Augljóst er orðið að meirihlutinn vissi betur þegar hann lofaði lausn á leikskólamálum fyrir síðustu kosningar

Leikskólamál voru rædd á fundi borgarstjórnar í fyrradag og ekki seinna vænna. Sú mynd hefur smám saman verið að skýrast að í stað þess að borgin sé búin að ná tökum á þessum málaflokki, líkt og meirihlutinn lofaði fyrir kosningar síðasta vor, þá ríkir þar alger upplausn og neyðarástand hjá fjölda foreldra.

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ræddi þetta á borgarstjórnarfundinum og benti meðal annars á að neyðarástandið hefði orðið á vakt Samfylkingarinnar, en sá flokkur hefur lengst af á síðustu árum haft forystu í þessum málum, ef svo má að orði komast um þau vinnubrögð sem stunduð hafa verið. Og Marta sagði þetta neyðarástand furðulegt „þegar haft er í huga að Samfylkingin í Reykjavík hefur lofað barnafjölskyldum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla í að minnsta kosti 12 ár. Þetta hefur verið stefna og kosningaloforð þess flokks í Reykjavík frá 2010 og jafnframt skreytt alla málefnasamninga meirihlutans á þessum tímabili.“

Marta hélt áfram og rifjaði upp að í byrjun mars í fyrra hefði borgarstjóri fengið borgarráð til að samþykkja tillögu um að þessu markmiði yrði náð 1. september það ár, „og síðan varð þetta helsta kosningaloforð borgarstjóra og Samfylkingar í kosningunum, síðastliðið vor. Þá vissi borgarstjóri vel að slíku markmiði yrði með engu móti náð á svo skömmum tíma. Enda kom það á daginn. Eftir erfiðar kosningar fóru menn í langt sumarfrí og ekkert var aðhafst í málaflokknum allt sumarið. Í ágústmánuði, fjölmenntu foreldrar með börn sín í Ráðhúsið til að mótmæla innantómu loforði. Þá lofaði meirihlutinn aftur upp í ermina á sér, að frá ágústmánuði og út síðasta ár myndu bætast við 533 leikskólarými og að meðalaldur leikskólabarna yrði 14-15 mánaða fram að áramótum og færi lækkandi eftir það þannig að markmiðinu langþráða, yrði því brátt náð. Það voru einnig innantóm loforð.“

Allt er þetta með miklum ólíkindum enda sem betur fer sjaldgæft að ósannindum sé haldið svo skipulega og ítrekað að kjósendum, en afleiðingin er auðvitað sú að nú blasir við hverjum manni hvernig komið er og hver skýringin er.

Það er enda athyglisvert að skoða þær skýringar, eða öllu heldur dapurlegar afsakanir, sem Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrrverandi formaður skóla- og frístundaráðs borgarinnar, hefur upp á að bjóða. Rót vandans er að hans áliti lagasetning á Alþingi árið 2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, sem hafi stóraukið álag á leikskólana og viðhaldið hárri starfsmannaveltu. Við þetta hafi bæst lagasetning frá árinu 2019 sem aukið hafi á vandann.

Nú kann að vera að þetta skýri að einhverju leyti vandann, þó að önnur sveitarfélög glími að vísu ekki við sama vanda þrátt fyrir sama lagaumhverfi. En það breytir því ekki að þessi löggjöf lá öll fyrir þegar að Samfylkingin og aðrir flokkar í meirihlutanum gáfu loforð sitt fyrir kosningar í fyrra. Hafi frambjóðendum flokksins verið þetta ljóst, sem þeim bersýnilega var, voru þeir að segja kjósendum ósatt.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gefur ýmsar ámóta sannfærandi skýringar á sviknum loforðum meirihlutans. Myglan er vinsæl afsökun meirihlutans, eins og hún hafi fyrst komið í ljós síðastliðið haust, og borgarstjóri segir að þar sé um að ræða „risastórt samfélagslegt verkefni“ í stað þess að taka sjálfur ábyrgðina. Þetta er allt öðrum að kenna, og þá meðal annars einkareknu leikskólunum í borginni, sem nú er komið í ljós að hafa í einhverjum tilvikum samið um að taka við börnum frá öðrum sveitarfélögum. En þá hljóta borgarbúar með börn á leikskólaaldri sem ekki fá pláss að spyrja hvers vegna í ósköpunum borgin var ekki búin að tryggja sér þessi pláss.

Loks telur Dagur að lausnin á vandanum liggi hjá ríkinu. Alþingi geti lengt fæðingarorlofið. Það sé „töfralausn“ sem „tekur engan tíma,“ segir borgarstjóri.

Uppgjöf meirihlutans í Reykjavík í leikskólamálum er með öðrum orðum alger. Meirihlutinn býður engar lausnir og breytir þar engu þó Framsóknarflokkurinn, að eigin sögn boðberi breytinga í síðustu kosningum, hafi nú slegist í hópinn og jafnvel tekið að sér að leiða málaflokkinn. Hvers vegna sá ágæti flokkur er sáttur við að taka á sig ábyrgð á vanda meirihlutans í þessum málaflokki, líkt og ýmsum öðrum, er svo auðvitað sérstakt umhugsunarefni fyrir þá sem töldu sig vera að kjósa breytingar fyrir tæpu ári.