Stemning Eggert Helgason (1830-1910) leikur á langspil með boga á Hvammabæ 1898. Piltur og kona hlusta.
Stemning Eggert Helgason (1830-1910) leikur á langspil með boga á Hvammabæ 1898. Piltur og kona hlusta. — Ljósmynd/Johannes Klein/Þjóðminjasafnið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Allir geta tekið þátt og gert sig gildandi. Enga tónlistarmenntun þarf.“

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við vitum ekki hvenær langspil kom fyrst hingað til lands, en elstu heimildir um langspilsleik eru frá átjándu öld. Talið er að langspilið hafi aðallega verið notað sem undirleikshljóðfæri fyrir söng,“ segir Eyjólfur Eyjólfsson, tónlistarmaður og þjóðfræðingur, en markmið hans er að koma hinu forna íslenska sítarafbrigði, langspili, aftur í umferð. Langspil er aflangur viðarstokkur með mismörgum strengjum og hljóðfærið er gjarnan haft á borði eða hnjám þegar leikið er á það.

„Langspil eins og annað sem tilheyrði gömlu bændamenningunni, þurfti að víkja fyrir nútímavæðingu þegar nýju hljóðfærin komu á nítjándu öld, eins og til dæmis fiðla, harmóníum, gítar og harmonikka. Fyrir iðnbyltingu finnst mér fjölbreytileikinn heillandi við alþýðumenninguna, eins og heyrist til dæmis í rímnakveðskap, hann var alls konar og því engin ein leið til að kveða rímur. Ólíkt rímnasöng þá eru ekki til upptökur af fornum langspilsleik og fyrir vikið vitum við ekki fyrir víst hvernig langspil hljómaði eða hvernig var leikið á það. Aftur á móti eru til gamlar myndir af langspilsleikurum, bændum frá nítjándu öld, og þar má sjá spilaaðferðina, hvernig þeir nota þumalinn til að styðja á laglínustrenginn um leið og þeir strjúka strengina með boga. Áður en þessi gömlu langspil urðu nútímavædd, var tónstigi gripabrettsins einfaldari og þegar þumlinum er rennt upp og niður á gamla gripabrettinu skapast spunakenndur leikur. Einmitt þess vegna finnst mér skemmtilegt að kenna á langspil. Það sem er spennandi við langspilið kennslufræðilega séð, er að allir geta tekið þátt og gert sig gildandi. Enga tónlistarmenntun eða sérstaka kunnáttu þarf til að geta tekið þátt,“ segir Eyjólfur og bætir við að þessi gamli hljómur miðaldatónlistar sé alveg sérstök tegund af tónlist.

„Þetta er alþýðutónlist sem hefur verið lengi við lýði.“

Krakkarnir í Flóaskóla

Fyrir nokkrum árum þegar Eyjólfur starfaði sem tónmenntakennari í Flóaskóla, fór hann af stað með rannsóknarverkefni tengt langspili.

„Þetta byrjaði sem hluti af meistararannsókn minni í þjóðfræði, en þar hélt ég áfram með rannsókn sem gerð var árið 1981 af bandaríska þjóðtónlistarfræðingnum David G. Wood, en hann lagði til í sinni úttekt að langspilið væri notað við grunnskólakennslu. Krakkarnir i Flóaskóla lærðu undirstöðuatriðin í smíði langspils og ég kenndi þeim líka nótur og lög. Við smíðuðum langspil frá grunni, en á ári tvö einfölduðum við ferlið í samstarfi við Ragnar Gestsson smíðakennara og sneri það aðallega að efnisvali, við notuðum birkikrossvið. Síðan datt ég niður á Fab Lab-smiðju á Selfossi og í samstarfi við Magnús Stephensen Fab Lab-stjóra, varð til sú útgáfa af langspili sem við vinnum núna með og erum að þróa. Við erum að fara af stað með fimmtu kynslóð af langspilum en þriðju kynslóð Fab Lab-langspila. Næstum allir hlutar langspilsins eru skornir út með leiserprentara og er þetta því tilraun til að sameina hið nýjasta og það gamla,“ segir Eyjólfur sem ekki kennir lengur í Flóaskóla en segist vera á kantinum með núverandi tónmenntakennara þar í tengslum við langspilsverkefnið.

Nýlega bauð Eyjólfur upp á langspilssmiðju í Listasafni Árnesinga og þangað mætti fólk á öllum aldri til að kynnast þessu forna hljóðfæri og fá að spila á það, bæði að strjúka strengina með hrosshársboga og plokka þá með álftafjöðrum.

„Upphaf þess að nota álftafjaðrir til strengjaplokks er að einn nemandi minn í Flóaskóla, stúlka sem bjó á bóndabæ við ströndina, kom með helling af álftafjöðrum í langspilstíma. Hún hafði fundið þær á ströndinni þegar álftirnar voru í sárum. Það er virkilega fallegt og gaman að slá og plokka langspilsstrengi með fjöðrunum.“

Losum okkur við skömmina

Eyjólfur segir að honum finnist ásæðulaust að nýta langspilið ekki, því það hafi svo margar skírskotanir og snertifleti.

„Langspil er þægilegt og aðgengilegt hljóðfæri í notkun sem sameinar marga þætti, bæði kennslufræðilega og tónlistarlega. Hægt er að nota langspil til kennslu á mörgum stigum, allt frá leikskólum upp í tónmennt hjá eldri krökkum. Þegar ég fór af stað með þetta verkefni, þá var markmið að koma langspilinu að í Listaháskólanum og nú er ég búinn að kenna tvö ný námskeið þar í kringum langspilið, eitt hjá tónlistardeildinni og annað hjá listkennsludeild. Til stendur að langspilssveit úr Flóaskóla leiki með Sinfónóiuhljómsveit Íslands á næsta starfsári, svo ég má vel við una,“ segir Eyjólfur og bætir við að honum finnist flott að blanda saman nýjum hljóðfærum og gömlum.

„Menningararfurinn getur verið svo öflugur og fallegur sameiningarkraftur. Þegar hann er notaður rétt þá tengir hann okkur við aðra menningarheima. Ég hef lagt upp úr því í þessu verkefni með krökkunum að um leið og þau læra um eigin menningu og sögu, þá styrkja þau tengsl sín út fyrir landsteinana. Menningararfur ferðast þvert á landamæri og um leið og þau hafa lært á langspil þá hafa þau lært á önnur sambærileg hljóðfæri út um allar heimsálfur. Það er ekkert séríslenskt við langspilshljóminn, nema að hann er íslenkt afbrigði og við höfum okkar einkenni, en þetta er hljómur sem samsvarar sig við asískar þjóðlagahefðir og við fyrri tíðar upprunastefnur í Evrópu. Þetta tengist út um allt. Ég berst fyrir því að þetta finni sér farveg í skólakerfinu og kannski erum við núna að endurskoða menningararfinn okkar af einlægri forvitni, án þess að vera með einhverja menningararfsskömm. Ég hef alla vegana fengið mjög góðar undirtektir með langspilsverkefnið og allir eru svo til í þetta, sem gerir þetta svo skemmtilegt og yndislegt.“