Stefán Ragnar Jónsson hárskeri fæddist í Reykjavík 10. ágúst 1947. Hann lést á Tenerife 8. mars 2023.

Foreldrar hans voru Jóhanna Sigríður Einarsdóttir, f. 5.1. 1928, d.12.12. 2006, og Jón Þorgrímur Jóhannsson lögreglumaður, f.18.6. 1918, d. 9.3. 1971. Systur Stefáns Ragnars eru Ragnhildur, f. 1955, og Anna Björk, f. 1969, samfeðra bróðir er Sigurður Petersen, f. 1945.

Stefán Ragnar kvæntist Önnu Þórdísi Bjarnadóttur, f. 13.9. 1947, árið 1969. Foreldrar hennar voru Unnur Jakobsdóttir, f. 18.7. 1921, d. 3.12. 2013, og Bjarni Bentsson, f. 23.11. 1913, d. 16.8. 2009. Fyrstu þrjú árin bjuggu þau í Reykjavík en fluttu í Kópavog 1972. Hann gekk syni Önnu Þórdísar, 1) Ómari Stefánssyni, f. 14.7. 1966, í föðurstað. Ómar er kvæntur Arnheiði Skæringsdóttur, þeirra börn eru: a) Ósk Hind, b) Ásta Hind og c) Ómar Bessi. Börn Stefáns Ragnars og Önnu Þórdísar eru: 2) Hanna Sigríður, f. 4.2. 1970, maki Vilhjálmur Hörður Guðlaugsson. Sonur Hönnu er d) Stefán Jakob Gröndal, kvæntur Arndísi Önnu Jakobsdóttur, sonur þeirra er Mikael Narfi. Stefán átti fyrir Einar Kristin og Svanhvíti Björk. Börn Hönnu og Vilhjálms Harðar eru e) Guðlaugur Týr, sambýliskona hans er Klara Sveinbjörnsdóttir, sonur þeirra er Eyjólfur Helgi, sonur Klöru er Kristófer Leó. f) Stefanía Anna, maki Ólafur Geir Árnason, synir þeirra eru Aron Heiðar og Stormur Emil, g) Svanhvít Svala, látin, og h) Vilhjálmur Þór. Fyrir átti Vilhjálmur Hörður Skarpéðin Harald. 3) Jón Þorgrímur, f. 21.5. 1975, kvæntur Kristínu Ástu Matthíasdóttur, synir hans eru i) Ragnar Vilji, j) Benedikt Sólon, k) Ívar Darri og l) Ríkarður Blær. Móðir þeirra er Margrét Gígja Ragnarsdóttir. Börn Kristínar Ástu eru Elísabet Anna og Friðrik Hrafn.

Stefán Ragnar ólst upp í Reykjavík, gekk í Laugarnesskóla, Gagnfræðaskóla Austurbæjar og Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann lærði hárskurð og rakaraiðn, meistari hans var Egill Valgarðsson. Hann fékk sveinsbréf árið 1968 og meistarabréf 1971 í hárskera- og rakaraiðn. Hann stundaði framhaldsnám í Iðnskólanum og fékk meistarabréf í hársnyrtiiðn 1997. Árið 1973 hóf hann eigin rekstur á rakarastofu á Hjarðarhaga í Reykjavík, en stofnaði rakarastofuna Sevilla í Hamraborg í Kópavogi þann 19. febrúar 1977 og starfaði þar til maíloka 2022. Viðskiptavinir hans héldu tryggð við hann í tugi ára og myndaði hann vinasamband við þá marga. Stefán var mikill félagsmálamaður. Hann gekk í Kiwanisklúbbinn Eldey í Kópavogi árið 1977 og gegndi þar trúnaðarstörfum, m.a. forseti klúbbsins og svæðisstjóri Ægissvæðis. Einnig starfaði hann fyrir Kiwanis-umdæmið Ísland – Færeyjar, var umdæmisritari og síðar umdæmisstjóri 1995-1996. Stefán gekk í Oddfellowregluna 9.3. 1990 og gegndi hann þar trúnaðarstörfum, var m.a. yfirmeistari í stúku nr. 23, Gissuri hvíta, og var stórfulltrúi stúkunnar. Hann stundaði hestamennsku frá unga aldri, spilaði keppnisbridge, stundaði golf og var laginn billjardspilari. Hann eyddi mörgun frístundum í sumarbústaði sínum við Meðalfellsvatn.

Útför Stefáns Ragnars fer fram frá Kópavogskirkju í dag 23. mars 2023, klukkan 15.

Það er hreint ótrúlegt hvernig lífið er stundum. Í þessu tilfelli var ég hreinlega ótrúlega heppinn því mér voru gefnar þvílíkar gæðastundir með pabba á Tenerife. Þó svo að ég hafi ekki verið í sömu ferð og þau mamma, þá var ég þarna á sama tíma og ég átti greinilega að fá minn skammt af skemmtilegum minningum síðustu daga pabba. Við spiluðum loks golfhringinn sem við vorum búnir að tala um í nokkur ár og ekki á neinum „kerlingavelli“ sem ég hafði verið að tala um, par þrír og auðveldur völlur. Heldur alvöruvöllur þar sem fyrsta holan var tæpur kílómetri, ef sagan er sögð að hætti pabba, þar sem hann var aðalhetjan í þeim öllum og sannleikurinn ekkert að trufla góða sögu. Eins áttum við flottar stundir saman með mömmu og öðru fólki. Síðast en ekki síst horfðum við saman á Liverpool vinna Manchester United 7-0 og ég fékk mjög góða upprifjun á því hvernig á að blóta mjög hraustlega, vægast sagt.

Ég er svo þakklátur fyrir að pabbi vildi endilega að ég færi í sveit. Þar var ég í tíu sumur á sama bæ og hann var í níu sumur hjá ömmu sinni, en ég var hjá systur afa, Helgu, og Pétri á Hrauni í Sléttuhlíð. Hjá pabba skipti fjárhagslegt öryggi miklu máli og náði hann svo sannarlega koma því til skila á uppeldisárum okkar systkina. Hann var sinn eigin herra með rakarastofuna Sevilla í Hamraborginni og nánast allur minn vinahópur hefur einhvern tímann verið klipptur þar á sinni ævi. En hestamennskan var alltaf sérstakt áhugamál hjá pabba og ég er svo heppinn að hafa fengið að taka þátt í því með honum. Við fórum úr því að ég hafði fengið einn hest í fermingargjöf upp í að vera með 12 hesta hús, stappfullt af gríðarlega efnilegum trippum og vissulega einum og einum gæðingi. En það var ekki endilega aðalatriðið, pabba fannst svo miklu skemmtilegra að temja, kaupa óséð eða eltast við fallega liti hrossanna.

Pabbi var kraftmikill, duglegur og hafði mjög gaman af því að fá sér í glas. Líklega of gaman. En það hafði þó ekkert með andlát hans að gera, sem var hjartaáfall. Við systkinin og nokkur afabörnin hittumst og rifjuðum upp skemmtilegar sögur af pabba. Allir áttu sína sögu af því þegar við héldum að eitthvað væri að okkur, þá sagði pabbi að það væri ólíklegt, þetta væri bara aumingjaskapur og við hörkuðum af okkur og héldum áfram. Frábærar minningar koma ekki í veg fyrir sorg og söknuð, en það bætir svo líðan mína að hafa átt þessar stundir og geta hugsað til þeirra þegar á mann sækir leiði. Skál fyrir þér pabbi minn. Minningin lifir.

Ómar Stefánsson.

Allt sem ég er er vegna pabba og mömmu. Pabbi kenndi mér hugrekki, ábyrgð, vinnusemi, að vera sterkur, að vera til staðar þegar aðrir þurfa á þér að halda og að hjálpa þeim sem minna mega sín, kenndi mér að vinna væri eingöngu til þess að búa til betra líf fyrir börnin þín. Pabbi kenndi mér að gefast aldrei upp, kenndi mér að vera nægilega mikill nagli til að takast á við þau áföll sem lífið ber á borð. Elsku pabbi minn, sem vílaði aldrei neitt fyrir sér, kvartaði aldrei yfir neinu sem tengdist honum sjálfum og sá alltaf leið út úr öllu. Pabbi var aldrei veikur, missti ekki dag úr vinnu. Ég mun aldrei gleyma fjölskylduferðum okkar erlendis, öllum helgunum í Svarthömrum. Sumarbústaðurinn var hans griðastaður og fátt sem hann elskaði meira en að vera með mömmu í bústaðnum, dunda og finna endalaus verkefni fyrir sig og aðra sem gistu hjá þeim. Það hjálpaði mér að verða að manni fljótt þegar pabbi sagði við mig að ég yrði að vera alltaf til staðar fyrir elsku systur mína og passa upp á hana í skólanum. Ég man þegar hann kom úr vinnunni til að sækja mig til skólastjórans, því ég lamdi bekkjarbróður systur minnar fyrir að leggja hana í alvarlegt einelti eftir að hún fékk flogakast á skólalóðinni. Í staðinn fyrir að verða reiður við mig, þá hraunaði hann yfir skólastjórann fyrir að refsa mér fyrir að vernda systur mína, þegar hann og skólinn væru að bregðast henni á allan hátt. Þegar við komum út í bíl hvarf reiðisvipurinn og hann horfði blíðlega á mig og sagði mér í fyrsta skiptið að hann væri stoltur af mér. Elsku pabbi minn mýktist allur með tilkomu barnabarnanna og var frábær afi og langafi. Hann var ekki mikið fyrir að tjá tilfinningar sínar, en ég efaðist aldrei um ást hans. Minnisstæðast er þegar hann sagðist elska mig í fyrsta skipti upphátt í staðinn fyrir þetta týpíska „þú veist að mér þykir vænt um þig, er það ekki?“ Ég mun aldrei gleyma því þegar hann sagðist vera stoltur af mér í annað skiptið, það var þegar ég náði ákveðnum árangri tengt vinnu og fjárfestingum. Sem sýnir hvað hann lagði mikla áherslu á að það að sjá fyrir fjölskyldunni væri okkar mikilvægasta hlutverk. En fyrir fótbolta- og handboltaafrekin mín var erfitt að fá hrós, því þar vildi hann að ég væri fullkominn. Eins og eftir leik þar sem ég skoraði 8 mörk í 13-0 leik var hann fljótur að minna mig á að ég hefði klikkað á tveimur dauðafærum eða þegar ég skoraði öll mörkin í meistaraflokki fyrir HK í 5-0 sigri, sagði hann að ég ætti ekkert að vera að spila í neðri deildum. Með árunum urðum við pabbi miklir vinir, sér í lagi þegar ég byrjaði í golfi og við fórum að spila saman reglulega. Mér þótti einstaklega vænt um tíma okkar saman á golfvellinum. Lofa ég þér því hér með, elsku pabbi minn, að láta bústaðinn aldrei fara úr fjölskyldunni og virða óskir þínar varðandi hvar þú vildir vera eftir þína daga og hvaða útsýni þú vildir hafa og að koma við reglulega og „vökva“ öskuna með þínum drykk. Elska þig endalaust mikið og sakna þín, elsku pabbi minn.

Jón Þorgrímur.

Elsku besti pabbi minn var sterkasta manneskjan sem ég veit um, hann kvartaði aldrei, sleppti aldrei degi úr vinnu, hann var svo sterkur. Elsku pabbi minn og mamma gerðu mig að þessari sterku manneskju sem ég er í dag. Þau pössuðu að veikindi mín myndu ekki halda aftur af mér og kenndu mér að veikindin mín ættu ekki að stoppa mig í að gera það sem ég vildi gera í lífinu. Hann var alltaf tilbúin að hjálpa mér ef ég þyrfti, var bara símtal í burtu.

Við eyddum mörgum stundum saman í hesthúsinu, fórum í marga útreiðartúra og sleppitúra saman og þær minningar munu lifa með mér alltaf. Allar helgarnar sem við áttum öll saman í Svarthömrum í Kjósinni. Þar leið pabba best, þar var hans griðastaður til að slaka á. En hans leið til að slaka á var að lappa upp á búðstaðinn, slá grasið, smíða og taka til í garðinum. Hann fann sér alltaf eitthvað að gera og fékk alla í lið með þér í störfin. Hann var mikill sögumaður og fannst alltaf jafn gaman að segja okkur systkinunum sögur úr sveitinni og síðar barnabörnunum sínum.

Elsku pabbi vildi alltaf hafa hreint í kringum sig, við krakkarnir áttum að halda herbergjunum okkar hreinum, þó að það hafi nú gengið misvel. Þegar mamma var að fljúga og var á leið heim þá áttu sko allir að taka til í húsinu, svo húsið væri hreint fyrir mömmu, hann elskaði mömmu svo mikið. Ég man allar utanlandsferðirnar sem við fjölskyldan fórum í, keppnina í minigolfi og keppni okkar pabba um hvor væri brúnni, því ég erfði brúnu húðina hans.

Ég sakna þín svo mikið elsku pabbi minn, finnst það ekki raunverulegt að þú sért farinn. Minningarnar okkar munu lifa í hjarta mér, þín verður alltaf sárt saknað. Kveðja, þín einkadóttir.

Hanna Sigríður.