fylgja mér út lífið. Nú þarftu ekki að hringja og spyrja hvað ég sé að elda heldur verður þú við hlið mér og laumast til þess að hella smá sykri og ást yfir.

Elska þig út í geim og aftur heim,

þín

Kristjana.

Mér brá að vonum þegar Halldór frændi, sonur Möggu, tilkynnti mér andlát móður sinnar. Komu upp í huga mér orðin „frestaðu ekki til morguns því sem þú getur gert í dag“, en tveimur dögum áður varð mér hugsað til Möggu frænku og væri nú kominn tími til heimsóknar, sem ekkert varð af því miður. Þess í stað yljar maður sér við minningar liðins tíma, sem eru margar og allar góðar. Magga frænka var stórbrotin kona, forkur til allra starfa, myndarleg húsmóðir og móðir, röggsöm og sagði sína meiningu afdráttarlaust. Hún þoldi ekki vol eða væl en gekk til allra verka sem þurfti og lauk þeim. Það var mér tíu ára púka mikil upplifun að heimsækja Möggu frænku og Jón Fanndal í Laugarás, hvar þau höfðu byggt sér íbúðarhús og gróðurhús, það nyrsta í heimi sagði Jón Fanndal mér. Það var ævintýralegt að koma inn í gróðurhús í fyrsta skipti og fá að tína tómata og leggja sér til munns beint af plöntunni. Já þær voru margar heimsóknirnar til Möggu og hver annarri skemmtilegri og fróðlegri. Magga var sú manneskja í okkar ætt sem hafði allt á hreinu; nöfn, fæðingardaga þriggja kynslóða og allt það sem var efst á baugi á hverjum tíma. Ef einhverjar upplýsingar vantaði um frændur eða frænkur þá var hringt eða farið til Möggu og „málið leyst“. Síðustu árin átti frænka við líkamlegt heilsuleysi að stríða en hugurinn sá sami og áður, lifandi, glettinn og spaugsamur, hún spurði mann spjörunum úr og setti inn á „harða diskinn“ og minnti mann stundum á það í næstu heimsókn. Nú er elskuleg móðursystir mín komin yfir móðuna miklu og væntanlega búin að hitta bónda sinn Jón Fanndal, en til þeirra funda hafði hún hlakkað í nokkur ár.

Ættingjum Möggu sendum við hlýjar samúðarkveðjur.

Þorsteinn Jóhannesson og fjölskylda.