Heiðurskross KSÍ Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri, Jóhann Króknes Torfason og Vanda Sigurgeirsdóttir formaður sambandsins.
Heiðurskross KSÍ Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri, Jóhann Króknes Torfason og Vanda Sigurgeirsdóttir formaður sambandsins. — Ljósmynd/Sóley Guðmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísfirðingurinn Jóhann Króknes Torfason var sæmdur æðstu heiðursmerkjum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og Knattspyrnusambands Íslands á Ísafirði fyrir skömmu. „Þetta kom mér gersamlega á óvart, ég varð lítill og hrærður, en er afskaplega…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ísfirðingurinn Jóhann Króknes Torfason var sæmdur æðstu heiðursmerkjum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands og Knattspyrnusambands Íslands á Ísafirði fyrir skömmu. „Þetta kom mér gersamlega á óvart, ég varð lítill og hrærður, en er afskaplega stoltur og ánægður með þessar viðurkenningar,“ segir Jói Torfa, eins og hann er kallaður, en hann er kominn á eftirlaun eftir að hafa verið innkaupastjóri sjúkrahússins á Ísafirði undanfarin 17 ár.

Íþróttir hafa átt hug og hjarta Jóa alla tíð. Hann ólst upp í húsinu Grund, sem veitti áhorfendum á gamla malarvellinum við Eyrargötu á Ísafirði skjól fyrir norðaustanáttinni. „Þar spilaði ég minn fyrsta leik fimm ára gamall, á móti Fram í 5. flokki,“ rifjar hann upp. Jens Kristmannsson og aðrir forystumenn hafi staðið þar og hvatt liðið til dáða. „Þegar Framarar sóttu kipptu karlarnir í mig, sögðu mér að fela mig hjá þeim og slepptu mér til að rjúka upp hægri kantinn, þegar við fengum boltann.“ Sjö ára gamall flaug hann suður með sjóflugvél vegna fótboltaleiks á Framvellinum, sem þá var við Skipholt fyrir neðan Sjómannaskólann. „Þetta eru fyrstu minningar mínar úr fótboltanum,“ segir hann.

Ruddi brautina

Eftir að hafa leikið með ÍBÍ flutti Jói suður á 17. ári og spilaði með KR og síðar Víkingi auk þess sem hann lék í Svíþjóð í tvö ár. „Ég átti góða tíma í Reykjavík og er stoltur af því að hafa rutt brautina fyrir nokkra fótboltamenn hérna fyrir vestan.“

Jói var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ „fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar á Vestfjörðum, knattspyrnuhreyfingarinnar og ÍSÍ“. Hann var lengi stjórnarmaður og formaður hjá ÍBÍ, í stjórnum ýmissa félaga og nefndar- og stjórnarmaður hjá KSÍ. „Jói Torfa hefur um langt árabil starfað að framgangi íslenskrar knattspyrnu, hefur átt stóran þátt í uppbyggingu knattspyrnustarfs á Ísafirði, verið ötull baráttumaður fyrir knattspyrnuna á landsbyggðinni, og lagt mikið af mörkum á vettvangi KSÍ, sér í lagi þegar kemur að verkefnum yngri landsliða. Jóhann Torfason hefur gert knattspyrnuíþróttinni ómetanlegt gagn,“ segir á heimasíðu KSÍ í tilefni þess að hann var sæmdur heiðurskrossi sambandsins.

„Helsta markmið mitt hefur alltaf verið að starfa að uppbyggingu íþrótta á Ísafirði, hvort sem það hefur verið fótbolti, skíði, golf, sund eða annað,“ leggur Jói áherslu á. Af mörgu er að taka en nefna má að það er fyrst og fremst honum að þakka að ferðasjóður íþróttafélaga hefur fengið árlegt framlag á fjárlögum Alþingis frá 2007. Hann tekur sérstaklega fram að foreldrar hans, Torfi Björnsson skipstjóri og Sigríður Króknes, hafi alla tíð stutt hann til góðra verka rétt eins og eiginkonan Helga Sigmundsdóttir, sem hafi haldið honum á réttri braut. „Ég geri ekkert einn.“

Fyrir þremur árum greindist Jói með parkinsonsjúkdóminn og heldur honum í skefjum meðal annars með því að synda og fara í golf „Það þýðir ekkert að væla, þetta pirrar mig ekki og ég tek á verkefninu eins og öðrum verkefnum með bjartsýni að leiðarljósi.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson