Laufey Lilja Ágústsdóttir, Freyja Björk Dagbjartsdóttir og Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson ræddu um sinn verkahring á Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðinu.
Laufey Lilja Ágústsdóttir, Freyja Björk Dagbjartsdóttir og Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson ræddu um sinn verkahring á Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við þrjú vinnum á Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviði hjá Landsvirkjun,“ segir Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson, doktor í eðlisfræði, og vísar til þeirra Laufeyjar Lilju Ágústsdóttur og Freyju Bjarkar Dagbjartsdóttur sem fást þar við nýsköpun í orkumálum í breiðum skilningi

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Við þrjú vinnum á Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviði hjá Landsvirkjun,“ segir Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson, doktor í eðlisfræði, og vísar til þeirra Laufeyjar Lilju Ágústsdóttur og Freyju Bjarkar Dagbjartsdóttur sem fást þar við nýsköpun í orkumálum í breiðum skilningi. „Við reynum að einbeita okkur að því í okkar vinnu sem við teljum vera vænlegast til árangurs, bæði fyrir Landsvirkjun og Ísland,“ heldur hann áfram.

Orkuskiptin, það er brotthvarf frá jarðefnaeldsneyti í þágu móður jarðar og íbúa hennar, kveður Daði þar efst á baugi ásamt loftslagslausnum og tekur fram að þar eigi hann við það sem eftir er af orkuskiptum. „Íslendingar eru náttúrulega búnir að ljúka orkuskiptum í raforku og húshitun að langmestu leyti, en hvað snertir samgöngur á landi, sjó og í lofti er þeim enn ólokið hér.“

Vetnisdrifið flug spennandi

Sú umbreyting sé þeim viðmælendunum á sviði viðskiptaþróunar og nýsköpunar hugleiknust, ekki þó á þeim vettvangi sem mörgum flýgur líkast til fyrst í hug. „Við erum ekki svo mikið að pæla í rafbílum og rafbílavæðingu, það ferli gengur mjög vel og er langt á veg komið á Íslandi miðað við mörg önnur lönd. Landsvirkjun er heldur ekki að selja raforku í smásölu svo við erum ekki að reyna að selja rafbílaeigendum raforku beint, við erum meira að skoða hvað er næst, hvaða aðrir flokkar eru þarna,“ heldur Daði áfram og nefnir þar þungaflutninga, vöruflutningabifreiðar sem aki um langa vegu með þungan farm.

Vetnisdrifið innanlandsflug sé einnig spennandi rannsóknarefni þótt þar geti aðrir orkugjafar einnig vel komið til greina. „Okkar hlutverk er að búa til verkefni sem gætu orðið að veruleika, eitthvað sem gagnast en er samt ekki bara eitthvað uppi í skýjunum, þetta þarf allt að vera á viðskiptalegum grundvelli líka,“ útskýrir eðlisfræðingurinn og segir nýjar grænar lausnir eiga hug Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs allan.

„Til dæmis höfum við átt samtöl við fyrirtæki sem hafa áhuga á að framleiða fiskeldisfóður úr koltvíoxíði og raforku, eða rafeldsneyti á fiskiskip sem getur til dæmis verið metanól framleitt úr koltvíoxíði og raforku,“ nefnir Daði. Hann á að baki fjögurra ára starfsferil hjá Landsvirkjun og hóf störf á sínum tíma í jarðvarmadeild eftir að hafa starfað hjá ráðgjafarfyrirtæki á sviði endurnýjanlegrar orku í Danmörku þar sem hann var við nám.

„Mörg okkar verkefna stuðla einnig að hringrásarhagkerfi, þetta eru verkefni þar sem úrgangur eins getur orðið auðlind annars. Grænir iðngarðar væru þá dæmi um slíka starfsemi þar sem fyrirtæki geta staðsett sig nálægt hvert öðru og nýtt auðlindir hvert annars,“ segir Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson að lokum.

Leiðir samningaviðræður

„Það er mjög lýsandi fyrir áherslur okkar að ég hafi sóst eftir því að tilheyra teyminu,“ segir Laufey Lilja Ágústsdóttir sem skartar meistaragráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. „Ég var áður umhverfissérfræðingur hjá fyrirtækinu en ég gat ekki sleppt því að sækja um þessa stöðu þegar ég sá hvað þau voru að gera,“ heldur hún áfram.

Hún er viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun og hefur því augun á fleiri viðskiptatækifærum en orkuskiptunum, „þau eru svolítið lengra inni í framtíðinni“, segir Laufey og á við teymisfélagana Daða og Freyju Björk. Laufey skoðar skamm- og langtímaviðskiptatækifæri, hvort tveggja bein tækifæri til raforkusölu og forgangsröðun í raforkusölu auk þess sem hún leiðir samningaviðræður við ný viðskiptatengsl.

Að láta góða hluti gerast

„Við erum að skoða hvernig við getum leyst orkuskipti í samgöngum á Íslandi með sem hagkvæmustum hætti. Það er svo mikilvægt að huga að samkeppnishæfni og verðmætasköpun í samhengi orkumála á Íslandi. Það er grundvallaratriði að hafa í huga hvað hlutir kosta og hvaða efnahagslegu verðmæti þeir skapa sem er jafnmikilvægt og að huga líka að umhverfi og samfélagi og allt tengist þetta nánum böndum og skapar saman grundvöll til langtímasamkeppnishæfni Íslands. Við getum ekki farið í það að leysa öll vandamál á Íslandi með einni lausn. Öllu máli skiptir að við séum í góðu samtali og upplýstri ákvarðanatöku,“ útskýrir Laufey.

Kveður hún mikilvægt að skoða hvaða tækni henti best þegar kemur að sjálfbærri nýtingu auðlinda og hvernig þær verði nýttar á sem hagkvæmastan hátt fyrir umhverfi og samfélag. „Það er það sem er kannski skemmtilegast við þessa vinnu, þarna er um að ræða stefnumótun til langs tíma sem gengur út á að láta góða hluti gerast á Íslandi,“ heldur viðskiptaþróunarstjórinn áfram.

Tækifærin knýja dyra

Spurð út í þá athygli sem Ísland hefur notið víða erlendis vegna sérstöðu lands og þjóðar í orkumálum segir Laufey mörg augu vissulega beinast að landinu. „Ef við horfum á áhugann eins og hann er núna hefur aldrei verið meiri eftirspurn eftir raforku á Íslandi en akkúrat í dag. Þetta er í raun bara ný staða sem endurnýjanleg orkufyrirtæki standa frammi fyrir. Ef við lítum aðeins til baka voru íslensk orkufyrirtæki mun meira í því að reyna að laða spennandi tækifæri til Íslands, en núna koma öll þessi tækifæri og banka á dyrnar hjá okkur,“ segir hún.

Þarna þurfi þó að vera á varðbergi, vitaskuld séu það ekki endilega alltaf bestu tækifærin sem banka. „Þess vegna er mjög mikilvægt að við séum gagnrýnin og þá skiptir öllu máli að hugsa um samkeppnishæfnina og verðmætasköpun á Íslandi,“ segir Laufey Lilja Ágústsdóttir.

Reyna að skilja og þróa

Allt er þegar þrennt er og efnaverkfræðingurinn Freyja Björk lokar hring viðskiptaþróunar og nýsköpunar en þekking hennar á rafeldsneytismálum er teyminu ómissandi. „Nú er heimurinn að keppast við að rafvæða sem mest, bæði í samgöngum og iðnaði, skipta út rafmagni sem framleitt er með kolum og gasi fyrir endurnýjanlegt rafmagn samhliða því að framleiða meira rafmagn,“ byrjar Freyja sem er að leggja lokahönd á doktorsverkefni sitt eftir nám í Cambridge og Singapúr.

Íslendingar búi svo vel að þurfa ekki að skipta eldri orkugjöfum út þegar rafmagnsframleiðsla er annars vegar, hér á landi nægi að auka framleiðsluna og beina henni að réttum verkefnum. „Það sem við skoðum meðal annars er hvað við getum framkvæmt núna og svo hvað gerist í framtíðinni, þetta er ekki þekking sem þú sankar að þér yfir nótt heldur byggist hún á margra ára ferli. Ef ég einfalda þetta mikið þá erum við að reyna að skilja og við erum að reyna að þróa,“ útskýrir Freyja.

Mikilvægt að byggja þekkingu

Íslenskir orkuboltar vilji ekki sitja á hliðarlínunni og fylgjast með heldur vera í atburðarásinni miðri og taka þátt í þróuninni með þekkinguna að vopni og nefnir Freyja uppsetningu virðiskeðju vetnis á Íslandi sem dæmi um þróunarvinnu teymisins. „Einn af kostunum við að vera í þessu starfi er að það er yfirleitt talað við okkur, við erum svo græn,“ segir Freyja og hlær. Vísar hún þar til þess að erlend stórfyrirtæki sem eru að þróa einhverja tækni setji sig í samband og hafi mörg hver áhuga á að starfa á Íslandi.

Enn fremur kveður hún mikilvægt að byggja upp þekkingu innanlands, til dæmis í tengslum við vetni sem eldsneyti, einhverjir þurfi að reka þær vélar sem fyrir því munu ganga og sú reynsla sem fyrir er byggi einkum á hefðbundnum brunavélum.

„Stærðarhagkvæmnin er hins vegar ekki alltaf með okkur í liði, við erum lítið land, en núna erum við auðvitað að einbeita okkur að innlendum orkuskiptum og við glímum kannski við dálítið öðruvísi áskoranir en mörg önnur lönd. Ég myndi þó segja að við stæðum vel og værum í góðu sóknarfæri,“ segir Freyja Björk Dagbjartsdóttir, síðust Landsvirkjunarviðmælenda.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson