Birta Kristín Helgadóttir tekur innan skamms við stöðu Steinþórs Gíslasonar sem sviðsstjóri orkusviðs verkfræðistofunnar EFLU, eins fjögurra sviða stofunnar.
Birta Kristín Helgadóttir tekur innan skamms við stöðu Steinþórs Gíslasonar sem sviðsstjóri orkusviðs verkfræðistofunnar EFLU, eins fjögurra sviða stofunnar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um fjórðungur af veltu EFLU kemur frá orkuverkefnum,“ segir Steinþór Gíslason, byggingarverkfræðingur og sviðsstjóri orkusviðs verkfræðistofunnar EFLU, en stofan hefur um nokkurt skeið tilheyrt Orkuklasanum og er Steinþór jafnframt varamaður í stjórn klasans

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Um fjórðungur af veltu EFLU kemur frá orkuverkefnum,“ segir Steinþór Gíslason, byggingarverkfræðingur og sviðsstjóri orkusviðs verkfræðistofunnar EFLU, en stofan hefur um nokkurt skeið tilheyrt Orkuklasanum og er Steinþór jafnframt varamaður í stjórn klasans. Fjögur meginsvið starfsemi EFLU eru orka, iðnaður, byggingar og samfélag.

EFLA kemur að sögn Steinþórs að fjölda verkefna tengdum orkumálum innanlands sem erlendis en starfsemi stofunnar nær til sex landa og eru starfsmenn 400 samtals á öllum starfssvæðum. „Stór hluti verkefna okkar í orkumálum tengist raforkumannvirkjum, þar sem við hönnum háspennulínur, jarðstrengi og tengivirki, en stærstur hluti þeirrar ráðgjafar er erlendis. Við erum einnig með öflugt teymi í orkumálaráðgjöf og hagrænum greiningum ásamt því að vinna í verkefnum tengdum uppbyggingu á endurnýjanlegri orku, það er jarðvarma, vatnsafli og vindorku,“ útskýrir Steinþór.

Á erlendri grundu kveður hann starfsemina hins vegar einkum vera fyrir rekstraraðila flutningskerfa fyrir raforku. „Okkar stærstu viðskiptavinir á þessum markaði erlendis eru Statnett í Noregi, Svenska kraftnät í Svíþjóð, RTE í Frakklandi og PSE í Póllandi. Þetta eru þeir sem eiga og reka kerfin í þeim löndum þar sem við rekum skrifstofur,“ heldur Steinþór áfram. EFLA sé leiðandi í hönnun háspennulína á Norðurlöndunum og sé með rúmlega 70 manns í hönnun raforkuflutningsmannvirkja í þeim löndum sem starfsemin nær til en EFLA hefur unnið að orkutengdum verkefnum í yfir 30 löndum. EFLA hefur einnig komið að jarðvarmaverkefnum víða um heim og er þessa stundina að vinna í verkefnum í El Salvador og Króatíu.

400 starfsmenn í sex löndum

EFLA er samsett úr fjórum fyrirtækjum. Það stærsta var Línuhönnun, stofnuð 1978 með starfsemi á sviði háspennulína og uppsetningu þeirra. Þau þrjú sem þá standa eftir eru Verkfræðistofa Suðurlands, Verkfræðistofan AFL og RTS verkfræðistofa. „AFL var með sterka stöðu í orkuverkefnum svo þaðan kemur mikil þekking til okkar inn í orkumálin líka, þannig að orkumál hafa verið mjög fyrirferðarmikil alveg síðan á tímum okkar fyrirrennara,“ heldur Steinþór áfram.

Við sameiningu fyrirtækjanna fjögurra árið 2008 hafi starfsfólk verið um 150 manns en nú segir Steinþór þá tölu komna í 400 í öllum sex löndunum, sem fyrr segir, þar af um 300 á Íslandi.

Birta Kristín Helgadóttir, umhverfis- og orkuverkfræðingur, deilir þessu viðtali með Steinþóri enda tekur hún við stöðu hans hjá EFLU nú á vordögum. „Síðastliðin þrjú ár, talið aftur frá ágúst í fyrra, starfaði ég hjá Grænvangi sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir,“ segir Birta, innt eftir því hvað hún hafi starfað áður en hún gekk til liðs við EFLU. Hún var forstöðumaður Grænvangs síðasta árið þar en hafði fyrir tímabil sitt þar starfað hjá EFLU í fimm ár og hefur nú snúið þangað á ný.

„Þannig að ég þekki EFLU mjög vel, ég starfaði áður á orkusviði og var þá mest að sinna ráðgjöf tengdri vatnsafli og vindorku, bæði í hönnunartengdri ráðgjöf fyrir vatnsafl en aðallega í vindorku þar sem ég náði mér í mikla þekkingu og við gerum ráð fyrir því núna að það verði minn helsti styrkleiki. Hér á Íslandi eru mikil tækifæri til að nýta vindinn á skynsamlegan hátt,“ segir Birta, EFLA hafi verið að stimpla sig rækilega inn á því sviði og hafi komið að fjölmörgum verkefnum á sviði vindorku, bæði með Landsvirkjun og öðrum þróunaraðilum.

Mikil tækifæri erlendis

Staðan, sem Steinþór yfirgefur nú von bráðar og Birta tekur við, staða sviðsstjóra orkusviðs EFLU, snýr að ýmsum þáttum. „Starfið felst í því að reka sviðið og allt sem því tengist ásamt því að sitja í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Þetta er því blanda af starfsmannamálum, rekstri og stefnumótun ásamt aðkomu að faglegum verkefnum,“ útskýrir Steinþór sem er sérfræðingur í háspennulínum og hefur fengist við þann vettvang EFLU í fimmtán ár.

„Ég hef eingöngu unnið í erlendum verkefnum síðan ég byrjaði fyrir 15 árum,“ segir hann, „hugmyndin með innkomu Birtu er að leggja aukna áherslu á orkuskiptin og endurnýjanlega orku.“ Orkuskiptin hafi mikil áhrif á okkar markaði. Margt sé að gerast hérlendis en enn stærri breytingar erlendis enda sé þáttur í því að Birta leysir Steinþór af hólmi að hann geti beint kröftum sínum í auknum mæli að erlendu verkefnunum. „Við höfum stækkað hratt erlendis og við teljum mikil tækifæri þar á næstu árum. Mitt hlutverk verður að samræma og samstilla starfsemi okkar erlendis í orkumálunum,“ útskýrir Steinþór.

„Við erum að styrkja okkur á þeim sviðum og í því samhengi sem við teljum að komi fyrirtækjum og samfélagi til góða til framtíðar,“ tekur Birta við, „en líka að stuðla að því að hægt sé að ná öllum þessum markmiðum sem við höfum í orkumálum og loftslagsmálum þar sem orkuskiptin eru í forgrunni. Ég er ráðin inn meðal annars til að taka vindorkumálin fastari tökum en líka til að styrkja framtíðarsýnina varðandi nýsköpun á þessu sviði.“

Með áherslu á nýsköpun

Kveður hún EFLU búa yfir öflugu viðskiptaþróunarteymi sem skoði hvort tveggja stóru tækifærin og afleidd tækifæri sem snúi til að mynda að rafeldsneyti, vindorkunýtingu, kolefnisföngun og -förgun og má þá til dæmis nefna Coda Terminal, móttöku- og förgunarmiðstöð fyrir koltvísýring sem staðsett verður í Straumsvík og EFLA vinnur að. „Þar er á ferðinni hreint loftslagsverkefni sem tengist þó líka orkugeiranum. Við erum að horfa á virðiskeðjuna út frá orkuskiptunum með öðruvísi hætti en við höfum verið að gera, við þurfum að viðhalda hefðbundinni þekkingu okkar á vatnsafli og jarðvarma en líka að láta teymin okkar vaxa með áherslu á nýsköpun á þessu sviði, bæta vindorkunni inn og láta öll sviðin tala saman. Þau vinna öll mjög náið saman í fjölmörgum verkefnum, en í orkuverkefnunum sérstaklega verður að vera mjög gott samstarf milli orku og samfélags, því einungis þannig má ná sátt um þessi stóru viðfangsefni sem fram undan eru,“ segir sviðsstjórinn verðandi.

Umhverfismál, loftslagsmál og orkumál hangi öll saman á sömu spýtunni og þar þurfi stór hluti þróunarinnar að fara fram. „Ég tel mig vera sterkan kandídat þar inn því ég hef alltaf verið með sterkan fókus á orkuhliðina en lagt mikla áherslu á að þar sé umhverfishliðin órjúfanlegur hluti af heildarmyndinni,“ segir Birta enn fremur.

Ísland fyrirmyndarland

Steinþór segir orkuskiptin hafa gríðarleg áhrif á EFLU og viðskiptavinahóp fyrirtækisins. „Verkefnin fram undan eru mjög stór og við erum þá ekki bara að tala um næstu tvö-þrjú árin heldur næstu tuttugu til fjörutíu ár, bæði innanlands og utan, og við setjum mikinn kraft í að afla okkur nýrrar þekkingar, læra af því sem er gert erlendis og byggja upp þekkingu innanhúss. Í þessu samhengi má nefna að EFLA fékk útflutningsverðlaun Íslands í fyrra, þar sem við erum búin að veita ráðgjöf erlendis fyrir meira en tuttugu milljarða frá stofnun EFLU. Slík gjaldeyrisöflun er mjög verðmæt fyrir íslenskt samfélag. Það er afar mikilvægt fyrir íslenskt þjóðfélag að þekking byggist upp innanlands og fram undan eru stór tækifæri til uppbyggingar á nýrri þekkingu. Við erum fyrirmyndarland þegar litið er til endurnýjanlegrar orku og loftslagsmála og fram undan er gríðarstórt tækifæri fyrir íslenskt samfélag í því að ná fullu orkusjálfstæði og sterkum innviðum til orkuöflunar og dreifingar, sem verður grunnur að hagsæld fyrir komandi kynslóðir,“ segir Steinþór Gíslason undir lok spjallsins við sviðsstjórana fráfarandi og verðandi.