Zenica Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson og Aron Einar Gunnarsson á fundinum í Zenica í gærkvöldi.
Zenica Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson og Aron Einar Gunnarsson á fundinum í Zenica í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Jóhann Ingi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, á von á erfiðum leik þegar Ísland og Bosnía eigast við á Bilino Polje-vellinum í Zenica í kvöld. Leikurinn er sá fyrsti hjá liðunum í J-riðli, en Portúgal, Liechtenstein, Lúxemborg og Slóvakía eru einnig í riðlinum

Í Zenica

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, á von á erfiðum leik þegar Ísland og Bosnía eigast við á Bilino Polje-vellinum í Zenica í kvöld. Leikurinn er sá fyrsti hjá liðunum í J-riðli, en Portúgal, Liechtenstein, Lúxemborg og Slóvakía eru einnig í riðlinum.

Ætla má að Ísland verði í baráttunni um annað sæti riðilsins, ásamt Slóvakíu og Bosníu, og má því búast við spennandi leik.

„Öll lið spila til að vinna og við erum með sömu væntingar og Bosnía og Slóvakía. Við vorum ánægðir með riðilinn. En það þýðir ekki að þetta verði létt. Þetta er mjög erfiður útileikur,“ sagði Arnar á blaðamannafundi á vellinum í Zenica í gær.

Arnar á von á jöfnum riðli þar sem nokkur lið verða í baráttunni um sæti á lokamóti EM í Þýskalandi á næsta ári.

Alltaf möguleikar í fótbolta

„Við erum mjög meðvitaðir um styrkleika Bosníu. Ég á von á jöfnum riðli og að gæði liðanna séu svipuð. Við förum í alla leiki til að vinna og við erum ekki hér til að vera með gott lið eftir þrjú ár,“ sagði Arnar og hélt áfram:

„Í fótbolta er hægt að vinna alla leiki en líka tapa. Við vitum styrkleika bosníska liðsins. Við sáum hvað liðið stóð sig vel í Þjóðadeildinni og vann sinn riðil. Það segir ýmislegt. En í fótbolta eru alltaf möguleikar. Þú ættir að vera heima ef þú trúir ekki. Við erum spenntir og vongóðir en við berum virðingu fyrir bosníska liðinu,“ sagði hann.

Bosnía tryggði sér sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar með því að vinna sinn riðil í B-deildinni. Er því ljóst að erfiður leikur á sterkum útivelli bíður Íslands í kvöld.

Án Arons og Sverris

Íslenska liðið verður án landsliðsfyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar vegna leikbanns og þá verður Sverrir Ingi Ingason ekki með liðinu vegna meiðsla. Arnar viðurkenndi að það væri áfall að vera án Sverris, en bætti við að hann hafi aldrei verið með eins sterkan leikmannahóp í boði eftir að hann tók við íslenska liðinu.

„Það er alltaf högg að missa góða leikmenn úr hópnum. Sverrir hefur verið að spila mjög vel en það eru alltaf einhver forföll, bæði hjá okkur og þeim. Það hefur enginn landsliðsþjálfari farið í glugga með alla sína leikmenn. Við erum með að mínu mati sterkan hóp, sterka leikmenn og góða leikmenn sem nánast allir spila mjög mikið og spila mjög vel. Við erum að horfa á það,“ sagði Arnar. Hann viðurkenndi að það hefði verið erfitt að velja hópinn í verkefnið, þar sem margir leikmenn koma til greina.

„Það var erfiðast fyrir mig að velja þennan hóp. Það eru leikmenn sem eru ekki í hópnum sem ættu það skilið. Það er mjög jákvætt og nokkuð sem við getum tengt við þegar við byrjuðum 2022. Við vildum búa til sterkari hóp og vera betur undir þessa keppni búnir. Við erum á góðum stað núna,“ sagði Arnar.

Horfir á árið í heild

Ísland mætir Liechtenstein á útivelli á sunnudag, en Arnar vildi ekki gefa út markmið íslenska liðsins fyrir leikina tvo í yfirstandandi verkefni. Lítur hann frekar á árið 2023 í heild.

„Við horfum á þetta verkefni sem 2023. Í rauninni er þetta ferli sem fór í gang þegar ég tók við fyrir tveimur árum. Þegar ég var ráðinn voru ákveðnir hlutir sem þurftu að gerast. Fyrst ætluðum við á HM en það fór eins og það fór. Við þurftum að endurskipuleggja okkur og fara í aðra átt á síðasta ári. Við erum með stigafjölda sem við vitum að við þurfum að ná. Vonandi náum við í sem flest stig í þessari viku. Þetta er maraþon en ekki sprettur. Við erum með plan,“ sagði Arnar.

Ekki nóg að stöðva Dzeko

Skærasta stjarna Bosníumanna er fyrirliðinn reyndi Eden Dzeko, en hann leikur með Inter Mílanó á Ítalíu. Arnar vill þó ekki leggja of mikla áherslu á að stöðva framherjann.

„Við erum með leikáætlun sem snýst ekki bara um hann. Hann er þeirra skærasta stjarna en þeir eru með marga góða leikmenn og margir spila á mjög háu stigi. Við erum mjög meðvitaðir um styrkleika þeirra. Það eru leikmenn sem eru að fæða Dzeko og við þurfum að stoppa það. Við viljum stoppa þeirra sóknir aðeins fyrr,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Eins og áður hefur komið fram mun Aron Einar Gunnarsson ekki taka þátt í leiknum vegna leikbanns. Hann viðurkenndi að það væri leiðinleg tilhugsun að vera ekki á leiðinni á völlinn á morgun.

„Ég er að reyna að ímynda mér að ég sé að fara að spila. Svo kemur svekkelsið þegar maður er ekki í hópnum. Ég er kominn fyrst og fremst til að hjálpa til við að undirbúa liðið eins vel og hægt er. Það er svekkjandi að vera ekki með. Maður tekur sitt leikbann og mætir ferskur í Liechtenstein-leikinn. Ég væri til í að vera á vellinum á morgun,“ sagði Aron á blaðamannafundinum.

Hann er spenntur fyrir komandi leik og komandi undankeppni. „Úrslitin skapa alltaf stemningu. Við þurfum að ná í úrslit til að ná í stemningu í kringum okkur aftur, fá fólk á völlinn. Það er undir okkur komið hvernig úrslit við náum í og hvernig samstaðan er í hópnum. Það er allt undir okkur komið. Ég hlakka til og er spenntur fyrir þessum riðli. Það er mikið af skemmtilegum verkefnum í þessu og miklir möguleikar. Ég er mjög spenntur fyrir þessari undankeppni,“ sagði Aron Einar.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson