Togararall Stofnmæling þorsks er framkvæmd öðruvísi en í tilfelli loðnu þar sem eðlismunur tegundanna kallar á mismunandi aðferðafræði.
Togararall Stofnmæling þorsks er framkvæmd öðruvísi en í tilfelli loðnu þar sem eðlismunur tegundanna kallar á mismunandi aðferðafræði. — Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun/Svanhildur Egilsdóttir
„Ráðgjöf tengd loðnu og þorski er í eðli sínu ólík og byggist á mismunandi forsendum og aðferðum,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, sviðsstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, innt álits á vangaveltum um það hvers vegna ekki sé…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

„Ráðgjöf tengd loðnu og þorski er í eðli sínu ólík og byggist á mismunandi forsendum og aðferðum,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, sviðsstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, innt álits á vangaveltum um það hvers vegna ekki sé hægt að viðhafa sama sveigjanleika í stofnmælingum þorskstofnsins og loðnustofnsins.

Fyrr í mánuðinum var fjallað um það í Morgunblaðinu að mokveiði hafi verið hjá krókaaflamarksbátunum og að ónýttar aflaheimildir væru af skornum skammti. Beðinn um að rýna í stöðuna fullyrti Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, að góð veiði væri ekki annað en vísbending um stóran fiskistofn og gagnrýndi hann aðferðir Hafrannsóknastofnunar. „Ef fiskast ekki nógu mikið af loðnu í fyrsta leiðangri [Hafrannsóknastofnunar] er bara haldið áfram í annan og þriðja. Þegar það er þorskur annars vegar virðist ekki koma til greina að taka upp slíka aðferðafræði,“ sagði hann.

Leita ekki þorskinn uppi

„Fyrir fisk eins og loðnu, sem fer um í stórum torfum, er skammlíf, getur nýliðun inn í veiðistofninn verið afar hröð ef árgangar eru stórir. Þá getur verið eðlilegt að byggja ráðgjöf á eiginlegum mælingum á veiðistofninum, s.s. loðnuleit með bergmálsmælingum. Þannig má hámarka nýtingu stofnsins.

Varðandi þorsk þá er í fyrsta lagi mjög erfitt eða ómögulegt að mæla massa eða fjölda þorska í veiðistofninum með sambærilegum hætti og fyrir loðnu. Með stofnmatsleiðöngrum er leitast við að ná mælingum á fjölda (sem þó verður aldrei annað en fjöldi í hlutfalli við fyrri ár) en ekki síst á samsetningu stofnsins með tilliti til aldurs og þyngdar. Byggt á gögnum úr leiðöngrum, auk aflatalna og mælinga úr afla, má fylgja afdrifum hvers árgangs í stofninum og áætla (reikna) stærð veiðistofns og vænts hrygningarstofns. Þannig má gefa áreiðanlega ráðgjöf um þann heildarfjölda sem má fjarlægja úr stofninum með veiðum án þess að ógna hrygningu og þar með nýliðun,“ útskýrir Guðbjörg.

Hún segir aðferðina því alls ekki byggjast á því að leita að þorski eða veiða þar sem eru mestu líkurnar á að fá tegundina í veiðarfærin. Heldur sé markmiðið að „ná hlutlausri mælingu og sýnatöku úr heildarstofninum. Það er auðvitað miserfitt að meta stofnstærð með þessum hætti en fyrir þorsk er matið mjög áreiðanlegt þar sem ítarlegar og langar gagnaseríur liggja fyrir.

Þá má bæta við að markmiðin í aflareglu fyrir tegundirnar eru gjörólík. Fyrir þorskinn er einmitt markmiðið að halda stofninum stórum til þess að draga úr sveiflum í ráðgjöf á meðan í loðnunni er reynt að tryggja lágmarksstofnstærð.“

Aðgengi að hrágögnum

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum, eða svokallað mars- eða vorrall, hófst 27. febrúar síðastliðinn og er nú að mestu lokið. Spurð um gang rallsins og niðurstöður þess, kveðst Guðbjörg ekki geta veitt slíkar upplýsingar utan formlegra leiða stofnunarinnar.

„Hafrannsóknastofnun stefnir hins vegar að því að auka aðgengi að hrágögnum úr stofnmælingaleiðöngrum almennt. Þessi gögn verður þó alltaf að yfirfara vandlega áður en þau eru gerð aðgengileg enda veltur mikið á áreiðanleika þeirra,“ segir hún.