3.548 ökumenn hafa greitt hraðasektir á þessu ári sem lagðar eru á með hjálp hraðamyndavéla, samkvæmt tölum frá embætti ríkislögreglustjóra, og 2.157 sektir til viðbótar eru í ferli. Á síðasta ári greiddu 24.074 sektir úr hraðamyndavélum en ekki tókst að fá 2.763 sektir greiddar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

3.548 ökumenn hafa greitt hraðasektir á þessu ári sem lagðar eru á með hjálp hraðamyndavéla, samkvæmt tölum frá embætti ríkislögreglustjóra, og 2.157 sektir til viðbótar eru í ferli. Á síðasta ári greiddu 24.074 sektir úr hraðamyndavélum en ekki tókst að fá 2.763 sektir greiddar. Af þeim sem ekki greiddu voru 2.611 erlendir ríkisborgarar en 5.030 sektir fengust greiddar í þeim hópi.

„Sektum sem eru greiddar hefur auðvitað fjölgað samhliða fjölgun ferðamanna en einnig hefur fjölgað málum þar sem rannsókn er hætt. Við höfum lagt áherslu á að hraða öllu ferlinu vegna þess að sektir eiga að hafa áhrif á hegðun fólks. Augljóst er að það gerist síður ef þær berast ekki stuttu eftir að brotin eiga sér stað. Við viljum að ferlið sé hraðara frá því myndavélin smellir af og þar til sektin berst,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri hjá embættinu.

Mikil fjölgun 2021

Erlendir ríkisborgarar sem ekki greiddu slíkar sektir voru færri 2022 en 2021 en þeim hafði fjölgað mjög frá 2020 til 2021 eða úr 399 yfir í 2.789.

„Við sendum tilkynningar um sektir á fólk í tölvupósti en tengiliðaupplýsingar um ökumennina fáum við í gegnum bílaleigurnar. Þær eru forsenda þess enda eru erlendir ferðamenn sem fá hraðasektir hérlendis gjarnan á bílaleigubílum. Við gerum fólki ljóst að ökumaðurinn hafi brotið lög og sendum upplýsingar um hvernig eigi að greiða sektina.“

Þegar erlendir gestir hafa yfirgefið landið virkar sektin ekki lengur sem áminning um að fara gætilega. „Ef fólk er farið úr landi, og ætlar ekki að koma aftur, verður þetta erfiðara. Ef brotið er ekki alvarlegt, og fólk sýnir engan vilja til að borga, þá er rannsókn oft felld niður. En ansi stór hópur er í ferli að greiða sínar sektir. Í mjög mörgum tilfellum tókst að senda fólki tilkynningu um brotið meðan það var enn á landinu. Hefur það meiri áhrif og fólk passar sig betur ef það veit að kostnaður fylgir broti á umferðarlögum. Þegar heim er komið er of seint fyrir erlenda ferðamenn að passa sig í umferðinni á Íslandi, sem er mikilvægast.“

Höf.: Kristján Jónsson