[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alexander flutti til Lundúna fyrir einu og hálfi ári og hefur notið velgengni í stórborginni. Á dögunum farðaði hann söngkonuna og lagahöfundinn Sophie Tweed Simmons þegar hún gekk að eiga eiginmann sinn, James Henderson

Marta María Winkel Jónasdóttir

mm@mbl.is

Alexander flutti til Lundúna fyrir einu og hálfi ári og hefur notið velgengni í stórborginni. Á dögunum farðaði hann söngkonuna og lagahöfundinn Sophie Tweed Simmons þegar hún gekk að eiga eiginmann sinn, James Henderson. Það er gaman að tala um förðun og allt sem tengist henni því þar er hann á heimavelli.

„Um þessar mundir er ég að sjá mismunandi og fremur óhefðbundnar aðferðir til að ná fram ákveðnu útliti. Sú tækni sem ég hef tekið hvað mest eftir núna er hin svo kallaða „under painting“-aðferð. Sú aðferð er kennd við stjörnuförðunarfræðinginn Mary Phillips. Tæknin snýst um að ná fram frísku og léttu yfirbragði en hún byrjar á að undirbúa húðina með góðum rakagefandi húðvörum. Eftir það setur hún kremkenndar litavörur á húðina eins og bronzer, kinnaliti og hyljara til að lýsa upp og móta þau svæði sem hún kýs að draga fram. Svo ber hún á andlitið farða með ljómandi áferð og léttri meðalþekju. Með þessari aðferð blandast allt saman í eitt og lituðu kremvörurnar sjást í gegnum farðann og þannig nær hún fram náttúrulegri en vel mótaðri áferð á húðina. Svo blandar hún kremkinnalit saman við rakakrem og notar svamp til að dúmpa blöndunni létt á kinnarnar. Sjálfur hef ég prufað þessa aðferð og finnst hún koma mjög vel út,“ segir Alexander og mælir innilega með því að fólk prófi þetta næst þegar það ber farða á andlitið.

Það er alltaf áhugavert að vita hvað er málið og hvað ekki þegar förðun er annars vegar. Þegar Alexander er spurður hvað sé heitt og hvað kalt segir hann að hver og einn þurfi að finna sinn takt. Það passi ekki allt fyrir alla.

„Fyrst og fremst vil ég hvetja alla til að tjá sig á sinn eigin hátt með förðun. Það eru svo margir tískustraumar í gangi þessa dagana. Það er ekki einhver ein stefna sem er rétt eða rangt að halda sig við. Persónulega vil ég taka úr umferð allar þær gömlu „reglur“ sem voru settar í förðunarheiminum á seinasta áratugnum um að fólk með ákveðinn augnlit ætti einungis að nota þrjá tiltekna liti á augun og ekkert annað. Einnig að fólk sem er komið yfir ákveðinn aldur megi ekki nota glimmer og ljóma og svo framvegis. Förðunarheimurinn er endalaust að breytast með hinum og þessum nýjungum. Það er svo ótalmargt í boði fyrir alla.

Þessi úreltu viðmið hafa skapað ákveðið óöryggi hjá meirihluta af þeim viðskiptavinum sem eru komnir á ákveðinn aldur. Ég þekki það af eigin raun. Þetta gerir að verkum að fólk er hrætt við að kaupa förðunarvörur. Þess vegna hvet ég ykkur öll til að vera ekki hrædd við að tjá ykkur eins og þið viljið með þeim vörum sem heilla ykkur. Ef þið eruð ekki viss, skellið ykkur í næstu snyrtivöruverslun og fáið aðstoð við val á þeim vörum sem heilla ykkur,“ segir hann.

Talið berst að félagsmiðlum eins og Instagram og TikTok. Þar er að finna mikið magn af förðunarmyndböndum. Alexander segir að þessi kennslumyndbönd séu oft á tíðum villandi og töfralausnir oft bara til að reyna að fá fólk til að horfa.

„Það eru margir tískustraumar sem fylgja félagsmiðlunum eins og Instagram og TikTok sem fólk lendir í vandræðum með á hverjum degi. Fólk áttar sig ekki á því að þessir tískustraumar hreinlega virka ekki fyrir hversdagsförðun. Að þessu sögðu vil ég minna á að margt af því sem fólk sér á félagsmiðlunum er einungis gert til þess að fanga athygli áhorfandans til að fá sem mest áhorf. Einnig er gott að hafa í huga að þótt margir förðunarfræðingar og áhrifavaldar sem við sjáum á netinu séu að gefa góð ráð og dásama ákveðnar vörur þá er ekki víst að þessar vörur henti þér. Við erum jú öll með mismunandi húðgerð. Þar af leiðandi er mikilvægt að finna sér vörur sem passa fyrir þína húð,“ segir Alexander.

Hann nefnir sem dæmi litaleiðréttingartískustrauminn sem sprakk út á TikTok.

„Þar eru ungar stelpur að leiðrétta bláma undir augum með rauðum varalit langt niður á kinnar og setja hyljara yfir. Þetta gæti litið vel út á TikTok en þetta virkar alls ekki í raunveruleikanum. Ég sé alltaf hverjir notast við þessa aðferð því á einhverjum tímapunkti fer varaliturinn að sjást í gegnum hyljarann. Þetta útlit er ekki sérstaklega eftirsóknarvert. Auk þess kallar þetta á að vera með of mikið af vörum á augnsvæðinu, sem er aldrei góð hugmynd,“ segir Alexander.