Ísland virðist, auk eigin verðleika, einnig njóta góðs af því að vera sögulega friðsælt land á ófriðartímum um þessar mundir

Atvinnulíf

Bjarnheiður Hallsdóttir

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Nú er rétt um eitt ár liðið síðan öllum sóttvarnartakmörkunum var aflétt á Íslandi og viðspyrna ferðaþjónustunnar og þar með efnahagslífsins hófst. Það var í raun ævintýri líkast hversu hratt áfangastaðurinn Ísland náði sér á strik eftir faraldurinn og verður árið 2022 lengi í minnum haft hjá þeim sem stóðu í hringiðunni það ár.

Þetta ár, og það álag sem var á greininni, varpaði góðu ljósi á allt það jákvæða sem hefur áunnist á síðastliðnum árum en afhjúpaði einnig það sem betur má fara og legið hafði í láginni árin á undan. Má þar tína margt til, en mér er þar efst í huga skortur á menntuðu og þjálfuðu starfsfólki. Þar er mikilla úrbóta þörf og þær þola enga bið.

Jákvæð teikn á lofti

Úrlausn mönnunarvandans og fjölmargar aðrar áskoranir bíða nú umfjöllunar í aðgerðaáætlun um ferðaþjónustu til 2030, sem unnin verður í samstarfi ráðuneytis ferðamála, Samtaka ferðaþjónustunnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga á grundvelli stefnurammans sem ber yfirskriftina „Leiðandi í sjálfbærni“.

Árið 2023 stefnir í að verða minnisstætt ár sömuleiðis. Sjaldan í sögunni hafa bókanir farið eins vel af stað og eru allar líkur á að nýting á þjónustu verði með besta móti á þessu ári. Ísland virðist, auk eigin verðleika, einnig njóta góðs af því að vera sögulega friðsælt land á ófriðartímum um þessar mundir, sem bitnar harkalega á mörgum áfangastöðum í Austur-Evrópu sem og mikill sumarhiti sunnar í álfunni.

Þó viðspyrnan hafi farið hraðar af stað en reiknað var með og flest ferðaþjónustufyrirtæki séu hægt og sígandi að ná vopnum sínum, þá glíma margir í ferðaþjónusturekstri enn við afleiðingar faraldursins á rekstrarreikningnum. Því er sömuleiðis ljóst að nýir kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins við helstu stéttarfélög á almenna markaðnum reynast mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum þungir í skauti.

Samráð um aðgerðir

Efnahagsástandið á Íslandi er um margt sérstakt um þessar mundir. Mikill kraftur er í hagkerfinu, atvinnuleysi nánast ekkert, verðbólga með mesta móti og einkaneysla í hæstu hæðum. Krafan um aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að ná tökum á verðbólgunni er hávær um þessar mundir. Freistingin til að skattleggja atvinnurekstur er mikil og freistingin til að skattleggja ferðamenn, sem jú eru ekki kjósendur á Íslandi, örugglega enn meiri.

Það er hins vegar mjög mikilvægt á þessum tímapunkti að stjórnvöld hamli ekki viðspyrnu ferðaþjónustu með ótímabærum og vanhugsuðum aðgerðum, hversu helgur sem tilgangurinn virðist vera. Umfram allt þurfa allar aðgerðir, sama hvaða nafni þær nefnast, að vera í samráði við atvinnugreinina.

Sjálfbærni og samkeppnishæfni

Áfangastaðurinn Ísland hefur alla burði til að vera fyrirmynd á heimsvísu í orkuskiptum og loftslagsmálum. Til að það náist þurfa stjórnvöld og atvinnulífið að taka höndum saman og ganga rösklega til verks. Tækifærin eru til staðar en skapa þarf hvata sem einstaklingar og fyrirtæki geta nýtt til að hraða enn frekar grænum umskiptum.

Flugsamgöngur eru ein mikilvægasta grunnstoð byggðar og atvinnulífs á Íslandi og mikið í húfi við að vinna að sjálfbærri framtíð flugs um og á landinu. Boðuð löggjöf ESB um kolefnislosun í flugi er stórfelld ógn við flugstarfsemi um Ísland og þar með samkeppnishæfni landsins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Það er skýlaus krafa að stjórnvöld leggi allt í sölurnar til að koma í veg fyrir yfirvofandi stórslys.

Mótum framtíðina saman

Það er lykilþáttur í uppbyggingu lífskjara þjóðarinnar til framtíðar að rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja og þar með samkeppnishæfni greinarinnar, alþjóðlega og innanlands, sé hagfelld. Allar aðgerðir eða aðgerðaleysi stjórnvalda sem vinna gegn hagfelldara starfsumhverfi greinarinnar vinna gegn hagvexti og bættum lífskjörum. Framtíðin er björt og best ef við mótum hana öll saman.