Þáttaraðirnar This Is Going to Hurt og The Responder hljóta flestar tilnefningar til sjónvarpsverðlauna bresku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, Bafta, í ár eða í sex flokkum hvor um sig

Þáttaraðirnar This Is Going to Hurt og The Responder hljóta flestar tilnefningar til sjónvarpsverðlauna bresku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, Bafta, í ár eða í sex flokkum hvor um sig.

Þættirnir This is Going to Hurt eru byggðir á samnefndum endurminningum unglæknisins Adams Keys og er Ben Whishaw meðal annars tilnefndur í flokki leikara í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Key. Martin Freeman er einnig tilnefndur fyrir aðalhlutverkið í The Responder, sem fjallar um þjakaðan lögregluþjón, auk þess sem þættirnir eru tilnefndir í flokki bestu dramaþáttaraða.

Þá hlutu þættirnir Bad Sisters, sem fjalla um morðtilraun fimm systkina á maka eins þeirra, fimm tilnefningar og sama á við um The English þar sem Emily Blunt fer með hlutverk konu sem ferðast um Bandaríkin til að hefna fyrir dauða sonar síns. Fimmta þáttaröðin um bresku konungsfjölskylduna, The Crown, hlaut einnig fimm tilnefningar og það sama gildir um njósnaraþættina Slow Horses.

Cillian Murphy (Peaky Blinders), Gary Oldman (Slow Horses), Taron Egerton (Black Bird) og Chaske Spencer (The English) keppa við Freeman og Whishaw um verðlaun í flokki leikara í aðalhlutverki.

Þá eru eftirfarandi leikkonur tilnefndar fyrir aðalhlutverk: Sarah Lancashire (Julia), Kate Winslet (I Am Ruth), Imelda Staunton (The Crown), Billie Piper (I Hate Suzie Too), Maxine Peake (Anne) and Vicky McClure (Without Sin).