Búskapur Formaður Bændasamtakanna telur ákveðið andvaraleysi ríkja meðal íslenskra stjórnvalda hvað viðkemur málefnum landbúnaðarins.
Búskapur Formaður Bændasamtakanna telur ákveðið andvaraleysi ríkja meðal íslenskra stjórnvalda hvað viðkemur málefnum landbúnaðarins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hörður Vilberg hordur@mbl.is Staðan í innlendum landbúnaði er grafalvarleg. Þetta segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Hann nefnir til dæmis sauðfjárrækt þar sem bændur eru að eldast og yngri kynslóðir hika við að taka við keflinu.

Baksvið

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Staðan í innlendum landbúnaði er grafalvarleg. Þetta segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Hann nefnir til dæmis sauðfjárrækt þar sem bændur eru að eldast og yngri kynslóðir hika við að taka við keflinu.

„Hluti af skýringunni er afkoman í greininni sem hefur ekki verið góð undanfarin ár. Það endurspeglast í því að framleiðsluviljinn er heldur að dvína frekar en hitt.“ Þetta er þó ekki séríslenskt fyrirbæri því sambærilega þróun má sjá í Evrópu að sögn Gunnars. Hann segir að ungt fólk vilji sjá árangur erfiðis síns fyrr en síðar. „Ef þú ferð út í búskap ertu búinn að binda þig í einhverja áratugi.“

Formaður Bændasamtakanna telur ákveðið andvaraleysi ríkja meðal íslenskra stjórnvalda hvað viðkemur málefnum landbúnaðarins. „Við stærum okkur af því að vera velferðarríki, að hér séu greidd mannsæmandi laun og aðbúnaður sé góður. Síðan svífumst við einskis að flytja inn vörur hvaðan sem er úr heiminum þar sem aðstæður eru allt aðrar. Það truflar okkur ekki neitt virðist vera.“

Óvænt áhrif

Gunnar nefnir til dæmis tímabundna niðurfellingu á tollum á öllum landbúnaðarvörum frá Úkraínu. „Fyrir bragðið er að koma inn á markaðinn mjög ódýr vara sem hefur ruðningsáhrif. Maður skilur ekki hvað pólitíkinni gengur til. Það var verið að tala um pólitískan stuðning við úkraínska bændur en svo þegar maður skoðar framleiðsluna frá fyrirtækinu sem verið er að flytja inn frá núna – þennan heila kjúkling sem er til sölu í búðum – kemur í ljós að þeir koma frá kjúklingabúi sem framleiðir 240 þúsund tonn á ári, bara þetta eina fyrirtæki. Við framleiðum á Íslandi 8.700 tonn á ári. Þessi staða setur menn í gríðarlega klemmu,“ segir Gunnar og telur að þessi leikur hafi ekki verið hugsaður til enda.

„Okkur er gert að uppfylla alls konar reglugerðir um velferð dýra en síðan höfum við ekki hugmynd um hvernig framleiðslan fer fram utan landsteinanna.“ Hann segir að þegar eignarhald risabúsins í Úkraínu sé skoðað komi í ljós að fyrirtækið sé skráð í Hollandi.

„Ef maður þekkir þennan bransa rétt þá eru þetta fjárfestar sem fjárfesta á stöðum þar sem er ódýrt að byggja, þar sem er ódýrt að ná í fóður og þar sem vinnuaflið kostar nánast ekki neitt. Þetta er ansi ójafn leikur verð ég að segja. Það er umhugsunarvert hvert við erum að stefna með framleiðslu landbúnaðarafurða innanlands.“

Staðan er erfið í mörgum greinum landbúnaðarins og kemur þar margt til. Áburðarverð hækkaði t.d. um allt að 150% á síðasta ári, allar umbúðir hækkuðu auk annarra aðfanga og launa. Gunnar segir að hækkun Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum hjálpi heldur ekki til, hún bíti bændur fast. „Þetta er orðið verulega erfitt.“

Gunnar segir engar skyndilausnir í stöðunni, horfa þurfi til lengri tíma til að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar.

Strangari reglur á Íslandi

Hlutdeild íslenskrar matvælaframleiðslu fer minnkandi í hlutfalli við innflutning. Ingvi Stefánsson, formaður Svínaræktarfélags Íslands, segir eftirspurn eftir svínakjöti fara vaxandi eftir að ferðamenn tóku að streyma til landsins á ný. Strangari reglugerðir en í samkeppnislöndunum, t.d. í Danmörku og Þýskalandi, hafi hins vegar gert greininni erfitt um vik að vaxa. Samtal sé í gangi við stjórnvöld um nauðsynlegar úrbætur.

Fjórðungur svínakjöts sem neytt er á Íslandi kemur að utan en 2011 var neyslan á erlendu svínakjöti nánast engin. „Þetta er gríðarleg breyting.“

Ingvi segir að lengra sé gengið hér á landi en í ESB í kröfum til greinarinnar, reglugerðir hafi verið „gullhúðaðar“ eins og sagt er. Þá sé ferli við leyfisveitingar þungt og mörg ár geti tekið að hefja kjötframleiðslu. Ingvi segir reglugerð um aðbúnað svína sem uppfylla þarf innan tveggja ára kosta greinina milljarða. Íslensk svín þurfi meira pláss en svín í Evrópu.

„Samkeppnin er skökk,“ segir hann og telur að fækka þurfi séríslenskum reglum þannig að innlendir framleiðendur geti keppt við innflutning á jafnræðisgrundvelli.