Kristófer Már Maronsson
Kristófer Már Maronsson
Við eigum að hafa val um það hvernig við ráðstöfum eignum okkar svo lengi sem það hefur ekki neikvæð áhrif á aðra.

Kristófer Már Maronsson

Ímyndaðu þér að þú eigir einbýlishús á besta stað í þínu sveitarfélagi. Þegar þú deyrð erfist húsið til barnanna þinna – líkt og séreignarsparnaður. Ímyndum okkur að í þessum heimi sé ekki hægt að kaupa og selja húsnæði, heldur bara byggja nýtt. Nú er komið að því að mála húsið og þú vilt hafa það blátt, en þá kemur babb í bátinn. Sveitarstjórn hefur ákveðið að íbúar megi eingöngu mála húsin sín í sex litum: hvít, kiddahvít, ektahvít, marmarahvít, meistarahvít og skýgrá. Þú getur flutt í annað sveitarfélag og byggt þér nýtt hús þar sem má hafa húsin hvít eða ljósblá, en þó ekki alveg blá eins og þú vilt. Sem betur fer myndi engum detta í hug að setja reglur um það í hvaða litum eigendur einbýlishúsa mega mála húsin sín. Við eigum að hafa val um það hvernig við ráðstöfum eignum okkar svo lengi sem það hefur ekki neikvæð áhrif á aðra. Mér finnst það sama eiga að gilda um séreignarsparnað.

Þín eigin fjárfestingarstefna

Ég býð mig fram í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins og vil auka frelsi sjóðfélaga til þess að ákveða hvernig séreignarsparnaður er notaður til fjárfestinga, a.m.k. þeirra sem hafa áhuga á því. Í dag eru einmitt sex ávöxtunarleiðir í boði sem er mikið í samanburði við aðra sjóði. Ég sé fyrir mér nýja ávöxtunarleið þar sem hver og einn sjóðfélagi getur sett eigin fjárfestingarstefnu fyrir sína séreign með reglulegu millibili, t.d. á 6-12 mánaða fresti. Slík breyting hefur engin áhrif á samtryggingasjóð né séreignarsparnað annarra sjóðfélaga, rétt eins og ef þú málar húsið þitt blátt þá breytir það hvorki litnum á húsum annarra í sveitarfélaginu né bókasöfnum, skólum eða öðrum sameignum íbúa. Útfærslan sem ég hef í huga er tiltölulega einföld og verður að sjálfsögðu unnin í samvinnu við starfsfólk sjóðsins og aðra haghafa, m.a. til að lágmarka umsýslukostnað sjóðsins af breytingunni.

Þú getur lagt þitt af mörkum

Tæplega 57.000 sjóðfélagar geta kosið í stjórnarkjörinu, en það er ekki á allra vitorði hverjir eru á kjörskrá og kjörsókn er almennt dræm. Almenni lífeyrissjóðurinn er starfsgreinasjóður arkitekta, lækna, tæknifræðinga, hljómlistarmanna og leiðsögumanna en einnig getur um helmingur launþega valið að greiða í sjóðinn. Allir geta athugað á mínum síðum á almenni.is hvort þeir hafi kosningarétt.

Til þess að hugmyndir mínar nái fram að ganga þarf ég á öflugu umboði sjóðfélaga að halda. Rafræn kosning er í gangi til 29. mars nk. á https://almenni.is og ég óska eftir þínum stuðningi, hvort sem þú getur kosið eða látið vini og vandamenn vita. Margt smátt gerir eitt stórt og í krafti fjöldans er hægt að gera breytingar til hins betra. Breytingar sem framtíðarkynslóðir munu líta á sem sjálfsagðan hlut - rétt eins og að geta valið lit á húsin sín.

Höfundur er hagfræðingur og frambjóðandi í stjórn Almenna lífeyrissjóðsins.

Höf.: Kristófer Már Maronsson