Yrsa Sigurðardóttir
Yrsa Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spennusögurnar Úti eftir Ragnar Jónasson og Lok lok og læs eftir Yrsu Sigurðardóttur komu nýverið út í Danmörku og fá góðar viðtökur gagnrýnenda. Gagnrýnandi Berlingske grípur til að mynda til samlíkingar við Jean Paul Sartre og Quentin Tarantino í umsögn sinni um Úti

Spennusögurnar Úti eftir Ragnar Jónasson og Lok lok og læs eftir Yrsu Sigurðardóttur komu nýverið út í Danmörku og fá góðar viðtökur gagnrýnenda. Gagnrýnandi Berlingske grípur til að mynda til samlíkingar við Jean Paul Sartre og Quentin Tarantino í umsögn sinni um Úti. Þar segir að Ragnar hafi á skömmum tíma og eiginlega með frekar fáum bókum skrifað sig upp í að verða einn mest lesni glæpasagnahöfundur Íslands. Hann segir að þríleikurinn um Huldu, sem hafi gert hann heimsfrægan og fært honum Palle Rosenkrantz-verðlaunin í Danmörku sem besta þýdda glæpasagan þar í landi, sé norrænn krimmi í sinni myrkustu mynd.

Úti er heldur enginn kósíkrimmi og ef maður ætti að bera hann saman við eitthvað væri það einþáttungur Jean-Pauls Sartres, Fyrir luktum dyrum, og Reservoir Dogs eftir Quentin Tarantino.“ Fyrirsögnin á umsögninni er: „Djöfullegt kammerstykki í snjó og kulda í íslenskri náttúru“.

Í Jótlandspóstinum birtist gagnrýni um þrjár norrænar glæpasögur, Lok lok og læs eftir Yrsu, Úti eftir Ragnar og þá þriðju eftir Færeyinginn Jógvan Isaksen. Um bók Yrsu sagði gagnrýnandi blaðsins í fjögurra stjörnu dómi:

„Yrsa Sigurðardóttir er eitt stærsta nafnið í íslenskum glæpasögum. … Yrsa kann bæði að vefa sannnfærandi fléttu og tryggja að íslenskar glæpasögur eru á pari við aðra norræna krimma.“

Gagnrýnandinn heldur síðan áfram og skrifar um Úti sem fær fimm stjörnur af sex mögulegum: „Ragnar Jónasson er meistari í því að segja sögu þannig að hún virðist þrungin upplýsingum en í henni eru hins vegar eyður sem smám saman – og of seint! – verða bæði persónunum og lesendum ljósar. Ætli Stephen King fari ekki að nikka viðurkennandi til Ragnars?“