— AFP/Forsetaembætti Úkraínu
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hét því í gær að Úkraínumenn myndu „svara hverju einasta höggi“ sem Rússar greiddu þeim, en ummæli Selenskís féllu í kjölfar árása Rússa á Kænugarð og Saporísja í gær og fyrrinótt, þar sem átta hið minnsta létu lífið

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hét því í gær að Úkraínumenn myndu „svara hverju einasta höggi“ sem Rússar greiddu þeim, en ummæli Selenskís féllu í kjölfar árása Rússa á Kænugarð og Saporísja í gær og fyrrinótt, þar sem átta hið minnsta létu lífið.

Að minnsta kosti sjö féllu í drónaárás Rússa um nóttina á heimavist skóla í bænum Rsjistsjív, skammt sunnan Kænugarðs, og níu særðust til viðbótar. Þá féll einn í eldflaugaárás Rússa á íbúðablokk í borginni Saporísja, og 32 til viðbótar særðust. Úkraínuher sagði í yfirlýsingu að hann hefði náð að skjóta niður sextán dróna í fyrri árás Rússa, en að fimm hefðu sloppið í gegnum loftvarnir þeirra.

Selenskí sagði að árásin á Saporísja hefði verið „dýrsleg villimennska“, og að hún sýndi að Rússar væru að reyna að eyðileggja borgir Úkraínumanna, ríki þeirra og þjóð.

Selenskí hélt í gær í heimsókn til vígstöðvanna í nágrenni við borgina Bakhmút, þar sem hörðustu bardagar stríðsins hafa geisað undanfarnar vikur. Sagði Selenskí að varnarliðið þar hefði fengið erfitt verkefni.

„Það er heiður minn að vera hér í dag til að verðlauna hetjurnar okkar, að heilsa þeim og þakka fyrir að verja fullveldi lands okkar,“ sagði Selenskí við hermennina, en hann afhenti þeim heiðursmerki fyrir baráttu sína.

Sóknin að missa dampinn?

Jevgení Prigosjín, stofnandi Wagner-málaliðahópsins, sagði fyrr í vikunni að menn sínir réðu nú yfir um 70% af Bakhmút-borg í Donetsk-héraði, en bæði Rússar og Úkraínumenn hafa lagt mikið í orrustuna um borgina. Hafa Rússar reynt að umkringja borgina með því að sækja að síðasta þjóðveginum inn í hana sem Úkraínumenn hafa á valdi sínu.

Breska varnarmálaráðuneytið sagði hins vegar í stöðumati sínu í gær, að gagnárás Úkraínuhers vestan við borgina hefði nú staðið yfir í nokkra daga, og að útlit væri fyrir að hún myndi létta á þeim þrýstingi sem Rússar hefðu sett á þjóðveginn.

Sagði ráðuneytið jafnframt að bardagar geisuðu enn í miðborg Bakhmút, og að hætta væri á því að varnarlið Úkraínu yrði umkringt í borginni. Hins vegar væri nú raunhæfur möguleiki á því að árás Rússa á Bakhmút væri að glata þeim skriðþunga sem hún hefði náð, að hluta til vegna þess að rússneska varnarmálaráðuneytið hefði fært sumar hersveitir sínar til annarra svæða.

Harma ummæli Medvedevs

Forsætisnefnd þings aðildarríkja að Rómarsamþykktinni, sem liggur að baki Alþjóðlega sakamáladómstólnum, sendi í gær frá sér yfirlýsingu, þar sem hún harmaði „tilraunir til þess koma í veg fyrir leiðir alþjóðasamfélagsins til að tryggja ábyrgð á verkum sem væru bönnuð samkvæmt almennum alþjóðalögum“.

Tilefni yfirlýsingarinnar voru hótanir sem beinst hafa að dómstólnum, saksóknurum og dómurum við hann í kjölfar þess að ákveðið var í síðustu viku um að gefa út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín Rússlandsforseta vegna meintrar aðildar hans að stríðsglæpum Rússa í Úkraínu.

Var yfirlýsingin túlkuð sem svar við hótunum Dmitrís Medvedev, fyrrverandi forseta Rússlands, sem lýsti því yfir í kjölfar handtökuskipunarinnar að það kæmi til greina að skjóta ofurhljóðfrárri eldflaug á Haag, þar sem dómstóllinn hefur aðsetur sitt. Ítrekaði forsætisnefndin stuðning sinn og þings aðildarríkjanna við störf dómstólsins.

Senda gamla skriðdreka

Vestrænir hernaðarsérfræðingar sögðu í gær að útlit væri fyrir að rússneski herinn glímdi við skort á skriðdrekum, eftir að myndskeið birtust af herflutningalest, sem var að flytja T-54- og T-55-skriðdreka úr smiðju Sovétríkjanna. Var lestin sögð á leiðinni til Úkraínu frá vopnageymslu Rússa í Arsenjev, en þar hefur rússneski herinn geymt mikið af úreltum búnaði.

Ben Barry, sérfræðingur í skriðdrekahernaði við CIT-hugveituna, sem fyrst birti myndskeið af skriðdrekunum, sagði við breska dagblaðið Daily Telegraph að myndirnar bentu til þess að nær allar birgðir Rússa af nýrri skriðdrekum væru nú þegar í eða við Úkraínu. „Þetta gefur til kynna að þeir hafi sent alla T-62-skriðdrekana sem þeir hafa í notkun, þannig að þeir eru komnir að T-55,“ sagði Barry, en T-54-skriðdrekarnir voru fyrst framleiddir undir lok síðari heimsstyrjaldar árið 1945 og T-55 fór í framleiðslu um áratug síðar.

Sagði Barry að myndirnar bentu til að Úkraínumenn væru að ná að slá nýrri skriðdreka Rússa úr leik, á sama tíma og þeir sjálfir væru að fá nútímalega vestræna skriðdreka senda. Bandaríkjaher tilkynnti í fyrradag að hann myndi senda Úkraínumönnum M1A1-útgáfuna af Abrams-skriðdrekanum, sem er ögn eldri útgáfa en M1A2 sem upphaflega átti að senda. Ákvörðunin þýðir að skriðdrekarnir verði teknir í gagnið núna í haust frekar en næsta vor.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson