Klippt á strenginn Öflugar vökvaklippur eru notaðar til að losa möstrin af undirstöðum og fella þau. Verkið hefur gengið vel til þessa.
Klippt á strenginn Öflugar vökvaklippur eru notaðar til að losa möstrin af undirstöðum og fella þau. Verkið hefur gengið vel til þessa. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðustu möstur gamallar raflínu sem nefnd hefur verið Rauðavatnslína eru að falla þessa dagana. Loftlínan hefur lokið hlutverki sínu og hefur verið lögð í jarðstrengi til að rýma fyrir þróun byggðar á þessu svæði

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Síðustu möstur gamallar raflínu sem nefnd hefur verið Rauðavatnslína eru að falla þessa dagana. Loftlínan hefur lokið hlutverki sínu og hefur verið lögð í jarðstrengi til að rýma fyrir þróun byggðar á þessu svæði.

Sogslína 2 og Elliðaárlína 1 lágu á milli virkjana Rafmagnsveitu Reykjavíkur í Soginu og Elliðaám með viðkomu við Hveragerði og voru teknar í notkun fyrir 70 árum, árið 1953. Fé úr Marshall-aðstoðinni sem Bandaríkjamenn veittu Íslendingum og fleiri þjóðum eftir seinni heimsstyrjöldina var notað til að byggja línurnar. Stálið í möstrin var flutt til landsins með skipi sem verið hafði í flutningum á lausum áburði. Stór hluti þess skemmdist í pæklinum og fór fljótlega að ryðga. Vinnuflokkur vann að ryðhreinsun og málun mastranna á hverju sumri fram yfir 1970 en þá var ákveðið að leyfa þeim að ryðga.

Línurnar frá Sogsvirkjun að tengivirki Landsnets á Geithálsi eru enn í fullum rekstri og segir Smári Jóhannsson, sérfræðingur hjá Landsneti, að línan hafi þrátt fyrir allt reynst vel. Hún sé svo léttbyggð. Loftlínan í og við Reykjavík hefur smám saman orðið að víkja vegna þróunar byggðar, til dæmis við byggingu Árbæjarhverfis. Línurnar við höfuðborgarsvæðið hafa verið lagðar í jörðu.

Nú eru aðeins eftir sjö stálgrindarmöstur og eitt strengendavirki á milli tengivirkisins á Geithálsi og tengivirkis Veitna, A12, ofan við Rauðavatn. Unnið er að því í þessari viku að fella og fjarlægja þessi möstur. Að því búnu verða undirstöðurnar brotnar upp.