Hin svonefnda „12 punkta“-áætlun Kínverja hefur verið nefnd nokkuð síðustu daga, en Pútín sagði á fundi sínum með Xi að hún gæti verið „grunnurinn“ að friðarsamkomulagi þegar Úkraína og vesturveldin gætu sætt sig við hana

Hin svonefnda „12 punkta“-áætlun Kínverja hefur verið nefnd nokkuð síðustu daga, en Pútín sagði á fundi sínum með Xi að hún gæti verið „grunnurinn“ að friðarsamkomulagi þegar Úkraína og vesturveldin gætu sætt sig við hana. Vísaði Pútín þar til þess að Úkraínumenn hafa ekki viljað ræða vopnahlé nema allir hermenn Rússa yfirgefi Úkraínu, þar með talið Krímskaga.

Í 12 punkta áætluninni segir hins vegar ekkert um brottför Rússa, en fyrsti punkturinn í áætlun Kínverja er sá að „virða eigi fullveldi allra ríkja“, þ.á m. landsvæði þeirra. Þar segir þó ekkert um það hvort Krímskagi eða héruðin fjögur sem Rússar innlimuðu ólöglega á síðasta ári falli undir þá skilgreiningu.

Kínverjar hvetja einnig til þess að ríki „láti af kaldastríðshugsunarhætti“, og taki til greina öryggishagsmuni allra ríkja. Kínverjar kalla í þriðja lagi eftir vopnahléi og í fjórða lagi að friðarviðræður hefjst sem fyrst. Segir í fjórða lið að alþjóðasamfélagið ætti að hjálpa stríðsaðilum að „opna dyrnar að pólitísku samkomulagi sem fyrst“ og búa til réttar aðstæður fyrir viðræður.

Kínverjar leggja einnig til að tekist verði á við þær mannúðaraðstæður sem stríðið hafi framkallað. Þau ráð verði að vera á grundvelli hlutleysis og hlutlægni.

Sjötti liðurinn felur í sér vernd óbreyttra borgara og stríðsfanga, og styðja Kínverjar fangaskipti á milli Úkraínumanna og Rússa. Í sjöunda lagi leggjast Kínverjar gegn árásum á kjarnorkuver og skora á alla að fylgja alþjóðalögum varðandi kjarnorkuöryggi.

Áttundi liður friðaráætlunarinnar kallar á að dregið sé úr hættu á beitingu gjöreyðingarvopna. „Kjarnorkuvopnum má ekki beita, og kjarnorkustríð má ekki heyja,“ segir þar, auk þess sem Kínverjar leggjast gegn hótunum um beitingu kjarnorkuvopna. Þá segjast Kínverjar andvígir öllum rannsóknum sem og allri beitingu efna- og sýklavopna.

Kínverjar segjast jafnframt styðja kornsamkomulag Rússa og Úkraínumanna (9. liður), sem og afnám „einhliða“ refsiaðgerða, sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi ekki lagt blessun sína yfir (10. liður). Kínverjar leggja til að birgða- og framleiðslukeðjur séu gerðar stöðugar, og að forðast eigi að nota heimsbúskapinn sem „tæki eða vopn“ í pólitískum tilgangi. Þá leggja þeir til að lokum að alþjóðasamfélagið styðji við uppbyggingu á átakasvæðunum að stríði loknu.