Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er meðal annars að efla orkuöryggi, draga úr losun á gróðurhúsaloftegundum og efla úrbætur í umhverfismálum.
Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er meðal annars að efla orkuöryggi, draga úr losun á gróðurhúsaloftegundum og efla úrbætur í umhverfismálum. — Ljósmynd/Orkustofnun
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að sögn Höllu er „Orkustofnun vakin og sofin yfir því að styðja stjórnvöld við að uppfylla loftslagsskuldbindingar sínar í tæka tíð og styðja þar með við lykilmarkmið orkustefnu Íslands. Á undanförnu ári hefur stofnunin því endurskipulagt alla …

Að sögn Höllu er „Orkustofnun vakin og sofin yfir því að styðja stjórnvöld við að uppfylla loftslagsskuldbindingar sínar í tæka tíð og styðja þar með við lykilmarkmið orkustefnu Íslands. Á undanförnu ári hefur stofnunin því endurskipulagt alla starfsemi sína með það að markmiði að geta betur miðlað upplýsingum og veitt stjórnvöldum ráðgjöf varðandi framkvæmd verkefna sem fleyta okkur í mark. Sjá má þessar áherslur skýrt í nýju skipuriti stofnunarinnar sem nýtist sem farartæki inn í þá framtíðarsýn og endurspeglar um leið afrakstur stefnumótunar sem unnin var með starfsmönnum og innleggi fjölda hagaðila. Stefnan var samþykkt af ráðherra og kynnt í ríkisstjórn í október 2021. Hún kristallar metnaðarfulla framtíðarsýn á öllum sviðum stofnunarinnar og dregur fram áherslu stofnunarinnar á að gera sitt allra besta fyrir viðskiptavin sinn; íslensku þjóðina.“ Halla nefnir einnig að „Orkustofnun sé falin mikil og fjölþætt ábyrgð í auðlindamálum í lögum landsins og gegni veigamiklu hlutverki í að lykilmarkmiðum stjórnvalda verði náð eins og hér hefur verið tíundað. Fram undan eru ærin verkefni og mun stofnunin leggja áherslu á að sinna þeim af metnaði, fagmennsku og heilindum fyrir komandi kynslóðir.“

Orkuskipti

Á sviði orkuskipta eru stór verkefni fram undan tengd innviðum og hröðun á innleiðingu tækni. Í því samhengi mun nýtt svið orku-, loftslagsmála og nýsköpunar stofnunarinnar styðja vel við, en undir því eru bæði starfsemi Orkuseturs og umsjón Orkusjóðs sem hefur vaxið mikið á undanförnum árum með stuðningi ráðuneytis. Einnig tengjast þessi verkefni raforkueftirliti og leyfisveitingum sem eru kjarninn í lögbundnu hlutverki Orkustofnunar. Í heildarumgjörð eru möguleikar á að skapa hvata til þess að orkuframleiðsla skili sér í orkuskiptaverkefni, þar sem eðli slíkrar orkunotkunar er ólíkt hefðbundnum orkukaupendum hér á markaði, sem oft gera langtímasamninga um mikla orku, og orkuskiptaverkefni því ekki endilega samkeppnishæf á þessum tímapunkti. Fram undan eru einnig margvísleg tengd verkefni, meðal annars að styrkja löggjöf og innleiða reglugerð um raforkuöryggi almennings. Þá þarf að afgreiða rammaáætlun sem nær yfir ólíka nýtingu auðlinda okkar og skiptir máli fyrir jafnvægi í nálgun og heildarsýn.

Orkusjóður

Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Orkusjóður styður einnig við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.

Sjóðurinn auglýsir verkefni reglulega og velur þau verkefni sem eru talin best til þess fallin að minnka notkun jarðefnaeldsneytis. Síðustu átaksverkefni hafa snúist um orkuskipti í samgöngum. Frá árinu 2016 hafa verið veittir styrkir til að setja upp hleðslustöðvar víða um land enda er bein nýting raforku í samgöngutækjum mjög orkuhagkvæm. Stóraukin framlög til sjóðsins hafa gert það kleift að styðja við rafeldsneytisnýtingu á sjó og landi. Nýting á raforku frá stórum rafhlöðum og brennsla á sjálfbæru eldsneyti er nú þegar möguleg í skipum og flugið mun einnig nýta þá tækni á komandi árum.

Fulltrúi Íslands formaður Norrænna orkurannsókna 2023

Árið 2023 tók fulltrúi Íslands, Baldur Pétursson, við formennsku í stjórn Norrænna orkurannsókna en hann er verkefnastjóri alþjóðlegra verkefna hjá Orkustofnun. Hann segir að áherslur Íslands í formennskutíðinni innan Norrænna orkurannsókna byggist á stefnumörkun Norrænu ráðherranefndarinnar og embættismannanefndarinnar um orkumál. Áherslur í formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 eru á græn orkuskipti, endurnýjanlega orku, orkuöryggi, viðbrögð gegn loftslagsbreytingum, og föngun og geymslu kolefnis. Þessi atriði endurspegla einnig áherslur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Orkustofnunar.

Að vera fyrirmynd fyrir Evrópu og umheiminn

Að sögn Baldurs stendur heimurinn frammi fyrir tveimur miklum áskorunum á sviði loftslags og orku sem kallar ekki aðeins á markviss viðbrögð heldur einnig langvarandi og sjálfbærar lausnir. „Norðurlöndin búa yfir mikilli reynslu og góðum starfsvenjum til að miðla öðrum löndum til að læra af og útfæra græn orkuskipti, orkuöryggi og draga úr loftslagsbreytingum. Norrænt orkurannsóknasamstarf getur gegnt mikilvægu hlutverki í þróun norrænna orkulausna sem um leið nýtist Evrópu og umheiminum.“ Sjá má frekari upplýsingar um Nordic Energy Research á vef stofnunarinnar.

Framlag Íslands á sviði endurnýjanlegrar orku innan EES

Orkustofnun hefur umsjón með umsóknum og styrkjum á sviði endurnýjanlegrar orku, umhverfis- og loftslagsmála fyrir hönd utanríkisráðuneytisins innan Uppbyggingarsjóðs EES-samningsins. Uppbyggingarsjóðurinn er fjármagnaður af stjórnvöldum EES-ríkjanna; Íslands, Noregs og Liechtenstein og veitir styrki til verkefna í 16 löndum í Austur- og Mið-Evrópu auk Portúgals og Spánar. Samkvæmt núverandi áætlun sjóðsins veitir Orkustofnun stuðning og sér um verkefni í Póllandi, Rúmeníu og Búlgaríu. Markmið Uppbyggingarsjóðs EES er meðal annars að efla orkuöryggi, draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og efla úrbætur í umhverfismálum í viðkomandi löndum, meðal annars með því að nýta endurnýjanlega orku í stað jarðefnaeldsneytis. Verkefnin í Póllandi tengjast meðal annars orkuskiptum úr kolum í endurnýjanlega orku, nýtingu jarðhita, orkuöryggi, vistkerfum, loftslagsbreytingum og fleira og minnka árlega losun koltvíoxíðs um 600.000 tonn, sem nýtist öllum óháð landamærum. Í Rúmeníu og Búlgaríu eru verkefni á sviði jarðhitanýtingar, til dæmis vegna húshitunar í opinberum byggingum, hótelum, háskólum, leikskólum. Bæta á þekkingu og þjálfun á sviði jarðhitanýtingar sem og jafnréttismála. Sjóðurinn veitir þannig mikilvægan stuðning við orkuskipti innan Evrópu sem Orkustofnun er stolt af að taka þátt í. Nánari upplýsingar um ýmsa starfsemi Orkustofnunar má sjá á vef stofnunarinnar, os.is.