[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Júlí Heiðar Halldórsson og rapparinn Kristmundur Axel Kristmundsson eru ekki sömu menn og þeir voru fyrir þrettán árum þegar þeir gáfu saman út hittarann Komdu til baka. Leiðir þeirra lágu þó aftur saman á dögunum þegar þeir…

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Júlí Heiðar Halldórsson og rapparinn Kristmundur Axel Kristmundsson eru ekki sömu menn og þeir voru fyrir þrettán árum þegar þeir gáfu saman út hittarann Komdu til baka. Leiðir þeirra lágu þó aftur saman á dögunum þegar þeir spiluðu saman á Hlustendaverðlaununum, en af því tilefni sömdu þeir nýtt lag saman, lagið Ég er, þar sem þeir gera upp síðustu 13 árin. Þeir mættu í morgunþáttinn Ísland vaknar og ræddu við þau Kristínu Sif og Ásgeir Pál um nýja lagið og rifjuðu upp gamla tíma.

Framhald af hinu laginu

„Þetta var bara rétta andartakið og þetta gerðist í raun og veru mjög hratt,“ sagði Kristmundur í viðtalinu.

„Eins og er búið að koma margoft inn á við okkur, þetta er nánast bara framhald af hinu laginu. Sem er nánast ómögulegt að gera. En okkur tókst það, nánast. Út af því að við fórum í þessu lagi yfir ferðalagið sem þetta líf, þessi þrettán ár, eru búin að vera og hvað er búið að gerast hjá okkur. Á svona einlægan hátt en með gleðina að vopni,“ sagði Kristmundur sem segist hafa heyrt marga segja að lagið hafi fengið þá til að pæla í lífinu og fortíðinni. „Það er svo langt síðan ég var hér síðast. Stóðum á toppnum fyrir 13 árum síðan. Gengið gegnum tímana tvenna. Batnandi mönnum er samt best að lifa,“ syngur Júlí Heiðar meðal annars í laginu, sem er fullt af tilfinningum og nostalgíu en einnig mikilli bjartsýni og gleði.

„Þetta var svolítið þannig að við vorum beðnir að spila á hlustendaverðlaununum. Þau vildu fá einhver lög. Og svo sögðu þau: Við værum líka til í eitthvert „throwback“, einhverja nostalgíu,“ lýsti Júlí, sem segir að hvorugur þeirra hafi hikað við að segja já við að stíga aftur á svið og flytja lagið Komdu til baka.

„Þá kom hugmyndin: Við gerum bara nýtt lag,“ sagði Júlí.

Þeir tóku undir að þeir hefðu báðir þroskast og breyst mikið frá því að fyrra lagið kom út.

„Ég held að ég hafi fengið fyrsta hárið á punginn daginn eftir að þetta kom út,“ sagði Kristmundur kíminn.

Þrátt fyrir að þeir Júlí hefðu ekki séð hvor annan í mörg ár þegar þeir hittust aftur í hljóðveri til að klára lagið sögðu þeir að það hefði verið eins og þeir hefðu hist í gær.

„Það eru komin þrettán ár síðan við gerðum þetta lag og það er bara svolítið langt síðan. Þrettán ár eru langur tími og við höfðum ekki hist lengi. Við vorum góðir vinir á þessum tíma líka. Ég finn það bara að það voru endurfundir að hitta Júlí aftur,“ sagði Kristmundur.

„Það hafði ekkert breyst, en samt svo mikið búið að breytast,“ sagði Júlí.

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir