Fjölskyldan Valdís Anna, Guðrún, Sólveig Lára og Þórarinn.
Fjölskyldan Valdís Anna, Guðrún, Sólveig Lára og Þórarinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Johnsen fæddist 5. apríl 1973 í Edinborg í Skotlandi en ólst upp í Garðabæ og svo í Seljahverfi í Breiðholti á unglingsárunum. Á æskuárum var hún send í sveit í Egilsseli í Fellum á Héraði og í saltfiskvinnslu á Rifi, í Fiskverkun Kristjáns Guðmundssonar, nú Brim

Guðrún Johnsen fæddist 5. apríl 1973 í Edinborg í Skotlandi en ólst upp í Garðabæ og svo í Seljahverfi í Breiðholti á unglingsárunum.

Á æskuárum var hún send í sveit í Egilsseli í Fellum á Héraði og í saltfiskvinnslu á Rifi, í Fiskverkun Kristjáns Guðmundssonar, nú Brim. Á menntaskóla- og háskólaárum vann hún við garðyrkjustörf á sumrin í Laugardal.

Guðrún fór í grunnskólana í Garðabæ, Hofsstaðaskóla, Flataskóla og Garðaskóla, til 12 ára aldurs, þá í Ölduselsskóla í Breiðholti og lauk þaðan grunnskólanum. Hún lauk stúdentsprófi af fornmáladeild Menntaskólans í Reykjavík 1993 og BA-prófi í hagfræði 1999 með lögfræði sem aukagrein. Hún lauk MA-prófi í hagnýtri hagfræði og MA-prófi í tölfræði frá Michigan-háskóla í Ann Arbor 2003 og doktorsnámi í hagfræði frá École Normale Superieure í París árið 2019.

„Eitt af því sem ég lærði af Joel Slemrod, prófessor í opinberum fjármálum í Michigan-háskóla, var að það er aðeins eitt markmið í lífinu; að finna sér stað þar sem maður hlakkar til að fara í vinnuna á morgnana og hlakkar til að koma heim á kvöldin. Þessu hef ég reynt að fylgja og hef tekist á við mörg áhugaverð verkefni. Ég er svo heppin að ávallt þykir mér gott að koma heim til mín.“

Eftir hagfræðinám í HÍ hóf Guðrún störf hjá Norræna fjárfestingarbankanum í Helsinki, vann þar í rúmt ár og gerðist svo verðbréfasali hjá Fjárfestingabanka atvinnulífsins sem rann inn í Íslandsbanka árið 2001, þegar hún hóf framhaldsnám í hagnýtri hagfræði.

Eftir framhaldsnám starfaði Guðrún hjá Samtökum atvinnulífsins í nokkra mánuði en fékk svo starf hjá RAND Corporation í Kaliforníu. Þaðan lá leiðin í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem hún starfaði í tvö ár, 2004-2006, sem sérfræðingur við peningamarkaðsdeild sjóðsins.

Árið 2006 flutti Guðrún heim frá Bandaríkjunum ásamt Þórarni manni sínum og hóf störf hjá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur verið háskólakennari síðan þá, hjá Háskóla Íslands og nú síðast hjá Copenhagen Business School. „Ég hef nánast alltaf verið að rannsaka stjórnarhætti, hvatakerfi og rekstur fyrirtækja, og hef sérstakan áhuga á fyrirtækjum þar sem eigendur vinna við rekstur félagsins, eins og fjölskyldufyrirtæki eru gjarnan, af ýmsum stærðum. Fátt gleður mig meira en að koma í fyrirtæki þar sem góður rekstur er og starfsfólk og viðskiptavinir ánægðir.“

Um árabil hefur Guðrún verið í þverfaglegu rannsóknarsamstarfi við lagadeild Oslóarháskóla, og frá 2021 hefur hún einnig verið í rannsóknarsamstarfi við Center for Corporate Governance og PeRCent, Pension Research Center, hvort tveggja hjá CBS. „Um áramótin síðustu bauðst mér svo staða hjá Seðlabanka Danmerkur sem ráðgjafi yfirstjórnar bankans í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðagreiðslubankans m.a.“

Guðrún hefur skrifað fjölda greina, ritrýndar og fyrir leikmenn, um bankakreppur, útlánaþenslu og stjórnarhætti fyrirtækja, sem og bókina „Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland“ sem kom út á vegum Palgrave-Macmillan árið 2014. Hún á langa reynslu að baki sem stjórnarmaður í fjármálafyrirtækjum, m.a. sem varaformaður stjórnar Arion banka 2010-2017 og stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna 2019-2023.

Þá hefur Guðrún alltaf verið virk í félagsstarfi allt frá grunnskólaárum, sem stjórnarmaður í málfundafélagi Framtíðarinnar í MR, stjórnarmaður í Vöku – félagi lýðræðissinnaðra stúdenta í HÍ, stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna, einn stofnenda og stjórnarmanna Gagnsæis – samtaka gegn spillingu og stjórnarformaður Transparency International á Íslandi.

Fyrir utan efnahagsmál hefur Guðrún gaman af því að elda góða mat, fá vini og vandamenn heim og halda veislur. „Skíðaíþróttin er í uppáhaldi hjá fjölskyldunni, og nú eftir að við fluttum til Kaupmannahafnar eru hjólreiðar stór þáttur í lífinu, bæði til íþróttaiðkunar og til að komast á milli staða. Hafandi búið í Bandaríkjunum og dætur okkar að hluta til alist þar upp tökum við ávallt öll þátt í hrekkjavökuhátíðinni, þakkargjörðarhátíðinni og í Kaupmannahöfn bættist ný hefð við; að fagna fjölbreytileikanum í Gleðigöngunni.

Í menntaskóla náði Auður Ava Ólafsdóttir, listasögukennari og rithöfundur, að kveikja hjá mér óslökkvandi áhuga á listum; myndlist, kvikmyndagerðarlist og arkitektúr. Ég hef unun af fallegri hönnun og því einstaklega nærandi fyrir mína sál að búa í Kaupmannahöfn, þar sem hægt er að njóta þessara hluta nánast við hvert fótmál.“

Guðrún heldur upp á stórafmælið í Róm ásamt fjölskyldu sinni og vinum. „Við verðum þar fram yfir páska og ætlum m.a. í Vatíkanið. Þar fær maður vonandi loksins að spreyta sig á allri latínunni sem maður lærði í MR.“

Fjölskylda

Eiginmaður Guðrúnar er Þórarinn R. Einarsson, f. 13.7. 1968, verkfræðingur hjá SAS Institute. Þau hafa búið í Chapel Hill, Norður-Karólínu, Garðabæ, miðbæ Reykjavíkur, París og nú í Kaupmannahöfn. Foreldrar Þórarins: Hjónin Einar Þórarinsson, f. 20.12. 1937, fv. hitaveitustjóri á Ólafsfirði, og Sólveig Anna Þórleifsdóttir, f. 30.8. 1938, d. 16.11. 2011, húsfreyja í Ólafsfirði.

Dætur Guðrúnar og Þórarins eru Valdís Anna, f. 7.6. 2007, og Sólveig Lára, f. 13.2. 2011.

Bræður Guðrúnar eru Baldur Johnsen, f. 25.11. 1963, tölvunarfræðingur hjá IMATIS, búsettur í Sandefjord í Noregi, og Valdemar Johnsen, f. 5.11. 1968, lögmaður hjá Lagarökum lögmannsstofu, búsettur í Garðabæ.

Foreldrar Guðrúnar: Skúli G. Johnsen, f. 30.9. 1941, d. 8.9. 2001, héraðslæknir í Reykjavík, og Stefanía V. Stefánsdóttir, f. 25.5. 1942, fyrrverandi lektor í heimilisfræðum við HÍ, búsett í Reykjavík. Þau skildu árið 1993.