Gervigreind Spjallmennið nýja hefur vakið gífurlega athygli um allan heim, en ýmislegt ber þó að varast.
Gervigreind Spjallmennið nýja hefur vakið gífurlega athygli um allan heim, en ýmislegt ber þó að varast. — AFP/Stefani Reynolds
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Háskólarnir hér á landi hafa stofnað vinnuhóp til að bregðast við notkun gervigreindar á háskólastigi. „Gervigreind er komin til að vera og getur verið mjög áhrifaríkt tæki til að einfalda og flýta fyrir vinnu, ef rétt er með farið, en það eru hættur sem fylgja þessari tækni og þær þurfum við að búa okkur undir og bregðast við,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Háskólarnir hér á landi hafa stofnað vinnuhóp til að bregðast við notkun gervigreindar á háskólastigi. „Gervigreind er komin til að vera og getur verið mjög áhrifaríkt tæki til að einfalda og flýta fyrir vinnu, ef rétt er með farið, en það eru hættur sem fylgja þessari tækni og þær þurfum við að búa okkur undir og bregðast við,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Gervigreind (e: artificial intelligence) í ýmsum myndum hefur tekið stórstígum framförum á undanförnum misserum og æ fleiri nýta sér hana til að létta sér störf og afla upplýsinga. Upp á síðkastið hefur umræðan mest orðið um svokallað spjallmenni á netinu (ChatGPT) sem tæknimenn Microsoft hafa þróað. Allur almenningur hefur nú aðgang að því og getur nýtt sér það við hvers kyns fróðleiksöflun, í námi og starfi. Ný útgáfa ChatGPT nr. 4 er nýlega komin á netið og er sögð enn fullkomnari en fyrirrennarinn en kaupa þarf áskrift til að nýta sér hana.

Hér á landi hafa sjónir manna einkum beinst að því að spjallmenni Microsoft er að læra íslensku. Er það ávöxtur langs samstarfs íslenskra stjórnvalda og fyrirtækisins sem hófst í menntamálaráðherratíð Björns Bjarnasonar fyrir síðustu aldamót þegar mörkuð var sú stefna að gera tungutækni hátt undir höfði. En þótt gervigreindarvélar geti innan tíðar talað og skrifað fullkomna íslensku, sem er afar mikilvægt fyrir framtíð íslenskrar tungu, er ýmislegt í tækninni sjálfri og notkun hennar sem kallar á árvekni.

Háskólarnir funda

Í vikunni sem leið komu fulltrúar allra háskólanna saman til að greina tækifæri og hættur sem gervigreindinni fylgja. „Þar kom skýrt fram að tækifærin eru mörg, bæði fyrir kennara og nemendur, en stærsta viðfangsefnið er að kenna og þjálfa kennara í notkun gervigreindar og að ákveða hver takmörkin eru, hvaða siðareglur gilda og einfaldlega hvað má og hvað ekki,“ segir Jón Atli Benediktsson. Hann segir að hætturnar séu þær að nýsköpun og frumkvæði verði bæld niður og viðbrögð við hugmyndum gervigreindar verði aðalviðfangsefnið. „Það hefur komið víða fram að gervigreindinni er ekki treystandi fyrir því að heimildir séu réttar þar sem blandað er oft og tíðum saman góðum og traustum heimildum og öðrum sem eru það ekki. Að auki getur traust á gervigreind leitt til einföldunar á efni og vanmats á mannlegu framlagi,“ segir Jón Atli.

Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, segir að hin nýja tækni kalli á að endurskoða ákveðna þætti í háskólastarfi. Slík vinna sé þegar hafin í HR og flestum háskólum heims. „Spjallmenni geta létt nemum og kennurum lífið að einhverju leyti, t.d. með því að draga saman mikið magn upplýsinga, aðstoða við skilning á flóknum textum og við að búa til dæmi og verkefni,“ segir hún. „En þau geta líka veitt gallaðar upplýsingar og dregið úr gagnrýninni hugsun.“

Ragnhildur segir að í HR finnist mönnum gagnlegast að nálgast spjallmenni út frá hugmyndum um tæknina sem verkfæri sem breyti vinnu okkar flestra, eins og mörg verkfæri hafi gert áður. Jafnsjálfsagt virðist t.d. að nota þau til að semja staðlaða tölvupósta og að nota Excel til útreikninga eða reiknivél til að reikna sínus og kósínus eins og gert var fyrr á árum. Slík tækni hafi hvorki eyðilagt stærðfræðina né mennskuna og eins muni vél sem raðar saman kurteislegum orðum ekki gera það heldur. „Hugsanirnar, sköpunarkraftinn, tilfinningarnar og tengingarnar við aðra, á mannfólkið áfram eitt,“ segir hún.

Þarf að nota rétt

Jón Atli leggur áherslu á að tæknin sé notuð rétt og samkvæmt siðferðilegum akademískum viðmiðunum. „En við sem háskólasamfélag verðum að kenna nemendum nýjustu tækni, gervigreind og spjallmenni jafnt sem annað, til þess að halda í við framfarir,“ segir hann. Jafnvægið á milli nýjunga í tækni, almennrar þekkingar einstaklinga og framfara sé vandmeðfarið en grundvallaratriðið sé að skólarnir vilji útskrifa nemendur sem eru með raunverulega þekkingu og kunnáttu sem sé þeirra en ekki leitarvéla á netinu.

„Gervigreind felur í sér fögur fyrirheit og mig grunar að spjallmenni verði ómissandi í allri kennslu fyrr en við ætlum,“ segir Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingar og formaður Hagþenkis, félags fræðibókahöfunda. „Við eigum ekki að láta ótta stýra viðbrögðum okkar,“ segir hann. Um þessa tækni sem aðra gildi að veldur hver á heldur. Hann hafi haft kennslu að aðalstarfi í aldarfjórðung og þetta sé ekki í fyrsta skipti sem ný tækni sé sögð bylta kennsluháttum. Enn séu kennarar þó ekki hættir að nota krítar- eða tússtöflur.

Gervigreind og spjallmenni

Framleiðslan getur verið bjöguð

„Raunþekking hefur aldrei verið mikilvægari en nú þegar upplýsingaflóðið er svo mikið og alls konar hagsmunaöfl moka fjármunum í áróður og fals til að skara eld að eigin köku,“ segir Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla. Hann hefur unnið töluvert með gervigreindina og spjallmennið og séð margt áhugavert og skemmtilegt, fengið margvíslegar upplýsingar og hjálpargögn á örskömmum tíma. „En eins og með Google þarf maður að hafa töluverða þekkingu til að vinna markvisst með tæknina og til að geta treyst því sem hún framleiðir. Framleiðslan er oft mjög trúverðug þó að hún geti verið alröng eða bjöguð,“ segir hann. Jón Pétur bendir á að ýmislegt efni fari á netið og baráttan um athygli notenda sé gríðarlega hörð. Sérhagsmunaöfl dæli upplýsingum af öllu tagi inn á netið þannig að gervigreindin sé líklegri til að nýta þær í svörum og textaskrifum eins og hún sé þjálfuð til.