Leið Rósbjargar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Orkuklasans, inn í klasahugmyndafræðina lá í gegnum rannsóknir hennar á samkeppnishæfni þjóða á sviði fundamarkaðarins.
Leið Rósbjargar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Orkuklasans, inn í klasahugmyndafræðina lá í gegnum rannsóknir hennar á samkeppnishæfni þjóða á sviði fundamarkaðarins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orkuklasinn fagnar nú tíu ára starfsafmæli sínu, aðildarfélag ólíkra fyrirtækja úr allri virðiskeðjunni í orkutengdum iðnaði. Þar hefur brautryðjendastarf verið unnið,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Orkuklasans frá því í fyrravor

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Orkuklasinn fagnar nú tíu ára starfsafmæli sínu, aðildarfélag ólíkra fyrirtækja úr allri virðiskeðjunni í orkutengdum iðnaði. Þar hefur brautryðjendastarf verið unnið,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri Orkuklasans frá því í fyrravor. „Þetta er einn fyrsti vettvangurinn sem byggist upp með þessum hætti með það að leiðarljósi að efla samkeppnishæfni greinarinnar.“

Klasavettvangar eru drifkraftar nýsköpunar. „Orkuklasinn stendur fyrir margvíslegum viðburðum og aðgerðum til að draga fram það sem betur má fara eða leiðir til aðstæðna þar sem lausna á áskorunum er leitað.“

Rósbjörg rifjar upp að upphaflega, árið 2013, hafi Orkuklasinn verið stofnaður með áherslu á jarðvarma og þá sem jarðvarmaklasi. Síðan hafi mikið vatn runnið til sjávar og á þeim áratug sem liðinn er hafi þessum samstarfsvettvangi tekist að draga fram þann sýningarglugga sem Ísland sé á vettvangi endurnýjanlegra orkugjafa. Árið 2018 var vettvangurinn víkkaður út í að ná yfir alla endurnýjanlega orkugjafa þar sem áherslan er á jarðvarma, vindorku, vatnsafl og rafeldsneyti.

„Hlutverk orkuklasans er að efla samvinnu þvert á fyrirtæki og greinar og hraða mikilvægum úrbótum og breytingum til aukinnar framþróunar í orkutengdri starfsemi. Kröfurnar til greinarinnar eru miklar um að ná stórum og mikilvægum markmiðum á sviði loftslagsmála – orkumálin eru auðvitað ekkert annað en loftslagsmál,“ segir framkvæmdastjórinn.

Ráðstefna TCI á Íslandi

Þar með gegni orkumálin gríðarstóru hlutverki. Samtímis því að áskoranirnar séu miklar skapist einnig stór tækifæri og því mikilvægt að allir leggist saman á árarnar þar sem þess sé þörf. Þrjár víddir eru að sögn Rósbjargar hafðar að leiðarljósi en það eru samvinna, þekking og framþróun, þeir þættir sem allt verkefnið snúist í raun um.

„Þekkingarmiðlun er hryggjarsúlan í Orkuklasanum, hann er upphaflega byggður upp á grundvelli einnar ráðstefnu sem vex svo og er orðin heimsþekkt í dag, IGC eða Iceland Geothermal Conference, sem var lykillinn að því að við náðum til landsins alheimsráðstefnu jarðvarmans, WGC, árið 2021,“ segir Rósbjörg frá og bætir því við að nú standi alþjóðleg ráðstefna klasastjórnenda TCI Network fyrir dyrum á Íslandi í nóvember. Þar taka höndum saman fjórir helstu klasavettvangar landsins; Ferðaklasinn, Orkuklasinn, Sjávarklasinn og Fjártækniklasinn.

Þverfaglegt samstarf ólíkra greina og ólíkrar starfsemi skipti öllu máli í þeim breytingum sem heimurinn er nú að takast á við á sviði loftslags og orkunýtingar. Þar sé einfaldlega verið að flýta fyrir þeirri þróun sem við öll viljum sjá í samfélaginu.

Rósbjörg telur Íslendinga lánsama sem þjóð að hafa haft þekkingu og hugrekki til að ná að beisla þær auðlindir sem landið býr yfir. Það sé grunnur þeirra lífsgæða sem þjóðin búi við. Mikilvægt sé að landsmenn sýni náttúruauðlindunum virðingu í allri sinni hegðun því þær eru ekki óþrjótandi.

„Mikilvægt er að átta sig á að Orkuklasinn er ekki hagsmunasamtök í nokkrum skilningi heldur þverfaglegur samstarfsvettvangur þar sem markmiðið er að hraða þróun í málaflokknum með heildarávinning að leiðarljósi.

Nýsköpun felst í mörgu

Það er sérstaklega gaman að sjá hvernig þessi hugmyndafræði hefur fengið að blómstra í verkefnum Landsvirkjunar, einum máttarstólpa Orkuklasans og fleirum. Er þá verið að tala um Eim, Orkídeu, Bláma og Eygló svo fáein séu nefnd,“ segir Rósbjörg.

Eins sé mikilvægt að halda samtali ólíkra aðila gangandi og segir Rósbjörg það vera samtal sem þurfi að eiga sér stað milli ólíkra aðila svo hjólin snúist. Slík samtöl séu í senn upplýsandi, fræðandi og gefandi. Þar finnist þeir fletir sem séu mögulega betri og æskilegri í framkvæmd og byggist á því að efla heildarávinning.

„Nýsköpun getur falist í nýjum fyrirtækjum, nýjum leiðum, nýjum rannsóknum, íhlutum og nýrri þróun. Orkuklasinn stendur líka fyrir aðgerðum og upplifun, eflir færni starfsmanna aðildarfélaganna og þar með færni og getu fyrirtækjanna til frekari verðmætasköpunar. Framtíðarsýn okkar er að orkutengd starfsemi er grunnur velferðar á Íslandi. Með því að byggja á ábyrgri stjórnun þessarar starfsemi viðheldur hún og eflir þau lífsgæði sem við viljum lifa við og tryggir efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar framfarir,“ segir Rósbjörg.

Næstum eins og súrefni

Orkuklasinn gegnir að sögn Rósbjargar lykilhlutverki á þessu sviði með því að efla samkeppnishæfni þeirra sem að honum standa. „Þessi hugmyndafræði hefur haft gríðarmikil áhrif á starfsemi og framtíðarsýn þeirra ólíku aðila sem þarna koma saman í orkutengdri starfsemi í allri sinni mynd og hún skiptir mjög miklu máli í öllu því sem við erum að gera, hvort sem við erum einstaklingar, fyrirtæki, stofnun eða stjórnvald. Þetta þurfum við til að komast áfram, þetta er grunnþörf, þetta er næstum því eins og súrefni,“ segir hún.

Í framhaldinu spyr Rósbjörg hvar Íslendingar væru eiginlega á vegi staddir í dag hefðu þeir ekki haft til að bera hugrekki til að taka ákvörðun um að fara að hita upp húsin sín. „Þá byggjum við held ég ekki á Íslandi og í mínum augum er það grunnþörf til að lifa af á Íslandi að við höfum aðgang að þessari auðlind og umgöngumst hana af virðingu, öll sem eitt.“

Engar tölur til

Rósbjörg ljóstrar því upp að leið hennar inn í klasahugmyndafræðina hafi legið gegnum rannsóknir hennar á samkeppnishæfni þjóða á sviði fundamarkaðarins þegar hún var í námi, það er að segja í tengslum við ráðstefnuhald og fleiri samkomur og viðburði sem hafa það markmið að miðla þekkingu eða frekari hæfni.

„Á þeim tíma var ég framkvæmdastjóri þess sem hét Ráðstefnuskrifstofa Íslands og þá var alltaf verið að spyrja mig hvað ráðstefnur væru að gefa, af hverju ættu Íslendingar að byggja ráðstefnu- og tónlistarhús eins og Hörpu. Aldrei voru til neinar tölur svo ég ákvað bara að skoða þetta sjálf,“ segir hún frá.

Til að stytta þá sögu dembdi Rósbjörg sér í verkefnið og kafaði ofan í samkeppnishæfnisgreiningu og klasa. Í miðjum klíðum þeirrar vinnu var hún fengin til að annast framangreinda IGC-ráðstefnu á Íslandi og að kortleggja íslenska Ferðaklasann. Þar með hafi rökrétt framhald verið sérhæfing hennar á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og klasastjórnunar.

Enginn er eyland

„Líkt og nauðsynlegt er í öllum störfum tengdum orkuiðnaði, er mitt mottó að nýta fræðin til athafna, mikilvægt er að átta sig á því hvernig þú nýtir fræðahugsunina og þau vinnubrögð sem lærast í akademísku umhverfi með praktískum hætti. Það er heildarhugsunin sem skiptir máli, við þurfum alltaf að hugsa um heildina og þá fáum við eitthvað annað og meira. Enginn er eyland í þessum heimi, keðjurnar þurfa að vinna saman og við verðum að vera ábyrg og sýna virðingu gagnvart umhverfi okkar,“ segir Rósbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuklasans, að lokum.