Bílstjórar Innleiða á Evrópureglur um endurmenntun og vinnutíma.
Bílstjórar Innleiða á Evrópureglur um endurmenntun og vinnutíma. — Morgunblaðið/Júlíus
„Með því að afnema möguleika atvinnubílstjóra til endurmenntunar að öllu leyti með fjarnámi er verið að leggja meira íþyngjandi kröfur á viðkomandi starfsstétt en nauðsynlegt er samkvæmt mati sameiginlegu EES-nefndarinnar,“ segir í…

„Með því að afnema möguleika atvinnubílstjóra til endurmenntunar að öllu leyti með fjarnámi er verið að leggja meira íþyngjandi kröfur á viðkomandi starfsstétt en nauðsynlegt er samkvæmt mati sameiginlegu EES-nefndarinnar,“ segir í umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum sem nú er í meðförum Alþingis. Með frumvarpinu á meðal annars að innleiða reglugerðir Evrópuþingsins og -ráðsins um lágmarkskröfur um daglegan og vikulegan hámarksaksturstíma og lágmarksvinnuhlé auk ákvæða um grunnþjálfun og reglubundna þjálfun ökumanna tiltekinna ökutækja til vöru- eða farþegaflutninga.

SI gera athugasemdir við að aðeins verði heimilt að ljúka endurmenntun atvinnubílstjóra í farþega- og farmflutningum að hluta til í fjarnámi en þeim hafi hingað til verið heimilt að sinna endurmenntun sinni að öllu leyti í gegnum fjarnám.

Hvetja samtökin umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis til að breyta drögum frumvarpsins sem um ræðir þannig að ekki verði gengið lengra en nauðsyn þykir við lögfestingu og innleiðingu íþyngjandi Evrópureglna sem Íslandi hafi verið veitt sérstök undanþága frá, eins og það er orðað. „Sjái nefndin sér ekki fært á að verða við slíkri áskorun fara samtökin fram á að metin verði þörfin til endurskoðunar námskrár endurmenntunar atvinnubílstjóra … með það í huga að nemendur utan höfuðborgarsvæðisins hafi tækifæri á að sækja bóklega kennslu í staðnámi í stað þess að gerð verði krafa um lágmarksfjölda verklegrar kennslu og að Samgöngustofa, sem ábyrgt stjórnvald með endurmenntun atvinnubílstjóra, verði gert skylt að tryggja fullnægjandi bóklegt nám um allt landið,“ segir í umsögninni. hdm@mbl.is