Barátta Fjölniskonan Simone Sill í baráttunni við Valsarana Ástu Júlíu Grímsdóttur og Eydísi Evu Þórisdóttir í Dalhúsum í Grafarvoginum í gær.
Barátta Fjölniskonan Simone Sill í baráttunni við Valsarana Ástu Júlíu Grímsdóttur og Eydísi Evu Þórisdóttir í Dalhúsum í Grafarvoginum í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kiana Johnson átti stórleik fyrir Val þegar liðið vann stórsigur gegn Fjölni, 102:71, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Dalhúsum í Grafarvogi í 27. umferð deildarinnar í gær

Kiana Johnson átti stórleik fyrir Val þegar liðið vann stórsigur gegn Fjölni, 102:71, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Dalhúsum í Grafarvogi í 27. umferð deildarinnar í gær. Johnson skoraði 23 stig, tók fimm fráköst og gaf tíu stoðsendingar en Simone Costa skoraði einnig 23 stig fyrir Val. Brittany Dinkins var stigahæst hjá Fjölni með 22 stig, sex fráköst og sjö stoðsendingar.

Grindavík gerði sér lítið fyrir og vann sex stiga sigur gegn deildarmeisturum Keflavíkur, 63:57, í HS Orku-höllinni í Grindavík. Elma Dautovic skoraði 13 stig fyrir Grindavík, tók þrettán fráköst og gaf þrjár stoðsendingar en Daniela Wallen var stigahæst hjá Keflavík með 15 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar.

Greeta Uprus átti svo stórleik fyrir ÍR þegar liðið heimsótti Breiðablik í Smárann í Kópavogi en leiknum lauk með tveggja stiga sigri ÍR, 79:77.

Uprus skoraði 27 stig, tók sjö fráköst og gaf eina stoðsendingu en þetta var annar sigur ÍR-inga á tímabilinu sem voru fallnir úr deildinni fyrir leik gærdagsins.