Viðar Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 3. apríl 1931. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 7. mars 2023.

Hann var sonur hjónanna Þorsteins Ingvarssonar bakarameistara, f. 12. mars 1908, d. 11. mars 1974, og Bergljótar Helgadóttur húsfreyju, f. 17. júlí 1906, d. 14. nóvember 1963. Viðar var næstelstur af fjórum bræðrum en hinir eru; Ingvar, f. 28. maí 1929, d. 31. janúar 2019, Kristinn Björgvin, f. 25. júní 1937 og Þorsteinn, f. 22. desember 1944.

Viðar kvæntist Lilju Guðrúnu Eiríksdóttur 24. apríl 1952. Guðrún fæddist 12. júlí 1932 og lést 24. maí 2022. Foreldrar hennar voru Eiríkur Kristjánsson, f. 11. mars 1889, d. 16. júní 1949 og Sigríður Guðmundsdóttir, f. 23. júlí 1903, d. 30. mars 1959.

Börn þeirra eru 1) Baldvin, f. 28. maí 1952, 2) Kjartan, f. 15. október 1955, kvæntur Kristínu V. Samúelsdóttur, f. 1955, börn þeirra eru a) Kristinn Viðar, f. 9. júlí 1980, kvæntur Guðnýju Huldu Ingibjörnsdóttur, f. 1983, dætur þeirra eru Viktoría Hildur, f. 2007, og Emilía Katrín, f. 2011. b) Anna Lilja, f. 13. september 1985, í sambúð með Magnúsi Inga Magnússyni, f. 1985, sonur þeirra er Kjartan Leó, f. 2020 3) Lilja, f. 17. desember 1958, gift Skúla Magnússyni, f. 1953, þeirra börn eru a) Magnús Viðar, f. 27. mars 1979, kvæntur Öglu Mörtu Sigurjónsdóttur, f. 1977, börn þeirra eru Erna Lilja, f. 2006, og Atli Viðar, f. 2011, b) Guðrún, f. 3. júní 1981, í sambúð með Davíð Ragnarssyni, f. 1980, dætur hennar eru Júlía Dagbjört, f. 2002, og Lísa María, f. 2007, 4) Anna, f. 24. ágúst 1963, gift Jóni Aðalsteini Hinrikssyni, f. 1959. 5) Helgi, f. 14. mars 1969, kvæntur Magdalenu S. Viðarsson, f. 1980, dóttir þeirra er Elín María, f. 2011.

Hann ólst upp á Bráðræðisholtinu í Vesturbæ Reykjavíkur en þau Guðrún hófu sinn búskap að Langholtsvegi 152 árið 1950. Árið 1968 fluttu þau ásamt börnum sínum í Fossvoginn þar sem þau höfðu byggt sér gott heimili í raðhúsi við Hjallaland 16. Þar bjuggu þau til ársins 2004 er þau fluttu að Grænlandsleið 53 í Grafarholti.

Viðar lauk námi í bókbandi frá Iðnskólanum í Reykjavík og starfaði um tíma hjá Bókbandsstofunni Arnarfelli og þess má geta að þau Guðrún kynntust einmitt þar þá 18 og 17 ára gömul. Hann öðlaðist meistararéttindi í bókbandi og starfaði við þá iðn til starfsloka hjá Prentsmiðjunni Odda. Hann gat sér fljótt gott orð fyrir vönduð vinnubrögð og eftir hann liggja fjölmargar bækur í handbandi. Auk þess hafði hann sérstakan áhuga á gyllingu og fallegum frágangi.

Áhugamálin hafa flest tengst íþróttum og var hann alla tíð mikill KR-ingur en hann stundaði handbolta með því liði á árum áður. Hann var einnig liðtækur í fótbolta en lét duga að fylgjast vel með sínum uppáhaldsliðum, KR og Arsenal. Viðar stundaði golfíþróttina frá árinu 1963 og þau Guðrún áttu farsælan feril í golfinu til fjölda ára. Hann vann mikið í sjálfboðavinnu fyrir golfíþróttina og fyrir Golfklúbb Reykjavíkur, var gerður að heiðursfélaga og hlaut gullmerki GR og GSÍ.

Útför Viðars fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 23. mars 2023, kl. 13.

Það er sumar. Ég finn lykt af London Docks-vindli. Aldrei verið almennt hrifnin af tóbaksreyk, en þetta var eitthvað annað. Pabbi var heima. Ég fyllist tilhlökkun og gleði. Pabbi að dunda heima og þá var settur vindill í munnvikið. Ekki reykt, en púað. Pabbi sem vann svo langa vinnudaga naut þess að vera heima í sumarfríum og njóta. Það var verið að bera á, mála, smíða ... allt svo uppbyggilegt og skemmtilegt. Ég fékk oft að aðstoða og sem dæmi búin að læra að skipta um dekk á bíl áður en ég fékk bílpróf. Pabbi átti alltaf umgangana á felgum. Þannig að á vorin og haustin var farið í að skipta. Þá vorum við pabbi saman í skúrnum. Það voru góðar stundir. Hann kenndi mér svo margt. Hafði svo gott verkvit sem hann miðlaði og ég bý enn að. Þolinmóður að sýna mér og kenna mér allt mögulegt. Hvernig ég gat tekist á við stríðni frá öðrum, svarað fyrir mig, farið vel með peningana mína og að það þarf að vinna sér inn fyrir hlutum.

Laugardagskvöldin og sunnudagarnir voru uppáhaldsdagarnir. Þá var pabbi heima. Hann vann oft til kl. 16 á laugardögum. Vorum alltaf með einfalt í matinn á laugardagskvöldum, því það var fríkvöldið. Sjónvarp, popp og samvera. Sunnudagar voru ísbíltúrar, lautarferðir með nesti eða eitthvert dund heima. Á kvöldin settist hann oft við píanóið og ég man eftir því að vera komin upp í rúm og hlusta á hann spila. Lög eftir Sigfús Halldórsson og fleira fallegt. Ómetanlegt og þessar minningar fylla hjarta mitt af þakklæti og ást.

Ég minnist þess ekki að hafa verið skömmuð. Í þau skipti sem ég gerði eitthvað sem var ekki rétt, þá var ég tekin inn á teppi. Pabbi settist við skrifborðið sitt og ég sat fyrir framan hann og þurfti að útskýra mitt mál. Hann rökræddi málið við mig og fékk mig til að skilja að þetta hafði verið rangt af mér að gera það sem ég gerði. Ræddi þetta af svo mikilli virðingu og umhyggju. Enda var tekið mark á því sem var sagt.

Var svo heppin að fá að tækifæri til að vinna með honum í Odda. Þar kynntist ég bókbindaranum Viðari. Vinnusamur og vandvirkur. Tók að sér trúnaðarstörf sem átti vel við hann. Þótti mikið vænt um að hafa kynnst vinnulífi pabba.

Það er endalaust hægt að hrósa pabba. Hann var bara þannig maður. Gaf svo mikið af sér og alltaf til að aðstoða.

Söknuðurinn er meiri en orð fá lýst. Veit ekki hversu oft ég hugsaði með mér að hringja í pabba og þá hringdi síminn minn og það var hann. Eins var það öfugt. Er ég hringdi þá svaraði hann hlæjandi og sagðist hafa verið á leiðinni að hringja í mig. Það er skrítin tilhugsun að það er liðin tíð. Einnig að senda skilaboð og láta vita þegar að farið er út úr bænum og komið er heim. Til að byrja með er auðvitað hægt að senda skilaboð á FB. Má það ekki alveg? En hann var elsti Facebook-vinur minn og við höldum síðunni opinni sem minningarsíðu pabba og mömmu.

Takk fyrir allt elsku besti pabbi. Knúsaðu mömmu frá mér.

Hvíl í friði,

Anna.

Yndislegir tónar frá píanóinu sem hljómuðu svo oft á árum áður og ómetanlegt að fá að hlusta og jafnvel syngja með. Fyrstu árin fékk ég að setjast á bekkinn hjá honum þegar hann lék af fingrum fram. Stundum klassík og fallegar melódíur, líka eitthvað hressilegt eins og Boogie Woogie eða Chopsticks og þá var nú gaman hjá okkur. Þá má ekki gleyma fallegu Fúsalögunum og uppáhaldi okkar, Tondeleyó.

Í minningunni voru sunnudagarnir bestir því þá var pabbi ekki að vinna og við börnin hlökkuðum til að fara í bíltúr og helst að koma við í ísbúðinni. Páskarnir voru líka í uppáhaldi enda aðeins fleiri frídagar og tilvalið fara með snjósleða í Grafarholtið eða spila og tefla.

Hann var afar vandvirkur og handlaginn hvort sem það var bókbandið, frágangur og falleg gylling eða ýmis viðvik heima fyrir. Verkfæraskápurinn hans var einstaklega flottur, þar sem verkfærum var haganlega fyrirkomið og allir hlutir áttu sinn stað. Við lærðum þannig að bera virðingu fyrir umgengni við tæki og tól ásamt því að vönduð vinnubrögð voru til eftirbreytni. Hann hafði mikið keppnisskap og þegar hann byrjaði í golfi árið 1963 vann hann Nýliðabikarinn en það var bara byrjunin á safni verðlaunagripa sem þau mamma unnu til í mörg ár.

Minningarnar spretta fram, glettni og skemmtileg tilsvör sem einkenndu pabba minn, enda einstaklega orðheppinn. Þegar við vorum saman á golfvellinum og hann átti kannski ekki alveg nógu gott högg sagði hann af sinni einskæru hógværð: „Tja, maður getur ekki alltaf verið góður“. Mikið er ég lánsöm að hafa fengið að stíga mín fyrstu skref í golfíþróttinni með þeim og sjá þau í góðra vina hópi. Alltaf mættu þau með kaffi á brúsa þegar hópurinn hittist yfir vetrartímann.

Pabbi þekkti marga og ef það kom fyrir að einhver kannaðist við hann en hann var ekki alveg viss þá sagðist hann bara vera með svo algengt andlit. Eitt af því sem hann fékk aldrei leið á að segja frá var samtal við dóttur mína þegar hann hringdi á fimm ára afmælisdeginum hennar. Hann sagðist vera í vinnunni og kæmist ekki kl. fjögur, hvort hann mætti ekki koma aðeins seinna. Svarið hennar stóð ekki á sér, hann gæti kannski komið þegar hún yrði sex ára. Auðvitað mætti hann í afmælið, bara aðeins seinna og lék fyrir okkur þetta yndislega samtal, sagðist ekki verða oft kjaftstopp.

Fjölskyldan skipti svo miklu máli og foreldrar okkar voru afar glöð og stolt yfir öllu því sem við gerðum, stóru og smáu. Pabbi var býsna klár í tölvunni, notaði netbankann og var með fótbolta smáforrit til að fylgjast með leikjunum. Hann fylgdist líka vel með því sem við höfðum fyrir stafni og var fyrstur til að líka við Facebook-færslur okkar allra.

Hann var þakklátur fyrir samferðafólk sitt í lífinu, talaði iðulega um það hvað fólk væri vinsamlegt og sagði að það væru allir svo góðir við sig. Foreldrar mínir voru einmitt þannig fólk og við afkomendurnir eigum þeim svo margt að þakka. Öll samtölin um fótboltann, golfið, menn og málefni sitja eftir í minningunni sem og þakklæti fyrir eiga besta pabba í heimi.

Lilja.

Ég er ekki enn þá alveg búinn að meðtaka það að þú sért farinn, elsku pabbi. Okkur fannst alltaf að þú færir að komast af spítalanum svo þú gætir haldið áfram í endurhæfingu á Eir. Mikið er maður þó þakklátur fyrir þann tíma sem maður fékk með þér. Margar góðar minningar koma upp eins og bíóferðir á James Bond-myndir í Tónabíói, ísbíltúrar á sunnudögum og þegar maður fékk að koma með þér á golfvöllinn. Við fjölskyldan áttum góðar stundir saman í Hjallalandinu í Fossvoginum enda færði maður sig bara tveimur götum ofar þegar ég flutti að heiman.

Það var yndislegt hvað þið mamma áttuð vel saman og þið deilduð meira að segja sama áhugamálinu; golfíþróttinni. Þú varst mér mikil fyrirmynd og margt sem ég hef lært af þér og get vonandi miðlað því áfram. Þú hvattir og studdir okkur systkinin til að mennta okkur og kenndir okkur víðsýni og heiðarleika. Maður lærði líka af þér að sjá það jákvæða og jafnvel það spaugsama við lífið.

Þið tókuð einstaklega vel á móti Magdalenu minni þegar ég kynnti hana fyrir ykkur og glöddust mikið er við giftum okkur. Þið fylgdust vel með uppvexti dóttur okkar, Elínar Maríu, eins og annarra barnabarna ykkar og tókuð fagnandi á móti henni er við heimsóttum ykkur.

Mikið erum við þó þakklát því að hafa getað haldið upp á sjötíu ára brúðkaupsafmæli ykkar mömmu þann 24. apríl sl. en elsku mamma lést mánuði síðar. Þú saknaðir Gunnu þinnar mikið og nú eruð þið sameinuð á ný. Takk fyrir allt, elsku pabbi.

Helgi Viðarsson.

Afi, bókbindari, golfari, knúsari, brandarakall, vinur og fyrirmynd. Núna ertu búinn að kveðja okkur og eftir standa fallegar minningar og þakklæti fyrir besta afa sem hægt er að hugsa sér.

Ein fyrsta minningin mín af þér sem ég held svo upp á var þegar mér tókst að læsa mig inni á baði og ég gat ekki opnað þrátt fyrir leiðbeiningar frá mömmu. Hún ákvað að hringja í þig því þú áttir lykil sem gat opnað dyrnar og þú komst skömmu síðar og bjargaðir mér út. Frá og með þeim degi vissi ég að afi gæti allt og ég hef getað leitað til þín með öll lífsins verkefni alla tíð síðan. Fyrir mér hefur þú alltaf verið dásamleg fyrirmynd bæði í leik og starfi enda duglegur, úrræðagóður og umfram allt lífsglaður og jákvæður.

Alla mína tíð starfaðir þú í prentsmiðjunni Odda og árið sem ég varð 17 ára fékk ég sumarvinnu þar. Við urðum samferða í vinnuna á hverjum degi og mér þótti vænt um þær stundir því þá spjölluðum við um vinnuna, lífið og fótbolta. Ég kynntist góðum vinkonum í Odda en við kjöftuðum frekar mikið. Einn daginn var ég sett í skammarkrókinn fyrir að trufla vinkonurnar í vinnunni og þurfti að pakka inn blokkum ein inni í herbergi afsíðis. Þú sást nú aumur á mér og komst með kók og prins póló en skammaðir mig ekki neitt. Brostir bara og hrósaðir mér fyrir hvað ég pakkaði blokkunum vel inn. Man það svo vel að samstarfsfólkið í Odda spurði mig oft hvort það væri ekki æðislegt að eiga þig sem afa. Sem ég stolt svaraði jú.

Hjallalandið var okkar annað heimili enda stutt að fara frá Bústaðaveginum. Skemmtilegast af öllu fannst mér að sitja við skrifborðið þitt og skoða allt dótið í skúffunum. Þú leyfðir mér það alltaf með því loforði að ganga vel um. Ég kom líka reglulega að fá lykil lánaðan því ég læsti mig stundum úti og sníkti þá smá Soda Stream og súkkulaði hjá ömmu í leiðinni. Að hafa ykkur bæði svona nálægt öll mín uppvaxtarár var dýrmætt og ég er þakklát fyrir það.

Hver einustu jól og áramót safnaðist stórfjölskyldan saman og átti dásamlegar stundir. Alltaf svo gott að sækja ykkur heim og í seinni tíð kom ég oft ein í heimsókn bara til að fá frið frá dagsins amstri og sat þá með ykkur að horfa á sjónvarpið. Maður fylltist orku við að vera í kringum ykkur og orð fá því ekki lýst hversu mikið ég sakna ykkar.

Ég dáist að því hvað þið amma voruð samheldin í golfinu og hvað þið ferðuðust mikið til útlanda að spila. Ég fékk alltaf póstkort frá ykkur með mynd af hótelinu og seinna meir þegar dætur mínar fæddust fóru þær að fá póstkortin. Við eigum þau öll og munum geyma um ókomna tíð. Að hafa náð nokkrum hringjum með ykkur í golfinu er ómetanlegt. Ég mun alltaf hugsa til ykkar þegar ég spila golf og rifja upp hvernig amma sveiflaði kylfunni með yfirvegun og fágun og hvað þú varst duglegur að hrósa kraftinum í mér.

Elsku afi, núna eruð þið amma sameinuð á ný. Ég veit að þið munuð vaka yfir okkur og ég er þakklát fyrir tímann með ykkur, minningarnar og ástina. Takk fyrir að vera mín helsta klappstýra í lífinu, takk fyrir að vera þú.

„We All Follow the Arsenal.“

Guðrún Skúladóttir.

Elsku afi minn.

Ég minnist þess hversu skemmtilegt það var alltaf að koma til ykkar ömmu í Hjallalandið. Dillandi hlátur ömmu lék um heimilið og þú varst aldrei langt undan að taka undir með henni. Ég man hversu meiri háttar mér fannst að fá að vera inn á skrifstofunni þinni að teikna eða skrifa við skrifborðið. Ef ég var extra heppin fékk ég Haltu-kjafti-brjóstsykur meðan þú smelltir í góminn og við hlógum saman að þessu uppátæki þínu. Ég fékk alltaf að skríða upp í til þín í afastól og alltaf nenntir þú að gefa mér klór á bakið. Þú spilaðir líka oft fyrir mig á píanóið og ég var svo gagntekin af því hvað þú gast spilað fallega og svo söng ég undir Tondeleyó.

Á suðrænum sólskinsdegi í sumarlandinu ímynda ég ykkur ömmu vera saman að spila golf.

Þín afastelpa,

Anna Lilja Kjartansdóttir.

Pínulítið stríðinn, snjall og gat allt. Það var svo gott að geta leitað til afa. Oftar en ekki áttu margar af mínum heimildaritgerðum upphaf sitt í Hjallalandinu. Enda ógrynni af bókum til um allt. Yfirleitt vissi afi nákvæmlega hvar bækurnar voru um það sem vantaði heimild um. Ef við vorum búnir að leita lengi, þá var kallað á ömmu og hún var fljót að finna bókina og svo hló hún. Ekki fannst mér gaman að gera ritgerðir þá, en nú bý ég að þessum yndislegu minningum.

Ég var látinn læra á hljómborð þegar ég var í grunnskóla. Tók mig mislangan tíma að ná lagi á æfingu vikunnar. Í þau skipti sem ég lenti í mestum vandræðum þá tók ég nótnablöðin með mér þegar við fórum í helgarheimsókn. Þá sátum við saman, afi kunni oftast utan að lagið sem ég átti að læra, og spilaði það fyrir mig. Svo hermdi ég eftir. Þegar ég var orðinn nokkuð brattur, þá spilaði afi eitthvað af sínum lögum. Ég hef síðan þá alltaf tengt við hann lög eins og Litla flugan, Blátt lítið blóm eitt er og Tondeleyó. Þegar ég spila þessi lög í höfðinu, þá sé ég hann fyrir mér að spila.

Svo gat hann allt, þegar það þurfti að mála, smíða, pípa, eða múra, hann var með þetta á hreinu. Hann var alltaf að segja við pabba: „mundu, hamp og mak!“ Svo var alltaf stutt í húmorinn. Þegar við vorum að setja upp skjólvegg í Hjallalandinu, steypa staura, þá tók hann grasmaðk og setti í skutlu og henti. Tók ánamaðk og þóttist borða hann! Grasmaðkurinn fór sannarlega í flugferð, og lengi vel var ég viss um að afi hefði í alvörunni borðað ánamaðkinn.

Það var alltaf vandað til verka. Ég hjálpaði honum og ömmu að bóna hvíta Mitsubishi Galant áður en hann var seldur. Þegar ég hélt við værum loksins búin þá átti líka að bóna hurðafölsin. Amma hló, og bíllinn varð eins og nýr! Það er kannski fínt að stoppa þarna í sumarkvöldsólinni í Hjallalandinu. Afi minn og amma saman eins og svo oft. Þau voru nú búin að vera aðskilin um tíma og ég var einhvern veginn viss um að það yrði ekki langt á milli þeirra, en hann þurfti kannski aðeins að fylgjast með Arsenal áður en hann færi til ömmu.

Hvíldu í friði elsku afi minn, ég bið að heilsa ömmu. Takk fyrir allt.

Kristinn Viðar Kjartansson.