Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Það er óhætt að segja að Seðlabankinn sé búinn að sýna sitt rétta andlit og opinbera það fyrir hverja hann vinnur. Hann er ekki að vinna fyrir almenning heldur þá sem eiga pening og vita jafnvel ekki aura sinna tal

Það er óhætt að segja að Seðlabankinn sé búinn að sýna sitt rétta andlit og opinbera það fyrir hverja hann vinnur. Hann er ekki að vinna fyrir almenning heldur þá sem eiga pening og vita jafnvel ekki aura sinna tal.

Markmið hans er að raunvextir innlána verði jákvæðir. Nú er það staðreynd að raunvextir á skammtímainnlánum bankanna hafa nær alltaf verið neikvæðir og algjörlega vitskert hugmynd að ætla að breyta því núna í 10% verðbólgu.

Það verður að líta til þess að þeim sem eiga fjármagn standa ýmsar leiðir til boða til að ávöxtunar, á meðan fæstir búa svo vel að eiga fleiri en eitt heimili.

Heimili okkar eiga að vera friðhelg. Það á aldrei að ganga að þeim og svipta fólk þannig fótfestu og öryggi.

Einnig má spyrja af hverju alltaf megi rýra eigið fé sem bundið er í fasteign en ekki fé sem liggur inni á bankareikningi.

Verðbólga er slæm, um það er ekki deilt, en með aðgerðum sínum er Seðlabankinn að búa til langvarandi kreppu sem mun hafa djúpstæð áhrif löngu eftir að þessi verðbólga hefur runnið sitt skeið.

Að sögn Christine Lagarde seðlabankastjóra Evrópu mun verðbólgan lækka hvort sem seðlabankar hækka vexti eður ei. Maður skyldi ætla að hún hefði eitthvert vit á þessum málum og því er vert að spyrja sig hvers vegna peningastefnunefnd Seðlabankans heldur áfram að berja höfðinu við steininn eins og raun ber vitni.

Þegar peningastefnunefnd er skoðuð kemur í ljós að hún er ákaflega einsleit. Allir nefndarmenn hafa sterk tengsl við fjármálageirann og í henni er enginn fulltrúi neytenda. Einnig má færa fyrir því rök að fólk sem er með í kringum tvær milljónir í laun á mánuði sé ekki hæft til að dæma almenning í ánauð bankanna og til húsnæðisleysis. Þau eru öll á grænni grein og geta því talað fjálglega um „ásættanlegan fórnarkostnað“ eða að „auðvitað sé ekki hægt að bjarga öllum“.

Stóra málið er hins vegar að ef þau væru ekki raunvaxtafíklar að missa sig í rétttrúnaðinum, þá þyrfti ekki að bjarga neinum. Það er ekki hægt að ýta fólki fyrir björg og láta svo eins og einhver annar hafi brugðist því.

Meðan á öllu þessu stendur situr ríkisstjórnin á hliðarlínunni og borar í nefið. Hún nennir þessu eiginlega ekki, og endurtekur eins og óþekkur krakki, þvert gegn betri vitund, að „skuldastaða heimilanna hafi aldrei verið betri“.

Ég hef megnustu skömm á þessu og lýsi fullri ábyrgð á hendur þessu fólki.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins.

Höf.: Ásthildur Lóa Þórsdóttir