Í Mosvku Vladímír Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping Kínaforseti funduðu í vikunni. Vakti það mikla athygli.
Í Mosvku Vladímír Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping Kínaforseti funduðu í vikunni. Vakti það mikla athygli. — AFP/Grigory Sysoyev
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breytt valdajafnvægi í heiminum hefur verið til umræðu í tilefni af heimsókn Xi Jinping Kínaforseta til Rússlands. Næstu skrefa Kínverja er beðið en í byrjun síðasta árs var því haldið fram að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefði beðið með…

Viðtal

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Breytt valdajafnvægi í heiminum hefur verið til umræðu í tilefni af heimsókn Xi Jinping Kínaforseta til Rússlands. Næstu skrefa Kínverja er beðið en í byrjun síðasta árs var því haldið fram að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hefði beðið með innrásina í Úkraínu fram yfir Vetrarólympíuleikana í Peking til að skyggja ekki á leikana.

Xi bauð Pútín á opnunarhátíð leikanna og var svo greint frá auknu samstarfi ríkjanna. Leikunum lauk 20. febrúar í fyrra og hófst innrásin fjórum dögum síðar.

Leiðtogarnir hittust á ný í vikunni í opinberri heimsókn Xi til Rússlands og því vaknar sú spurning hvað Kínverjar ætla sér næst í valdatafli sínu. Skapar einangrun Rússa tækifæri fyrir risann í austri?

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor í alþjóðaviðskiptum og hagfræði við Háskólann á Akureyri, fjallar um samband Rússlands og Kína í nýrri bók sinni, The Nordic, Baltic and Visegrád Small Powers In Europe, en hann starfaði jafnframt um tólf ára skeið hjá Alþjóðabankanum, þar á meðal í Evrópu og Asíu.

Með öryggisregnhlíf

– Þú nefnir í bókinni, Hilmar Þór, að ríki Evrópu standi frammi fyrir áskorunum í öryggismálum sem fylgja fjölpóla heimi. Mun það hafa varanleg áhrif á framlög til NATO? Ef svo er, hvernig?

„Þrjú Visegrád-landanna – Pólland, Slóvakía og Ungverjaland – hafa landamæri við Úkraínu og auk Póllands hafa þau aukið framlög sín til varnarmála, sérstaklega Slóvakía sem er komin í 2% af vergri landsframleiðslu. Hvort aukning framlaga til NATO verður varanleg fer væntanlega eftir því hvernig samskiptin við Rússland þróast en lönd eins og Eystrasaltsríkin gætu sannarlega nýtt sína peninga til þarfari hluta, til dæmis til að styrkja sín mennta- og heilbrigðiskerfi.“

Íslenskur her óraunhæfur

– Er raunhæft að Íslendingar þurfi að stofna her vegna þessa?

„Ég álít að það sé ekki raunhæft fyrir Ísland að stofna eigin her. Íslenskur landher yrði aldrei nægilega öflugur til að verja landið, yrði á okkur ráðist. Við höfum heldur ekki ráð á að vera með flugher. Orrustuþotur og rekstur þeirra er of dýr fyrir okkur. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum bæði með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og meðal stofnríkja NATO. Ísland hefur mikla sérstöðu meðal NATO-ríkja og ég álít að við þurfum að bjóða NATO það sem við ráðum við og getum gert vel. Framlag Íslands gæti verið enn öflugri landhelgisgæsla með auknu eftirliti á Norður-Atlantshafi.

Verði í samráði við NATO

Mikilvægi norðurslóða fer vaxandi og bæði Kína og Rússland verða sífellt fyrirferðarmeiri á þessu svæði. Með því að auka eftirlit á Norður-Atlantshafi gætum við aðstoðað NATO á svæði sem verður sífellt mikilvægara en um leið gætt okkar landhelgi enn betur sem er lykilatriði fyrir okkur. Það tók Ísland um 74 ár, frá 1901 til 1975, að færa landhelgina úr þremur mílum í 200 mílur. Styrking Landhelgisgæslunnar þyrfti að fara fram í samráði við NATO. Auk þessa þurfum við að vera með öfluga sérsveit til þess að bregðast við hugsanlegum hryðjuverkaárásum.“

Kína vill eigið kerfi

– Þú fjallar í bókinni um samband Kína og Rússlands. Jafnframt vitnarðu í skýrslu NATO frá 2020 um að Kína leitist við að grafa undan röð og reglu í alþjóðakerfinu. Telurðu að Kínaforseti hugsi á þeim nótum í viðræðum sínum við Pútín sem stendur? Er þetta tækifæri fyrir Kína til að skapa öflugra mótvægi gegn vestrænum lýðræðisþjóðum?

„Það er eðlilegt að stórveldi eins og Bandaríkin vilji setja á fót það sem kallað er röð og regla í alþjóðakerfinu (e. rules-based international order) með stofnunum eins og Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum með höfuðstöðvum í Washington DC, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og NATO. Kína sem stórveldi hefur ekki áhuga á að fylgja neinni forskrift frá Bandaríkjunum. Kína setur á fót sínar eigin stofnanir eins og Innviðabanka Asíu (Asian Infrastructure Investment Bank) og Nýja þróunarbankann (New Development Bank) með BRICS-löndunum sem auk Kína eru Brasilía, Rússland, Indland og Suður-Afríka.

Verði mótvægi við G7

Nú vilja Argentína, Íran og Sádi-Arabía fá aðild að BRICS-hópnum undir forystu Kína. Það er ljóst að þessi hópur er að verða öflugt mótvægi við G7-löndin sem starfa undir forystu Bandaríkjanna. BRICS-löndin hafa samúð með Rússlandi og þó Rússland sé einangrað gagnvart Vesturlöndum hafa þeir aðgang að BRICS-löndunum, sem eins og þeir tortryggja stækkun NATO. Það vekur enn frekari tortryggni að á leiðtogafundi NATO í Madríd 2022 var m.a. Japan, Suður-Kóreu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi boðið á fundinn. Þetta er farið að líta þannig út að vilji Evrópa áframhaldandi vernd Bandaríkjanna, þurfi Evrópulönd í staðinn að aðstoða Bandaríkin í baráttunni við Kína.“

Barátta um olíuna

– Hvernig tengist hugsanlegt samkomulag Kína við Íran og Sádi-Arabíu þessum markmiðum? Má tengja það við viðleitni til að grafa undan dollaranum sem forðamynt heimsins?

„Það má segja að þrjú svæði séu nú mikilvægust fyrir Bandaríkin í heiminum. Þau eru Austur-Asía vegna vaxtar Kína, Persaflóinn vegna olíu og svo Evrópa þar sem nú geisar umfangsmesta styrjöld síðan heimsstyrjöldinni seinni lauk. Bandaríkin og Kína berjast um áhrif við Persaflóann vegna olíu og það er því áhyggjuefni fyrir Bandaríkin að sjá nánara samband Kína við öflugustu löndin sitt hvoru megin við Persaflóann, og líka að Kína sé að miðla málum milli þessara landa sem oft hafa átt í deilum sín á milli. Staða dollarans er enn sterk en það er alveg ljóst að BRICS-löndin, þar á meðal Kína og Rússland, munu í vaxandi mæli vilja nota eigin gjaldmiðla í sínum viðskiptum og það mun til lengdar veikja stöðu dollarans.

Bandaríkin helmingast

Við skulum hafa það í huga að á Bretton Woods-fundinum 1944 voru Bandaríkin um 40 til 45% af öllu heimshagkerfinu en eru nú um 20%. Þetta hlutfall er að vísu svolítið breytilegt eftir því hvort miðað er við núgildandi verðlag eða jafnvirðisgengi. Land sem var um 40% af heimshagkerfinu getur ekki leikið sama hlutverk í heiminum og land sem er 20% af heimshagkerfinu. Stjórnvöld í Kína, Íran og Sádi-Arabíu sjá öll útbreiðslu vestræns lýðræðis sem ógn við sig og þetta á sinn þátt í að þjappa þeim saman. Það sama á við um Rússland.“

Orðin mjög háð Kína

– Nú eru Vesturlönd orðin mjög háð Kína um lyf, bíla, farsíma og fjöldann allan af daglegum neysluvarningi. Jafnframt eru þau háð viðskiptum við Kína í hina áttina. Hvaða svigrúm hefðu Vesturlönd, í ljósi þessarar stöðu, til að beita Kínverja hörðu ef þeir kjósa að taka upp stefnu gagnvart Rússlandi sem gengur gegn stefnu Vesturlanda? Þar með talið í Úkraínu.

„Kína er þegar orðið það umsvifamikið að það verður sífellt erfiðara að stunda alþjóðaviðskipti án viðskipta við landið. Vöxtur þeirra hagkerfa Austur-Asíu sem eru útflutningsdrifin byggist mikið á sérhæfingu og stærðarhagkvæmni og það verður sífellt erfiðara að finna tæknivörur þar sem ekki eru íhlutir frá Kína eða varan framleidd í mörgum Asíulöndum og svo sett saman í Kína.

Hagsmunir fara ekki saman

Ef Kína nær vergri landsframleiðslu á mann svipaðri og Singapúr verður Kína um helmingi stærra hagkerfi en Bandaríkin og ESB til samans. Viðskiptabann á Kína svipað því sem beitt er gegn Rússlandi myndi tæpast ganga gegn Kína til lengdar, það myndi hafa slæm efnahagsáhrif fyrir Vesturlönd. Gagnvart Kína fara hagsmunir Bandaríkjanna og Evrópu ekki endilega saman. Hernaðarkapphlaupið um áhrif í Austur-Asíu verður aðallega milli Bandaríkjanna og Kína. Það er mögulegt að Evrópa geti áfram átt í umfangsmiklum alþjóðaviðskiptum við Kína svo framarlega sem ekki er verið að stunda viðskipti með tæknivörur sem nota mætti til hernaðar.

Hafa samúð með Rússum

Kínverjar hafa samúð með málstað Rússa og eru eins og þeir á móti frekari stækkun NATO til austurs sem þeir sjá nú líka sem ógn við sig. Kínverjar þurfa líka á auðlindum Rússlands að halda, þar á meðal gasi, sem Evrópa vill ekki lengur kaupa frá Rússlandi. Stirð samskipti milli Evrópu og Rússlands gætu þess vegna alveg eins orðið Kína að gagni. Kína gæti líka á einhverju stigi farið að aðstoða Rússland beint hernaðarlega í Úkraínu. Þegar stríð dragast á langinn er hætta á sífelldri stigmögnum og að þau breiðist út. Þess vegna er mikilvægt að stöðva þetta sem fyrst,“ segir Hilmar Þór.