Jenný Aðalsteinsdóttir fæddist í Neskaupstað 10. júní 1941. Hún lést 27. mars 2023 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Foreldrar Jennýjar voru Björg Ólöf Helgadóttir, f. á Mel 4. mars 1915, d. 5. október 2003 og Einar Aðalsteinn Jónsson, f. á Kleifarstekk í Breiðdal 15. febrúar 1914, hann fórst 20. desember 1974 í snjóflóði í Neskaupstað.

Systkini Jennýjar eru Helga Soffía, f. 28. febrúar 1939, Guðný, tvíburasystir Jennýjar, f. 10. júní 1941, Jón Hlífar, f. 13. nóvember 1943, Steinunn Lilja, f. 15. júní 1945, og Kristján, f. 13. júlí 1954.

Eftirlifandi eiginmaður Jennýjar er Þorsteinn Torfason, f. 3. maí 1941. Þau giftust í Útskálakirkju 24. desember 1963. Börnin eru þrjú: 1) Kristín Björg Konráðsdóttir (faðir Konráð Auðunsson), f. 10. nóvember 1961, gift Sigfúsi Ólafssyni, þau eiga tvö börn og tvö barnabörn. 2) Þorsteinn Einar Þorsteinsson, f. 24. ágúst 1963, giftur Auði Eyberg Helgadóttur, þau eiga fjögur börn og tvö barnabörn. 3) Svanur Þorsteinsson, f. 18. maí 1966, hann er giftur Lilju Guðrúnu Kjartansdóttur, þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn.

Að loknum gagnfræðaskóla vann Jenný ýmis verkakvennastörf, m.a. annars í eldhúsinu á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað sem þá var nýlega tekið til starfa. Jenný gekk í Húsmæðraskólann á Laugalandi. Árið 1962 fluttist hún í Garðinn með Kristínu Björgu og vann þar ýmis fiskvinnslustörf. Þar kynntist hún núlifandi manni sínum, Þorsteini Torfasyni. Síðar fór hún að vinna á Garðvangi, heimili aldraða í Garðinum, við umönnun í 21 ár þar sem hún lauk sinni starfsævi. Eftir það vann hún sjálfboðavinnu við að hjálpa vistmönnum á Garðvangi að gera sig fína.

Útförin fer fram í Útskálakirkju í dag, 5. apríl, klukkan 13. Sjónvarpað verður frá athöfninni í Miðgarði, sal Gerðaskóla.

Athöfninni verður streymt á: https://streyma.is/streymi/

Það var eftir páska 8. apríl 2002 sem fyrsta baráttan hófst, fyrir 21 ári. 20 árum síðar bankaði krabbinn upp á aftur. Eftir þrjár heimsóknir varð hún að láta í minni pokann sem sýndi okkur hversu mikið baráttuþrekið hennar var.

Elsku mamma.

Nú er hlutskipti þitt orðið annað. Vökul augu þín og væntumþykja um líf og tilveru allra er það sem þú hefur kennt okkur, gerðir aldrei mannamun og tókst öllum eins og þeir voru. Þú varst mikil handverkskona. Þú saumaðir og prjónaðir allt á okkur systkinin frá fæðingu, allt frá smábarnafötum, fermingarföt á prinsessuna og mittisjakkaföt á okkur strákana. Ef einhver þurfti aðstoð við saumaskap eða bara vantaði að láta sauma eitthvað nýmóðins, þá var það ekki vandamál. Það eru ófáar flíkur sem þú hefur prjónað á afkomendur þína og fyrir börn og barnabörn vinkvenna. Við minnumst þess ekki systkinin að þú hafir skammað okkur, varla getur verið að við höfum verið svo miklir englar.

Nú eru tímamót, minningar í hjörtum okkar munu lifa um ókomna tíð. Við hlúum að pabba og hvert að öðru. Guð geymir minningu um eiginkonu, móður, tengdamóður, ömmu, systur, frænku og lífshlaup dásamlegrar konu.

Elsku mamma, takk fyrir að vera mamma okkar.

Mamma fór

Í ferðina

Dýrð

Í huga okkar

Paradís

Í sveitina

Umvafin

Í hugum okkar.

Kristín, Þorsteini og Svanur.

Elsku tengdamamma. Nú er kallið komið og það er sárt að kveðja.

Ég vildi að við hefðum haft meiri tíma saman. Meiri harðjaxl þekki ég ekki, en núna fékkstu hvíldina þína.

Mig langar að þakka þér fyrir svo margt, takk fyrir að taka mér opnum örmum inn í fjölskylduna þína.

Takk fyrir allar samverustundirnar okkar, þú varst alltaf til staðar og til taks ef þess þurfti. Þú passaðir vel upp á fólkið þitt. Manstu eftir göngunni okkar úti í móa þegar Hilmar var lítill? Jiii ég hélt ekki í við þig. Þú varst svo mikill nagli.

Mig langar að þakka þér einstaklega vel fyrir gullmolann sem þú bjóst til hann Steina, betri lífsförunaut hefði ég ekki getað fengið. Hann er svo líkur þér á margan hátt.

Mömmukökurnar verða ekki eins en ég mun reyna hver jól. Hilmar segir að þú sért besti bakarinn, og hvað gerðir þú þegar þú fékkst góðu fréttirnar í desember: Fórst beint að baka! Þú varst snilldarbakari, bestu draumtertur sem ég hef smakkað.

Elsku Jenný mín, takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur og takk fyrir að bíða eftir mér.

Hafðu ekki áhyggjur af okkur, við munum passa hvert upp á annað.

Þín verður sárt saknað en ég veit að þú verður alltaf hjá okkur, þú lifir í minningum okkar og hjörtum.

Ég veit að þú munt halda áfram að fylgjast með okkur og passa upp á fólkið þitt.

Góða ferð Jenný mín, vonandi líður þér betur núna.

Elska þig.

Kveðja.

Þín tengdadóttir,

Auður Eyberg.