Fjölskyldan Helgi, Heiða, Svana Rós og Hilmar á Sæbóli á leiðinni á veiðar í Staðarvatni árið 2020.
Fjölskyldan Helgi, Heiða, Svana Rós og Hilmar á Sæbóli á leiðinni á veiðar í Staðarvatni árið 2020.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðalheiður Stefánsdóttir er fædd 23. mars 1973 í Reykjavík og bjó á höfuðborgarsvæðinu til 11 ára aldurs. Hún flutti þá á Gufuskála ásamt fjölskyldu sinni og bjó þar til 15 ára aldurs þegar hún flutti til Reykjavíkur

Aðalheiður Stefánsdóttir er fædd 23. mars 1973 í Reykjavík og bjó á höfuðborgarsvæðinu til 11 ára aldurs. Hún flutti þá á Gufuskála ásamt fjölskyldu sinni og bjó þar til 15 ára aldurs þegar hún flutti til Reykjavíkur.

„Tíminn á Gufuskálum var frábær, ég upplifði þvílíkt frelsi, að lesa í náttúruöflin og að kunna að meta náttúruna.“

Aðalheiður fór í fimm barnaskóla. „Ég hef því ekki mikil tengsl við æskuvini en þeim mun sterkari við þá sem ég kynntist þegar ég hóf nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð.“ Þar kynntist Aðalheiður einnig eiginmanni sínum.

Aðalheiður vann hjá Símanum og var í erlendum viðskiptum í Póstgíró í átta ár en eftir seinna fæðingarorlofið um aldamótin fór hún að vinna sem leiðbeinandi í leikskóla. „Þá var mikil mannekla í leikskólum og dóttirin rúmlega þriggja og hálfs árs og enn ekki komin í leikskóla. Ég ákvað þá að prufa að vinna í eitt ár en féll fyrir starfinu og fór í nám í leikskólakennarafræðum 2003-2006.“

Eftir útskrift fór Aðalheiður að vinna í nýjasta leikskóla Reykjavíkur, Reynisholti, sem deildarstjóri ásamt tveimur skólasystrum sínum. „Það var frábært að vera með í að móta stefnu í nýjum skóla.“

Árið 2008 fór Aðalheiður í stöðu aðstoðarleikskólastjóra og 2017 tók hún við sem leikskólastjóri í Reynisholti. „Ég hef mikinn áhuga á skólaþróun kennara og alls starfsfólks í leikskólanum og legg áherslu í mínum skóla að allt starfsfólk sé í teymi og hafi þannig áhrif á starf sitt.“

Aðalheiður lauk M.Ed.-gráðu í stjórnun menntastofnana 2020. Hún er varaformaður Samtaka áhugafólks um skólaþróun.

Áhugamál Aðalheiðar eru fjölbreytileg. „Mér finnst mjög gaman að syngja og við hjónin syngjum mikið saman. Ég er í kórnum Léttsveit Reykjavíkur. Ég hef gaman af því að ferðast innanlands og er að læra að meta að veiða, ætlar að prufa fluguveiði í sumar. Svo hef ég gaman af framkvæmdum ýmiskonar og hef ég mikið aðstoðað eiginmann minn við framkvæmdir hér heimavið, pallasmíði og endurnýjun á eldhúsi svo eitthvað sé nefnt.

Uppáhaldsstaðurinn er Aðalvík á Hornströndum þar sem stórfjölskyldan á hús á Sæbóli, Hjálmfríðarból. Halldóra langamma bjó á Sæbóli. Við fjölskyldan reynum að komast þangað einu sinni á sumri. Við fórum í fyrra ásamt frændfólki í vinnuferð þar sem m.a. var smíðaður geymsluskúr.“

Fjölskylda

Eiginmaður Aðalheiðar er Helgi Jökull Hilmarsson, f. 1.1. 1973, smíðanemi. „Helgi fór á sjó á Hrafni Sveinbjarnarsyni 18 ára og var þar háseti, netamaður og bátsmaður þar til nú um áramótin, en hann var búinn að taka ákvörðun um að hætta þegar hann yrði fimmtugur, sem var 1. janúar sl. Hann er að læra smiðinn og mun væntanlega taka sveinspróf næsta vetur. Mjög spennandi tímar eru því framundan að læra að vera saman allt árið, bara tvö, þar sem börnin eru flogin úr hreiðrinu.“

Aðalheiður og Helgi fluttu í Grafarvoginn í Reykjavík 1993 og hafa búið á núverandi stað frá 1999. Foreldrar Helga eru hjónin Hilmar E. Helgason, f. 22.9. 1949, fyrrverandi skipstjóri, og Ragna Valdimarsdóttir, f. 12.12. 1948, sjúkraliði. Þau eru búsett í Reykjavík.

Börn Aðalheiðar og Helga eru 1), Svana Rós Helgadóttir, f. 23.1. 1997, stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og starfsmaður í fiskbúðinni Hafinu, búsett í Hafnarfirði. Sambýlismaður hennar er Ýmir Örn Gíslason, f. 10.12. 1997; 2) Hilmar Eyberg Helgason, f. 25.10. 1998, stálsmiður, búsettur í Reykjavík.

Systur Aðalheiðar eru Hulda Rós Hilmarsdóttir (sammæðra), f. 10.2. 1966, þroskaþjálfi, búsett á Litlu-Völlum í Bárðardal, og Margrét Stefánsdóttir, f. 31.3. 1974, fjármálaráðgjafi, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Aðalheiðar eru hjónin Stefán Þór Sigurðsson, f. 28.7. 1951, vann lengi hjá Símanum og á Lóransstöðinni á Gufuskálum, og Lilja Guðmundsdóttir, f. 3.10. 1948, fyrrverandi fiskvinnslukona og ritari á heilsugæslunni í Ólafsvík og síðar í Keflavík. Þau hafa búið á höfuðborgarsvæðinu, Gufuskálum, Suðurnesjum og nú í Reykjavík