Þróun Ekkert verk hefur selst á hærra verði á uppboði hér á landi.
Þróun Ekkert verk hefur selst á hærra verði á uppboði hér á landi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Metverð fékkst fyrir bronsskúlptúrinn Þróun eftir Einar Jónsson á vefuppboði hjá Fold uppboðshúsi síðastliðið þriðjudagskvöld. Verkið var slegið á 11.250.000 krónur en með uppboðs- og höfundaréttargjöldum gera það ríflega 14 milljónir króna

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Metverð fékkst fyrir bronsskúlptúrinn Þróun eftir Einar Jónsson á vefuppboði hjá Fold uppboðshúsi síðastliðið þriðjudagskvöld. Verkið var slegið á 11.250.000 krónur en með uppboðs- og höfundaréttargjöldum gera það ríflega 14 milljónir króna.

Þetta er fyrsta verk sinnar tegundar sem boðið er upp hjá Fold uppboðshúsi. Ekki var vitað til þess að til væru fleiri bronsafsteypur af þessu verki eftir Einar en þá sem finna má á safni hans á Skólavörðuholtinu. Skúlptúrinn er til í tveimur eintökum á safninu, annar úr gifsi og svo bronsafsteypa úti í garðinum, en skúlptúrinn á uppboðinu er í sömu stærð og sá í garðinum í safni Einars. Gifsafsteypan var gerð 1913-14 en ekki er vitað nákvæmlega hvenær bronsafsteypan var gerð, þó er vitað að hún var ekki til þegar safnið var opnað 1923 en að hún sést á ljósmynd sem tekin var 1940. Einar lýsti sjálfur verkinu svo, að það fjallaði um vöxt mannsins frá dýrinu í sjálfum honum.

Huglægt matsverð

Verkið, sem kom úr dánarbúi, var metið á 5-6 milljónir krónur en seldist langt umfram það eða á rúmar 11 milljónir. Það er 44x35 cm og því ekki stórt. Spurður af hverju fólk sé tilbúið að kaupa verk eins og þetta, fyrir svo miklu hærri upphæð en matsverðið, segir Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri og uppboðshaldari á Gallerí Fold: „Matsverðið var nokkuð huglægt vegna þess að aldrei áður hefur svona verk komið í sölu. Matsverðið var byggt á svipuðum skúlptúrum eftir Gerði Helgadóttur og Sigurjón Ólafsson, sem hafa selst á 4-7 milljónir. Það var eiginlega eina viðmiðið sem við höfðum. Svo kemur í ljós að verkið er alveg einstakt. Það hefur aldrei komið bronsskúlptúr í þessum gæðaflokki eftir Einar í sölu. Þetta er gamalt verk og hvorki safnið né aðrir sem ég hef talað við vita hvort það séu til fleiri eintök, líklega er bara til þetta eintak og síðan það sem stendur úti í skúlptúrgarðinum á Skólavörðuholtinu.“

Tvö börðust um verkið

Á lokametrunum börðust tveir áhugasamir kaupendur um gripinn þar til annar játaði sig loks sigraðan. „Það voru nokkrir sem buðu allt upp í 5-6 milljónir en eftir það voru þau tvö, kona hér í Reykjavík og karlmaður á Suðurlandi. Skúlptúrinn fer á Suðurland,“ segir Jóhann.

Þetta er hæsta verð sem fengist hefur fyrir verk á uppboði á Íslandi. Fyrra metið átti mynd eftir Gunnlaug Scheving, tæplega fjögurra metra breið sjómannamynd.