Ástar-Rólexinn olli fjaðrafoki.
Ástar-Rólexinn olli fjaðrafoki.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikið var um dýrðir á sýningunni Watches and Wonders sem haldin var í Genf í síðustu viku. Viðburðurinn er að nafninu til helgaður bæði úrum og skartgripum, en það voru úrin sem stálu senunni og notuðu mörg stærstu merkin tækifærið til að frumsýna ný og spennandi úr

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Mikið var um dýrðir á sýningunni Watches and Wonders sem haldin var í Genf í síðustu viku. Viðburðurinn er að nafninu til helgaður bæði úrum og skartgripum, en það voru úrin sem stálu senunni og notuðu mörg stærstu merkin tækifærið til að frumsýna ný og spennandi úr.

Engum ætti að koma á óvart að athygli gesta beindist ekki hvað síst að sýningarbás Rolex sem hleypti öllu í háaloft með óvenju líflegu Oyster Perpetual Day-Date 36. Skartar úrið litríkri skífu og á svæðunum þar sem heiti vikudagsins ætti að birtast sjást í staðinn upplífgandi orð á borð við „ást“ og „friður“, en í boxinu sem alla jafna sýnir mánaðardaginn birtast litlar myndir (þ.e. emoji) s.s. af hjarta, pöndu og friðarmerkinu.

Hefur þetta ástríka regnbogaúr klofið úraheiminn í tvær fylkingar: annars vegar eru þeir sem fá ekki vatni haldið yfir því hvað úrið er skemmtilegt og óvenjulegt, og hins vegar þeir sem finnst hönnunin jaðra við helgispjöll enda Rolex hingað til verið þekkt fyrir íhaldssama og varkára hönnun.

Daytona með nýtt yfirbragð

Hin stjarna sýningarinnar var ný útgáfa Cosmograph Daytona-úrsins frá Rolex, en um þessar mundir eru 60 ár liðin síðan þessi lína „kappakstursúra“ kom fyrst á markaðinn.

Hefur Rolex nú smíðað útgáfu af Daytona úr platínu, með túrkísbláa skífu og brúnleitan ramma. Það sem setur punktinn yfir i-ið er að bakið á úrinu er gagnsætt svo að hægt er að skoða úrverkið.

Af fleiri úrum hjá Rolex í þetta skiptið verður að nefna nýju 1908- línuna sem kemur í stað Cellini-línunnar, og er hönnunin eins klassísk og virðuleg og hugsast getur. Vísar heitið 1908 til ársins þegar Rolex varð skráð vörumerki í Sviss. Þá hefur Sky-Dweller-línan fengið uppfærslu en þetta úr, sem ætlað er heimshornaflökkurum, er komið með nýtt og enn fullkomnara gangverk.

Græni gleðigjafinn

Cartier gerði líka mikla lukku með kvenúrinu Clash [Un]limited sem lýsa mætti sem maxímalísku armbandi með agnarsmáu úrverki. Chanel lét sig heldur ekki vanta og kynnti fjölbreytta línu af nýjum úrum, þar af átta nýjar útfærslur af J12-línunni þar sem lágstemmt og kolsvart Interstellar-úrið bar af, innblásið af næturhimninum.

Þá gladdi það marga úraáhugamenn að Jaeger-LeCoultre kynnti þrjár nýjar gerðir af Reverso-úrinu sem, eins og nafnið gefur til kynna, er gætt þeim eiginleika að gangverkið er hýst í boxi sem hægt er að snúa við og er með skífu sína á hvorri hliðinni. Önnur skífan er hálf-opin svo að sjá má hreyfingar gangverksins.

Þá voru ekki bara rándýr úr með flóknu gangverki, gerð úr gulli og gimsteinum, sem fengu mikið umtal. Framleiðandinn Oris sló í gegn með tiltölulega látlausu títaníum-úri með skærgrænni skífu. Litinn fékk Oris að láni frá froskinum Kermit, og í glugganum þar sem dagar mánaðarins eru sýndir birtist brosandi Kermit fyrsta dag hvers mánaðar.