Reynslumikill Kári Árnason lék 90 A-landsleiki á árunum 2005 til ársins 2021 og var lykilmaður í liðinu sem fór í lokakeppni EM 2016 og HM 2018.
Reynslumikill Kári Árnason lék 90 A-landsleiki á árunum 2005 til ársins 2021 og var lykilmaður í liðinu sem fór í lokakeppni EM 2016 og HM 2018. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kári Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er bjartsýnn á gott gengi íslenska liðsins í komandi undankeppni EM 2024 sem hefst í dag. Ísland leikur í J-riðli undankeppninnar ásamt Bosníu, Liechtenstein, Lúxemborg, Portúgal og…

EM 2024

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Kári Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er bjartsýnn á gott gengi íslenska liðsins í komandi undankeppni EM 2024 sem hefst í dag.

Ísland leikur í J-riðli undankeppninnar ásamt Bosníu, Liechtenstein, Lúxemborg, Portúgal og Slóvakíu en íslenska liðið mætir Bosníu í Zenica í kvöld og svo Liechtenstein í Vaduz á sunnudaginn kemur.

Kári, sem lagði skóna á hilluna árið 2021, lék 90 A-landsleiki fyrir Ísland á árunum 2005 til ársins 2021 og var lykilmaður í liði Íslands sem tók þátt í lokakeppni EM árið 2016 í Frakklandi og í lokakeppni HM í Rússlandi árið 2018.

„Leikurinn gegn Bosníu leggst ágætlega í mig,“ sagði Kári í samtali við Morgunblaðið.

„Ég held að þeir séu með reynslumeira lið og leikmenn Bosníu spila kannski í stærri deildum en leikmenn íslenska liðsins. Við erum hins vegar með hörkulið og ef leikplanið er gott þá eigum við alveg að búast við einhverjum úrslitum.

Fyrir mér er mikilvægast að tapa ekki leiknum og að ná í jafntefli gegn Bosníu á útivelli yrðu alls ekki slæm úrslit fyrir okkur. Að mínu mati þá er þetta það lið sem við munum berjast um annað sæti riðilsins við. Slóvakía er vissulega með gott lið en það verður að öllum líkindum Ísland og Bosnía sem munu berjast um annað sætið,“ sagði Kári.

Megum ekki misstíga okkur

Eftir leikinn gegn Bosníu mætir liðið Liechtenstein eins og áður sagði en Liechtenstein er í 198. sæti heimslista FIFA.

„Fjögur stig út úr þessum landsleikjaglugga væri gott myndi ég segja. Við megum hins vegar alls ekki misstíga okkur gegn Liechtenstein, það yrði algjörlega hræðileg niðurstaða, svo við segjum það bara eins og það er. Þeir eru ekki með gott fótboltalið en á sama tíma geta hlutirnir oft spilast á skrítinn hátt í þessari íþrótt.

Við þurfum fullorðinsframmistöðu á móti þeim ef svo má segja og því lengur sem þeir ná að halda leiknum í núllinu, því erfiðara verður það fyrir okkur. Síðast þegar liðið mætti Liechtenstein á útivelli þá skoruðu þeir á móti okkur þannig að við megum alls ekki verða værukærir, því þeir geta alveg skorað.“

Hefði viljað sjá fleiri miðverði

Reynsluboltarnir Alfreð Finnbogason, Aron Einar Gunnarsson og Jóhann Berg Guðmundsdóttir eru allir í íslenska hópnum en Sverrir Ingi Ingason þurfti að draga sig úr honum vegna meiðsla.

„Persónulega þá hefði ég viljað sjá fleiri miðverði í hópnum, sérstaklega eftir að Sverrir dró sig úr hópnum vegna meiðsla. Ég veit hins vegar ekki hvernig Arnar [Þór Viðarsson] metur þetta en mér finnst klárlega skortur á hreinum miðvörðum þarna eins og þetta blasir við mér.

Mögulega sér þjálfarinn Aron Einar fyrst og fremst sem miðvörð í dag en hann auðvitað tekur út leikbann gegn Bosníu. Hörður Björgvin Magnússon og Daníel Leó Grétarsson eru báðir örfættir og það gengur alveg upp. Guðlaugur Victor Pálsson getur líka leyst þessa stöðu þó hann hafi kannski ekki spilað marga leiki með landsliðinu sem miðvörður.“

Gríðarlega mikilvægt

Hversu mikilvægt er fyrir íslenska liðið að byrja nýja undankeppni með reynslubolta eins og Alfreð, Aron Einar og Jóhann Berg í hópnum?

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska liðið að fá þessa leikmenn inn og fyrir mér eru þetta bestu leikmenn liðsins í dag. Hákon Arnar Haraldsson er klárlega okkar heitasti leikmaður í dag en það er líka þannig að þessir leikmenn, sem eru í kringum þrítugt, eru oft á toppnum á sínum ferlum á þeim tíma.

Þeir vita nákvæmlega hvað þarf til ef svo má segja og hvað þarf að gera til þess að vinna leiki. Það er kannski búið að hægjast aðeins á þeim en á sama tíma skiptir þessi reynsla svo miklu máli. Þeir taka ekki sömu áhættur og ungu leikmennirnir og þeir vita hvenær þeir eiga að taka áhættu og hvenær ekki.

Það er algjört lykilatriði fyrir landsliðið að þessir strákar, sem kunna að stjórna leikjum og hafa gert og séð þetta allt saman áður, séu með liðinu frá byrjun í þessari undankeppni.“

Ekkert verkefni létt

En hvernig metur Kári möguleika Íslands í undankeppninni?

„Ég las það á einhverri tölfræðisíðu að Portúgal væri langlíklegastir til þess að komast upp úr riðlinum og í lokakeppnina og það segir sig kannski sjálft að þeir séu langlíklegastir ef horft er til mannskaparins sem þeir hafa á að skipa.

Það er ekki til neitt sem heitir létt verkefni í fótbolta en það er klárt mál að við hefðum getað lent í miklu erfiðari riðli en við gerðum. Markmiðið og krafan hlýtur því að vera sú að liðið endi í öðru sæti riðilsins,“ bætti Kári við í samtali við Morgunblaðið.