Mosfellsbær Flugsýn yfir miðbæinn. Mikil uppbygging hefur verið í bænum síðustu árin og hverfi hafa verið endurskipulögð í takt við breyttar þarfir.
Mosfellsbær Flugsýn yfir miðbæinn. Mikil uppbygging hefur verið í bænum síðustu árin og hverfi hafa verið endurskipulögð í takt við breyttar þarfir. — Morgunblaðið/Sigurðuðr Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í síðustu viku samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar að hefja úthlutun lóða í 5. áfanga Helgafellshverfis. Þar hafa verið skipulagðar byggingar með alls 151 íbúð í byggð mót suðri. Öll húsin verða við Úugötu

Sigurður Bogi Sævarsson

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í síðustu viku samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar að hefja úthlutun lóða í 5. áfanga Helgafellshverfis. Þar hafa verið skipulagðar byggingar með alls 151 íbúð í byggð mót suðri. Öll húsin verða við Úugötu. Nafn götunnar vísar til Úu sem segir frá í Kristnihaldi undir jökli eftir Halldór Laxness, en í Helgafellslandi gildir að götur séu nefndar eftir kvenpersónum í sögum skáldsins.

Helgafell og Langitangi

Í fyrri úthlutun lóðaúthlutunar í Helgafellslandi, sem verður á allra næstu vikum, er óskað eftir tilboðum í byggingarrétt fjögurra fjölbýla með 12 íbúðum hvert, alls 48 íbúðir, og sjö raðhúsa með alls 24 íbúðum. Lóð fyrir önnur tvö fjölbýlishús með 24 íbúðum fara svo til Bjargs íbúðafélags. Lóðinni Úugötu 1 verður úthlutað til Þroskahjálpar undir fimm íbúða íbúðakjarna fyrir fatlaða. Síðari hluti úthlutunar verður væntanlega í haust og þar eru undir 30 einbýlishúsalóðir, 8 parhúsalóðir fyrir 16 íbúðir og eitt fjögurra íbúða raðhús.

„Næsti áfangi einkennist frekar af byggð sérbýla, einbýlis- og parhúsa, með glæsilegt útsýni til suðurs yfir bæinn okkar. Gatnagerðin í þessum nýjasta hluta Helgafells gengur vel og miðað við lóðaúthlutun nú í sumar ættu byggingaframkvæmdir á svæðinu að geta hafist í sumar,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. Samkvæmt fyrirliggjandi skipulagi verður talsvert meira byggt á Helgafellslandinu á næstu árum en reiknað er með að í hverfinu fullbyggðu verði alls um 3000 íbúar.“

Önnur uppbyggingarverkefni í Mosfellsbæ nú er úthlutun lóða við Langatanga, gegnt Hjúkrunarheimilinu Hömrum svo þekkt kennileiti sé haft sem viðmið. Á svæðinu er búið að skipuleggja 51 íbúð af ýmsum gerðum, blöndu sérbýlis og fjölbýlis. Stærsta málið í uppbyggingu í Mosfellsbæ er þó Blikastaðalandið.

Atvinnustefna í mótun

„Hér í Mosfellsbæ viljum við fá fleiri fyrirtæki inn í bæinn og áætlanir okkar um Blikastaðaland taka mið af því. Sérstaklega höfum við hug á að efla hér ýmiss konar þjónustustarfsemi. Við erum í þessum töluðu orðum að móta atvinnustefnu Mosfellsbæjar og þurfum líka að taka mið af sögu og menningu svæðisins í þeirri stefnu.

Fyrsti hluti uppbyggingar á Blikastöðum er 15 ha. land fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi sem þjóna á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins. Þetta er reitur beint fyrir neðan Vesturlandsveg við Korpúlfsstaðaveg. Stefnt er að því að lóðir í fyrsta áfanga verði byggingarhæfar síðar á árinu og að uppbygging í áföngum taki 7-10 ár. Þetta verður, að sögn bæjarstjórans, atvinnukjarni skipulagður á framsækinn hátt þar sem nýjustu straumar og stefnur í umhverfismálum með blágrænum ofanvatnslausnum verða ráðandi.

„Möguleikarnir í Blikastaðalandi eru miklir. Þetta er stærsta einstaka óbyggða svæðið á höfuðborgarsvæðinu en gera má ráð fyrir að uppbygging íbúðahúsnæðis þar, sem þegar er í undirbúningi og verður í þremur til fimm áföngum, taki áratugi. Samkvæmt samningum er gert ráð fyrir 3.500 til 3.700 íbúðum. Þarna verður fjölbreytt húsnæði fyrir alla aldurshópa og ólíkar fjölskyldustærðir,“ segir Regína. „Forsenda samningsins af hálfu Mosfellsbæjar er annars að landeigandinn, Blikastaðaland, inni af hendi greiðslur til uppbyggingar innviða; svo sem gatnakerfis, lagna, skóla, íþróttamannvirkja og annars. Kröfur fólks til þjónustu af hálfu sveitarfélaga aukast stöðugt og hugsa þarf vel fyrir öllu slíku í tíma. Til þess hafa sveitarfélögin líka ýmis tæki; aðalskipulag, húsnæðisáætlanir og fleira.“

Vaxtarverkir og spennandi verkefni

Regína, sem áður var meðal annars bæjarstjóri á Akranesi og stjórnandi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, tók við sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ í september á síðastliðnu ári. Hún segir verkefnin í núverandi starfi vera mjög spennandi. Fólksfjölgun fylgi vaxtarverkir; í uppbyggingu þurfi allt að tengjast saman og það geti vissulega verið kostnaðarsamt.

„Með tilliti til leikskólamála gerðu spár okkar gerðu ráð fyrir því að börn fædd 2021 og á fyrstu mánuðum ársins 2022 yrðu 60, en þau reynast verða 110. Þetta eru Covid-börnin sem sumir kalla svo og það er mikið kapp lagt á að útvega leikskólapláss,“ segir Regína. „Við gerðum samning við Korpukot í Grafarvogi, sem er einkarekinn skóli, um allt að 50 pláss í haust. Samningur við Korpukot byggist á góðum grunni en við höfum verið með samning við fyrirtækið sem rekur skólann til margra ára. Við áætlum að nýr leikskóli í Helgafellshverfi sem tekur 150-160 börn verði tilbúinn haustið 2025.“

Í breiðu samhengi

Í stóru og vaxandi bæjarfélagi eru verkefnin óendanlega fjölbreytt, útskýrir Regína. Hún flutti á dögunum í Mosfellsbæ eftir að hafa fyrstu mánuði sína í starfinu búið í Reykjavík.

„Mér finnst ekki annað koma til greina en að bæjarstjóri búi í sveitarfélagi þar sem hann starfar. En þessir mánuðir sem ég sótti hingað vinnu úr vesturbæ Reykjavíkur voru lærdómríkir. Vestan úr bæ og hingað í Mosfellsbæ á morgnana var ég á nánast auðum vegi alla leiðina en mætti fjölda bíla og svo sneri þetta aftur öfugt þegar ég var á heimleið síðdegis. Þetta segir mér að nýja nálgun þarf í samgöngumálum, svo sem með öflugri almenningssamgöngum. En til þess að jafna umferð til hvorrar áttar viljum við líka efla atvinnutækifærin hér í Mosfellsbæ, eins og hugsunin er með 1. áfanga í Blikastaðalandi. Þannig spilar þetta allt saman og hugsa þarf málin í breiðu samhengi og horfa langt inn í framtíðina.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson