Hermann Ragnarsson fæddist í Keflavík 22. ágúst 1955. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 17. mars 2023.

Foreldrar Hermanns voru Ragnar Guðmundur Jónasson, f. 1927, d. 2020, og Bjarnheiður Hannesdóttir, f. 1930, d. 2012. Bræður Hermanns eru: Ragnar Gerald, f. 1948, d. 2016; Hannes Arnar, f. 1949, d. 1950; Hannes Arnar, f. 1950; Jónas, f. 1951; Guðmundur Ingi, f. 1954; Halldór Karl, f. 1957; Sigurður Vignir, f. 1960; Unnar, f. 1962.

Hermann var þrígiftur og þrífráskilinn, en tók aftur saman við fyrstu eiginkonu sína, Ingibjörgu Auði Finnsdóttur, f. 20. febrúar 1956, síðustu árin.

Börn Hermanns eru: 1) Sigurður Arnar viðskiptafræðingur, f. 16. september 1979 (móðir Guðrún Birna Sigurðardóttir, f. 1959), maki María Másdóttir húsgagnasmiður, f. 1978. Börn þeirra eru Ásdís Arna, f. 2002, Emma, f. 2007, og Jónatan f. 2009. 2) Helga Sigrún efnaverkfræðingur, f. 28. júlí 1997 (móðir Hauður Helga Stefánsdóttir, f. 1958), maki Alexander Guðmundsson tónlistarmaður, f. 2001. 3) Stjúpdóttir; Edda María Vignisdóttir byggingafræðingur, f. 7. ágúst 1975 (móðir Hauður Helga Stefánsdóttir, f. 1958), maki Jeppe Grønning Kieldsen verkfræðingur, f. 1975. Börn hennar eru Snæfríður, f. 2006, og Hekla, f. 2010.

Hermann ólst upp í Keflavík og bjó þar alla sína ævi fyrir utan síðustu árin sem hann bjó í Hafnarfirði. Hann gekk í barna- og gagnfræðaskólann í Keflavík. Þaðan fór hann í Iðnskólann að læra múraraiðn. Hann útskrifaðist síðar sem múrarameistari úr Meistaraskólanum í Reykjavík og fór svo í Háskóla Íslands þar sem hann lærði til matstæknis fasteigna. Síðar fór hann í Stýrimannaskólann þar sem hann tók 30 tonna réttindi og þegar heilsan fór að bresta fór hann í Ferðamannaskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist sem leiðsögumaður.

Hermann vann sjálfstætt alla tíð, mest af við múrverk, byggingastjórnun og svo reri hann nokkur sumur á eigin báti. Þá var hann upphafsmaður Bláa lónsins eftir að hann uppgötvaði lækningamátt þess á psoriasis og öðrum húðsjúkdómum og kynnti hann það á alþjóðavísu.

Hermann var mikill mannvinur, athafnasamur og duglegur alla tíð. Mikla athygli vakti þegar hann hjálpaði tveimur albönskum fjölskyldum að fá íslenskan ríkisborgararétt eftir að þeim hafði verið vísað úr landi árið 2016.

Útför Hermanns fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 23. mars 2023, og hefst klukkan 13. Athöfninni verður streymt.

Fallinn er frá, langt fyrir aldur fram, minn ástkæri bróðir, Hermann Ragnarsson. Við ólumst upp í stórum bræðrahópi. Alls vorum við átta sem komumst á legg, Hemmi var fyrir miðju í aldursröðinni fæddur 1955. Það var svolítið sérstakt að vera svona margir og þeir eldri pössuðu upp á þá sem yngri voru. Mikil samheldni var hjá okkur bræðrum og fórum við snemma að hjálpa til og gengum mjög snemma til vinnu. Hemmi og Dóri bróðir fóru að vinna við múrverk og voru fljótir að ná tökum á faginu. Mér er það minnisstætt að árið 1973 var pabbi að byggja hús að Fagragarði 6 í Keflavík og fórum við allir sem einn að vinna við bygginguna. Hemmi og Dóri pússuðu allt húsið á kvöldin og um helgar þá 17 og 18 ára gamlir. Í framhaldinu fóru þeir fljótlega að vinna sjálfstætt og fóru upp á flugvöll að pússa stór fjölbýlishús fyrir Varnarliðið. Ég var með þeim sem handlangari og létum við bræður hendur standa fram úr ermum og gengum með miklum krafti í þessi verk sem voru unnin í uppmælingu og vorum við á hæsta kaupi sem þá þekktist. Þetta var ógleymanlegur tími. Það einkenndi Hemma bróður strax mikil léttleiki og smitandi hlátur, hann hafði svo gaman af lífinu. Upp úr þessu fór hann að drekka áfengi og stundaði skemmtanalífið grimmt. Því miður náði Bakkus taki á honum og fylgdi honum nánast allt hans lífshlaup, en alltaf stundaði hann vinnu og sá fyrir sér og sínum og kom að rekstri margra fyrirtækja. Hann og Halldór bróðir stofnuðu Húsanes ásamt fleirum og réðust snemma í það að byggja og selja íbúðir og byggðu þeir fleiri hundruð íbúðir í Keflavík og víðar. Á þessum tíma rak ég faseignasölu og sá um sölu eignanna. Þannig að í gegnum okkar lífshlaup þá voru samskiptin oft og tíðum mikil í gegnum vinnuna en um tíma minna í frístundum þar sem við vorum svo ólíkir. Hemmi bróðir var stórbrotinn karakter sem lét ekkert stoppa sig ef svo bar undir. Hann var fylginn sér með afbrigðum og kom hlutum í verk sem aðrir töldu ómögulega. Hann var jafnaðarmaður alveg inn að beini alla tíð og er mér það minnisstætt árið 1986. Þá var hann kosningastjóri hjá Alþýðuflokknum í Keflavík fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Lagði hann nótt við dag, enda fór svo að Alþýðuflokkurinn var með hreinan meirihluta þegar atkvæðin voru talin og ætla ég að leyfa mér að fullyrða það að þar átti hann stærstan hlut að máli.

Árið 2015 átti að vísa albanskri fjölskyldu úr landi en fjölskyldufaðirinn vann hjá Hemma á þessum tíma. Þau áttu veikt barn og voru þau send úr landi þrátt fyrir hörð mótmæli. Þetta þótti honum alveg hræðilegt og gekk hann í málið eins og honum einum er lagið og voru þau komin aftur til Íslands og fengu íslenskan ríkisborgararétt á tíu dögum. Hann reddaði þessu fólki íbúð, húsgögnum og vinnu. Á þessum tíma átti hann við heilsuvanda að striða og var alls ekki í góðum málum en lagði alla sína orku í að hjálpa þessu fólki. Hann mátti ekkert aumt sjá eða fólk beitt misrétti. Rétt fyrir andlátið þá sagðist hann vera stoltastur af þessu verki af því sem hann hefði gert fyrir aðra.

Hemmi bróðir var mikið fyrir sitt fólk og ræktaði sambandið við sína bræður og okkar börn af mikilli alúð. Hann lagði sig fram um það að kynnast þeim og hafa við þau samband, enda var hann elskaður og dáður af öllu sínu fólki.

Seinustu árin átti hann við heilsubrest að stríða en það breytti því ekki að hann var sívinnandi til hinsta dags og ræktaði allt sitt fólk og vini eins og kostur var.

Sjálfur á hann tvö börn, mikið mannkostafólk, Sigurð Arnar Hermannsson, fæddan 1979, og Helgu Sigrúnu Hermannsdóttur, fædda 1997. Þetta voru gimsteinarnir hans og var hann mjög stoltur af þeim og nú seinasta árið var hann mikið í samskiptum við þau sem er einkar dýrmætt fyrir þau nú þegar hann er allur.

Seinustu mánuðina sem Hemmi bróðir lifði var hann mikið inn og út af sjúkrahúsum en hann mjaðmagrindarbrotnaði nú seint í haust og hrakaði heilsu hans verulega upp frá því. Ég heimsótti hann mikið þessa mánuði og áttum við náið tal um lífið og tilveruna og börnin okkar og eru þessar stundir mér mjög dýrmætar.

Síðustu vikurnar sem hann lifði var hann mjög kvalinn og sást þá í hvað stefndi. Þrátt fyrr það lifði maður alltaf í voninni. Börnin hans, þau Sigurður Arnar og Helga Sigrún, stóðu vaktina með pabba sínum til hinstu stundar og var ógleymanlegt að sjá ástina og umhyggjuna sem þau höfðu fyrir föður sínum. Þau voru vakin og sofin yfir hans velferð til hinstu stundar. Seinustu dagana var hann af og til með fulla vitund en svo fékk hann tvo daga nokkuð góða. Þegar ég mætti á spítalann þá sá ég eldmóðinn í mínum manni! Það átti að ganga frá öllum sínum málum strax, með samstilltu átaki með börnum sínum var gengið frá öllum málum sem máli skipti. Þá sá maður að friður færðist yfir Hemma minn og átti hann góðan tíma með sínu fólki og kvaddi þá sem höfðu tók á því að koma. Hemmi bróðir lést þann 17. mars sl.

Ekki má gleyma að minnast á hlut Ingibjargar Finnsdóttur, hans fyrstu eiginkonu, en hún var hans stoð og stytta í hans miklu veikindum og vék ekki frá honum þegar kallið kom og var honum vinskapur þeirra ómetanlegur seinasta árið.
Það var mikil lífsreynsla að fylgja bróður mínum hans lokagöngu, ég bara trúði því ekki að hann væri að fara og mikill og sár söknuður fylgdi í kjölfarið, og sárt að hugsa til þess að Ingibjörg og börnin hans sjá nú á eftir honum á besta aldri. Hann átti eftir að gera svo mikið.

En minningin lifir, þessi orð mín um Hermann bróður minn ná ekki einu sinni að varpa ljósi á mannkosti þessa góða drengs. Hann var góðhjartaður, heilsteyptur og hreinskiptinn maður sem ekki mátti neitt aumt sjá, setti hagsmuni annarra ofar sínum eigin. Aldrei heyrði maður hann kvarta eða vorkenna sér. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafði hann alltaf hagsmuni fólksins síns í öndvegi en bað ekki um neitt fyrir sjálfan sig.

Guð blessi elsku besta bróður minn, Hermann Ragnarsson.

Sigurður V. Ragnarsson.