Heillandi „Tónlistin er svo rosalega heillandi, skemmtileg og grípandi,“ segir Magnús Ragnarsson sem stýrir Kór Langholtskirkju og hljómsveit á hátíðartónleikum um helgina. Tónleikarnir eru liður í afmælisdagskrá kórsins.
Heillandi „Tónlistin er svo rosalega heillandi, skemmtileg og grípandi,“ segir Magnús Ragnarsson sem stýrir Kór Langholtskirkju og hljómsveit á hátíðartónleikum um helgina. Tónleikarnir eru liður í afmælisdagskrá kórsins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kór Langholtskirkju fagnar 70 ára afmæli í ár og af því tilefni býður kórinn til hátíðartónleika í Langholti sunnudaginn 26. mars kl. 16 þar sem óratórían Messías eftir Georg Frideric Händel verður flutt ásamt hljómsveit

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Kór Langholtskirkju fagnar 70 ára afmæli í ár og af því tilefni býður kórinn til hátíðartónleika í Langholti sunnudaginn 26. mars kl. 16 þar sem óratórían Messías eftir Georg Frideric Händel verður flutt ásamt hljómsveit. Magnús Ragnarsson, organisti og kórstjóri, er vel kunnugur verkinu sem er iðulega nefnt með ástsælustu óratóríum tónlistarsögunnar og sennilega það þekktasta. Hér á landi hefur það margoft verið flutt við góða aðsókn.

Mikil tengsl við verkið

„Händel hafði verið að skrifa óperur að ítölskum sið í Þýskalandi með misjöfnum árangri og það er ekki fyrr en hann flytur til Englands að hann fer að vinna með óratóríuna og úr verður þetta verk sem segir sögu Jesú Krists allt frá spádómum um fæðingu frelsarans til krossfestingar hans, dauða og upprisu. Ég söng óratóríuna með kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar 1996 minnir mig og þá kynntist ég henni fyrst en hún hafði verið flutt á nokkurra ára fresti fram að því. Ég hef líka undirbúið kórinn nokkrum sinnum fyrir Sinfóníuhljómsveitina og svo þegar ég tók við stjórn kórsins 2017 fluttum við óratóríuna ári síðar. Mjög ánægjulegt og skemmtilegt, í minningunni.“

Það komu því fá önnur kórverk til greina þegar undirbúningur hófst við 70 ára afmælið, segir Magnús og úrvalslið söngvara fenginn til verksins sem höfðu bæði sterk tengsl við kórinn og verkið en auk Elmars Gilbertssonar tenórs syngja einsöng Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran sem söng með kórnum á sínum tíma, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran sem hefur átt krakka í barnakórum kirkjunnar og Bjarni Thor Kristinsson bassi sem söng verkið undir stjórn Jóns Stefánssonar organista Langholtskirkju sem stýrði kórastarfi kirkjunnar í rúma hálfa öld.

Dramatík og léttleiki

Aðspurður hvað það sé við Messías sem aðgreini það frá öðrum óratóríum, segir Magnús að það sé sérlega gaman að vinna með verkið, æfa það og slípa til.

„Tónlistin er svo rosalega heillandi, skemmtileg og grípandi. Ég hef töluvert unnið með Bach og hann er allt öðruvísi. Maður þarf að hafa meira fyrir honum sem getur reynt á taugarnar. Händel er ekki síður krefjandi því það er mikið af kólóratúr og hröðum nótum sem þarf að syngja sem krefst mikillar snerpu en hann er melódískari og grípandi. Um leið býður hann upp á dramatík og léttleika svo það er mikið að gera hjá kórnum sem okkur finnst sérstaklega skemmtilegt.“

Mikið fyrirtæki

Messías var samin á 24 dögum sumarið 1741 en frumflutt á góðgerðartónleikum í Dublin ári síðar og varð fljótlega feykivinsælt. Händel átti það hins vegar til að breyta verkinu frá einum flutningi til annars, sennilega til að aðlaga það að söngvurum og hljómsveit á hverjum stað, segir Magnús.

„Hann breytti til dæmis sumum aríum í dúetta og alt-rödd yfir í bassa-rödd og svo framvegis þannig að það er ekki til ein rétt útgáfa. Hjá okkur í Langholtskirkju verða þetta rétt rúmlega tveggja tíma tónleikar og ásamt kórnum, sem telur hátt í 40 manns, þá leikur strengjasveit undir auk sembals, páku, óbós, fagotts og trompet-sveitar.“

Mikið fyrirtæki ímyndar maður sér og Magnús tekur undir það. Undirbúningur fyrir svona stórtónleika hefjist heilu ári fyrir settan tónleikadag. Ráða þurfi einsöngvara snemma því margir þeirra séu bókaðir langt fram í tímann í tónleikahúsum víða um veröld, einnig þurfi að ráða aukasöngvara í kórinn, velja og safna saman réttu nótunum, ráða hljóðfæraleikara en sömuleiðis fari gríðarlega mikill tími og orka í að skipuleggja æfingar fyrir allan þennan fjölda listamanna. Það geti verið mikið púsluspil sem og að afla styrkja og fjármagns því mikill vilji sé til að halda miðaverði í algjöru lágmarki svo fleiri hafi efni á að koma og heyra. Jafnvel þótt það þýði að tónleikarnir beri sig ekki að fullu.

„Annars hefur þetta gengið mjög vel hingað til. Þeir sem hafa sungið þetta verk áður muna það mjög vel þannig að þeir hjálpa þeim mikið sem eru að syngja það í fyrsta skipti. Við héldum opna æfingu um daginn þar sem við buðum öllum sem hafa sungið verkið áður og það kom mörgum á óvart hversu vel þeir mundu sínar raddir, jafnvel áður en þeir opnuðu nótnabókina. En mesti hausverkurinn er eiginlega kynningarvinnan. Það er svo gríðarlega mikið í boði og erfitt að komast að.“

Kórinn á góðum stað

Ég spyr að lokum hvernig kórinn hyggist fagna tímamótunum það sem eftir lifir af árinu.

Við höldum bara áfram okkar starfi en erum að gæla við að taka annað eftirlætisverk í haust sem er Náttsöngvarnir eftir Rakhmanínov og oft er kallað Vespers enda eru 150 ár liðin frá fæðingu hans. Rosalega flott verk án undirleiks og sungið á slavnesku og svo ætlum við kannski í kórferð út á land. Svo höfum við upp á síðkastið reynt að taka vorið frá fyrir upptökur og gefið út. Í fyrra gáfum við út tónverk eftir mig, þar áður verk eftir Þorvald Örn Davíðsson og höfum einsett okkur að vera duglegri við það. Annars er ég mjög hamingjusamur með hvað kórinn er á góðum stað núna. Áhugavert hvernig hann hefur þróast því þegar hann er stofnaður 1953 þá samanstóð hann af 12 söngvurum sem æfðu og sungu þessa almennu sálma. Svo tekur Jón Stefánsson við áratug síðar og smátt og smátt fer kórinn að taka á sig þá mynd sem við þekkjum í dag. Mikið tónleikastarf stutt af þessari frábæru kirkju sem við eigum sem hentar gríðarlega vel fyrir kórsöng og stórar óratóríur eins og Messías. Kirkjan hljómar guðdómlega og það er líka gaman að upp er komin kynslóð tónlistarmanna sem kunna að beita hljóðfærinu og aðlaga sinn leik að kirkjunni og hljómburðinum sem gerir gæfumuninn,“ segir Magnús augljóslega bjartsýnn á framtíðina í Langholti. Miðar fást á tix.is.