Sælkeramatur Hér gefur að líta hvítlauksrækjur ásamt öðru góðgæti á huggulega samsettu tapas-borði að spænskum hætti.
Sælkeramatur Hér gefur að líta hvítlauksrækjur ásamt öðru góðgæti á huggulega samsettu tapas-borði að spænskum hætti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra Kolbrá Sigurðardóttirthora@mbl.is„Svona þemadagar eru svo skemmtilegir því þá beinist kastljósið á okkar fjölbreytta vöruúrval og við fáum tækifæri til þess að kynna allt sem í boði er og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Þóra Kolbrá Sigurðardóttir

thora@mbl.is

„Svona þemadagar eru svo skemmtilegir því þá beinist kastljósið á okkar fjölbreytta vöruúrval og við fáum tækifæri til þess að kynna allt sem í boði er og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þetta er eins og með dönsku og amerísku dagana þar sem við setjum einstaka vörur í sparibúning. Á Sælkeradögunum fáum við til okkar ítalskan birgi sem ætlar að kenna okkur að elda góða pastarétti í verslunum okkar og ætlum að sjálfsögðu að bjóða upp á dýrindissmakk í verslunum okkar,“ segir Eva en þemadagar sem þessir hafa notið mikilla vinsælda meðal neytenda.

„Á Sælkeradögunum er fókusinn á hráefni frá Ítalíu, Frakklandi, Spáni og Grikklandi og hefur vörustjórinn okkar, Vignir Þór Birgisson, unnið hörðum höndum að því í nokkra mánuði að finna ótrúlegt magn af spennandi vörum sem ættu að gleðja alla matgæðinga. Sjálf beið ég ekki boðanna og er hér með dýrindistrufflu-risotto sem ég elska og elda aftur og aftur, ljúffengt andasalat með confit-lærum svo ræturnar eru Frakkland í því salati, tapas-stemningu frá Spáni, hvítlauksrækjur, eðalhráskinku með fetaostsmauki með fetaosti sem kemur frá Grikklandi og ljúffengar ólífur sem sömuleiðis koma frá Grikklandi. Hægt er að leika sér með þessi hráefni frá þessum löndum og blanda þeim saman. Hér er best að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín.“

Eva segir spennandi tíma fram undan hjá Hagkaup. „Við erum í stöðugri þróun og markmiðið er alltaf að upplifun viðskiptavinarins sé sem best og að við bjóðum upp á spennandi vöruúrval. Þannig hefur samstarfið við Sælkerabúðina og 17 sortir verið skemmtileg viðbót og við ætlum að halda áfram á þessari braut.“

Besti díllinn í bænum

„Nú er að bresta á með fermingartímabilinu og þá langar mig kannski sérstaklega að vekja athygli á smáréttunum sem við eigum í frysti í Hagkaup Skeifunni og í Hagkaup Akureyri. Ég held að meira úrval og á betra verði sé vandfundið. Við erum meðal annars með makkarónurnar en allir sem hafa reynt að baka þær vita að það krefst tíma og þolinmæði. Við erum til að mynda með kassa með 72 kökum í sem kostar um sex þúsund krónur sem ég held að sé besti díllinn í bænum,“ segir Eva en þess ber að geta að Sælkeradagarnir standa til 3. apríl „og við tökum vel á móti okkar frábæru viðskiptavinum“.

Trufflu-risotto með sveppum

Fyrir 3- 4

1 msk. Ítalíu-ólífuolía + klípa smjör

1 laukur

1 sellerístilkur

2 hvítlauksrif

4 dl arborio-hrísgrjón

8 sveppir, smátt skornir

8 dl kjúklingasoð

2 dl hvítvín

salt og pipar

60-80 g parmesanostur

2 msk. sveppatrufflumauk frá Giuliano Tartufi

1 msk. smátt söxuð steinselja

Aðferð:

Hitið ólífuolíu í potti og steikið laukinn, sellerí og hvítlauk í 2-3 mínútur. Bætið smátt söxuðum sveppum út í pottinn og steikið, bætið því næst arborio-grjónum út í og hrærið stöðugt.

Hellið hvítvíninu saman við og leyfið því að sjóða niður, bætið næst kjúklingasoðinu smám saman við og hrærið mjög vel á milli.

Bætið parmesanosti, steinselju og trufflumauki við í lokin og kryddið til með salti og pipar.

Setjið risotto á disk og rífið gjarnan niður parmesan og stráið yfir réttinn í lokin ásamt saxaðri steinselju.

Tapas-stemning, hvítlauksrækjur og eðalhráskinka með fetaostmauki

600 g risarækjur, ósoðnar

8 hvítlauksgeirar, smátt skornir

1 dl Ítalíu-ólífuolía

2 msk. smátt söxuð steinselja

1 tsk. paprikukrydd

1 msk. smjör

salt og pipar

Aðferð:

Hitið olíu á pönnu, skerið hvítlaukinn í sneiðar og setjið út á pönnuna og steikið. Þegar laukurinn hefur tekið smá lit þá bætið þið rækjunum út á pönnuna. Kryddið með salti, pipar og papriku.

Bætið smjöri og steinselju saman við í lokin.

Berið fram með góðu brauði.

Hráskinka með fetaostsmauki

80 g hráskinkupakki (18 mánaða )

100 g grískur fetaostur

4 msk. rjómaostur

1 msk. steinselja

salt og pipar

6 kirsuberjatómatar

1 msk. ólífuolía

Aðferð:

Setjið hráskinku á disk.

Þeytið saman fetaost, rjómaost, salt, pipar og 1 tsk. af steinselju í matvinnsluvél og setjið ofan á hráskinkuna.

Skerið tómata niður og saxið steinselju. Setjið yfir hráskinku og sáldrið ólífuolíu yfir.

Tillaga að nasli með:

Ljúffeng tengdamömmutunga sem gengur með öllu og ómótstæðilegar grískar ólífur.