Við píanóið Tónskáldið Sævar Jóhannsson blæs til tónleikaraðar í tilefni af alþjóðlegum degi píanósins.
Við píanóið Tónskáldið Sævar Jóhannsson blæs til tónleikaraðar í tilefni af alþjóðlegum degi píanósins. — Morgunblaðið/Eggert
Hann er heldur rámur að heyra og útskýrir að hann sé að jafna sig eftir stórt og skemmtilegt tónlistarverkefni með 150 krökkum í Hörpu á vegum Nótunnar. 88 nótur á píanóinu „Við vorum með skapandi tónlistarsmiðju þar sem við sömdum lag á…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Hann er heldur rámur að heyra og útskýrir að hann sé að jafna sig eftir stórt og skemmtilegt tónlistarverkefni með 150 krökkum í Hörpu á vegum Nótunnar.

88 nótur á píanóinu

„Við vorum með skapandi tónlistarsmiðju þar sem við sömdum lag á tveimur dögum og fluttum það svo í Eldborg um síðustu helgi,“ segir Sævar Jóhannsson, píanisti og tónskáld, en hann hyggst ásamt kollegum sínum, þeim Eðvarði Egilssyni og hinum pólska Miro Kepinski, bjóða til tónleikaraðar í Reykjavík, á Selfossi og í Reykjanesbæ um næstu helgi í tilefni af alþjóðlegum degi píanósins.

„Við kynntumst sem sagt fyrir nokkrum árum í tónsmíðabúðum í Póllandi sem við Eðvarð fórum í á vegum STEFs og Music Export Poland hélt. Nú var komið að okkur að sýna Miro íslenska gestrisni. Við eigum það allir sameiginlegt að semja mikið fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir og deilum þessari ástríðu fyrir þessu fallega hljóðfæri auk þess sem við vinnum aðallega með pianóið við okkar tónsmiðar. Því fannst okkur þetta skemmtileg hugmynd, ekki síst til að koma okkur aðeins betur á framfæri, að ráðast í þessa tónleikaröð sem hefst kl. 20 í Mengi 29. mars sem er 88. dagur ársins, eins og nóturnar á píanóinu. Daginn eftir, 30. mars, verða svo tónleikar í Risinu á Selfossi kl. 20 og 1. apríl í Duus Safnahúsi í Reykjanesbæ kl. 14.“

Plötur í undirbúningi

Aðspurður um strauma og stefnur í verkum þremenninganna segir Sævar að þeir flokkist sennilega allir undir tónlistarstefnuna nýklassík en þó séu þeir með mjög persónulegan stíl.

„Ég er með töluverðan djassbakgrunn þannig að ég er undir miklum áhrifum frá honum. Miro er meira í epískri kvikmyndatónlist og Eðvarð er með alveg einstakan stíl sem ég á erfitt með að útskýra í stuttu máli.“ Hann bætir við að Eðvarð sé að vinna að sinni fyrstu sólóplötu sem komi væntanlega út á þessu ári. Hún komi í kjölfar tónlistarinnar sem hann samdi fyrir Skjálfta, ásamt Páli Ragnari Pálssyni tónskáldi og fyrrverandi Maus-meðlimi. Þá hefur Miro einnig á prjónunum að gefa út tónlist sem hann samdi fyrir kvikmyndina Furiosa sem frumsýnd verður á næsta ári.

Að lokum má geta þess að Sævar undirbýr nú útgáfu fimmtu plötu sinnar Where the Light Enters sem kemur út síðar á þessu ári í samstarfi við breska plötufyrirtækið Whitelabrecs. Þá stendur einnig til að gefa út OST-plötu með frumsaminni leikhústónlist sem hann gerði fyrir heilgrímusýninguna Hrímu á síðasta ári.