Höfundurinn Smámunir sem þessir er að sögn rýnis „mjög hefðbundin saga í stíl og frásagnarhætti en afar vel sviðsett, skrifuð og byggð.“
Höfundurinn Smámunir sem þessir er að sögn rýnis „mjög hefðbundin saga í stíl og frásagnarhætti en afar vel sviðsett, skrifuð og byggð.“ — Ljósmynd/Frederic Stucin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nóvella Smámunir sem þessir ★★★★½ Eftir Claire Keegan. Helga Soffía Einarsdóttir þýddi. Bjartur – Neon, 2023. Kilja, 108 bls.

Bækur

Einar Falur Ingólfsson

Það líður að jólum árið 1985 þegar tæplega fertugur kolakaupmaður í írskum smábæ, Bill Furlong að nafni, kemur með kolahlass í nunnuklaustrið sem stendur á hæð yfir bænum, við hlið skólans sem dætur hans ganga í. Í klaustrinu verður kolakaupmaðurinn vitni að framkomu nunnanna við ungar konur sem eru þvingaðar þar til dvalar og starfa og beittar miklu harðræði. Og heimsókn hans hefur afleiðingar. Furlong getur ekki horft fram hjá því sem fram fer, ólíkt því sem bæjarbúarnir nágrannar hans hafa gert þótt þeir viti hvað eigi sér stað innan klausturveggjanna, í samfélagi þar sem kaþólska kirkjan og stofnanir hennar hafa gert það sem þeim sýnist.

Smámunir sem þessir er löng smásaga eða nóvella og hefur verið gefin út stök en ekki í sagnasafni – og stendur afar vel sem slík þótt fljótlesin sé. Hún kom út árið 2021 og var tilnefnd til Booker-verðlaunanna virtu í fyrra. Höfundurinn, Claire Keegan, er 54 ára gömul og hefur notið mikilla vinsælda í hinum enskumælandi útgáfuheimi þótt hún hafi ekki sent frá sér mörg verk; tvö smásagnasöfn, árin 1999 og 2007 sem bæði hafa unnið til virtra verðlauna, og svo tvær nóvellur, Foster (2010) og Smámunir sem þessir.

Keegan ólst upp í kaþólskri fjölskyldu á sveitabæ á Suður-Írlandi og hefur sagt frá því að eina bókin á heimilinu hafi verið Biblían. En hún féll í fjölbreytilegri bóklestur á unglingsárum, lagði stund á háskólanám í ensku í New Orleans í Bandaríkjunum og seinna skapandi skrif í meistaranámi í Wales. Hún hefur afar gott vald á smásagnaforminu og hefur iðulega verið líkt við helstu meistara formsins, eins og Tsjekhov og Raymond Carver, þótt undir yfirborði fágaðs og vel mótaðs textans megi þó ekki finna fyrir viðlíka örvæntingu eða spennu og einkennir bestu sögur Carvers. En Smámunir sem þessir sýna þó vel hvað höfundurinn kann vel að byggja upp sögu og segja frá í sínu útvalda og knappa formi.

Sagan er sögð í sex köflum í þriðju persónu þátíðar þar sem fylgst er með fámálum kolakaupmanninum Furlong sem alvitur sögumaðurinn leyfir okkur að rýna í hugann á. Dregin upp mynd af gráum og vetrarköldum bæ sem stendur á bökkum brúns fljóts og þar hefur Furlong með striti sínu tekist að koma sér upp ásamt eiginkonunni skuldlausu heimili og fimm dætrum. Sem er í andstöðu við líf móður hans. Hún varð barnshafandi 16 ára gömul og var afneitað við það af kaþólskri fjölskyldu sinni en ekkjan sem hún var vinnukona hjá, og sótti kirkju mótmælenda, bauð henni að búa hjá sér og þar ólst Furlong upp, án föður. Hann þekkir því vel hlutskipti einstæðra mæðra í hinu harðneskjulega Írlandi á þessum tíma, og hvernig hefði getað farið fyrir þeim móður hans hefði ekkjufrúin ekki aumkað sig yfir þau. Og þegar hann verður á aðventunni vitni að framkomu kirkjunnar þjóna við ungar konur sem engan eiga að, þá verður hann, samvisku sinnar vegna, að bregðast við, hverjar sem afleiðingarnar verða innan fjölskyldunnar og hvað sem öðrum bæjarbúum finnst.

Í stuttum eftirmála höfundarins kemur fram að hún skapi í sögunni klaustur eins og þau sem víða mátti finna á Írlandi fram til 1996 þar sem voru svokölluð Magdalenu-þvottahús, þar sem stúlkur og konur voru faldar, lokaðar inni og þvingaðar til vinnu. „Tíu þúsund er varlega áætlað; þrjátíu þúsund er líklega nær lagi. Flest skjöl frá Magdalenu-þvottahúsunum voru eyðilögð, glötuðust eða þá að aðgengi að þeim hefur verið heft. Vinna þessara stúlkna og kvenna var sjaldnast viðurkennd eða við henni gengist á nokkurn hátt. Margar stúlkur og konur misstu börnin sín.“ (107) Heimildarmyndir hafa verið gerðar um þessi andstyggilegu „þvottahús“, bækur skrifaðar og skýrslur. Þessi stutta og áhrifaríka jólasaga Keegan hefur nú bæst þar við og svo sannarlega fyllir lýsingin lesandann andstyggð á margsannaðri grimmdinni og andstyggðinni innan stofnunar sem kennir sig við kærleika.

Smámunir sem þessir er mjög hefðbundin saga í stíl og frásagnarhætti en afar vel sviðsett, skrifuð og byggð. Og áhrifarík er hún, svo sannarlega.