Indriði Ketilsson
Indriði Ketilsson
Ég leyfi mér að hrósa og vekja athygli á hve bygging og rekstur sjúkrahótels við hlið LSH er þarft og gott fyrirtæki.

Indriði Ketilsson

Lengi hefur það tíðkast að mörgum spjótum sé beint að heilbrigðiskerfi okkar og Landspítali – háskólasjúkrahús ekki síst orðið fyrir þeim. Mig langar að segja stutta sögu af viðskiptum mínum við það og LSH.

Rétt fyrir síðustu jól greindist ég með meinsemd í ristli. Læknir minn á Húsavík taldi þörf á að fjarlægja hana og sendi beiðni um slíkt til LSH. Fékk ég svo boð þaðan í þorrabyrjun um að koma til aðgerðar 10. febrúar. Var ég skorinn í sundur og skeyttur saman, ef svo má segja, meinsemdin burt og hluti ristils. Lá svo fjóra daga á LSH við bestu aðbúð, en síðan fengum við kona mín, sem líka veitti dýrmætan stuðning, vist á sjúkrahóteli LSH rétt við hliðina, allt til 2. mars. Lauk svo eftirliti með þeim orðum skurðlæknis að aðgerðin hefði ekki mátt lengi bíða.

Ég leyfi mér að hrósa og vekja athygli á hve bygging og rekstur sjúkrahótels við hlið LSH er þarft og gott fyrirtæki og viðmót og umhyggja starfsfólks þess góð. Þessi aðstaða er sérstaklega dýrmæt þeim sem fjarri búa, en notast líka vel mörgum höfuðborgarbúum sem af ýmsum ástæðum eiga ekki hægt með ferðir eða heimadvöl. Sumir þurfa daglega þjónustu á LSH, jafnvel vikur og mánuði. Þakkir mínar eiga allir sem ég mætti á þessum ferli og studdu bata minn.

Höfundur er bóndi á Ytra-Fjalli í Aðaldal.

Höf.: Indriði Ketilsson