Kristinn Sigtryggsson
Kristinn Sigtryggsson
Tími kominn til athafna. Horfumst í augu við stöðuna.Tökum forystu – nýtum hlutleysi og herleysi Íslands

Kristinn Sigtryggsson

Íbúar jarðar standa nú frammi fyrir spurningunni: „Hvað skal gera í framhaldi af enn einni ráðstefnunni um loftslagsmál sem litlu skilaði öðru en fögrum fyrirheitum?“. Áður en við svörum því verðum við að virða þá staðreynd að hagsmunir þjóða eru eins margvíslegir og ólíkir og þjóðirnar eru margar. Við þurfum líka að hafa í huga að aðalmengunarvandamálið er meiri mannfjöldi en jörðin okkar getur höndlað, miðað við okkar „lífsgæðakröfur“.

Er ekki það besta sem við Íslendingar getum gert einfaldlega að setja vinnuna í fastara form? Setja saman nákvæma áætlun um hvaða árangri við ætlum að ná og hversu hratt og skipta verkum með ríki (þjóðaröryggisráði), sveitarfélögum, atvinnulífinu og einstaklingum. Hver ber ábyrgð á hverju og hvernig sameinum við niðurstöðurnar í eina, reglulega? Við erum fámenn þjóð í stóru landi og auðveldara fyrir okkur en margar aðrar þjóðir að skapa fyrirmynd, sem aðrir gætu síðan vonandi aðlagað sínum aðstæðum. Aukum hraðann. Við erum búin að gera stórt í bólið okkar og tími kominn til að horfast í augu við það.

Stóra myndin á heimsvísu hlýtur fyrst og fremst að snúast um sjálfbærni. Um að skila börnunum okkar jörð sem er hreinni og heilbrigðari en hún var þegar við tókum við henni af forverum okkar. Fyrsta skrefið sem nauðsynlegt er til þess að eiga möguleika á að þetta náist er að ná friði meðal þjóða, trúarbragða, menningarheima og kynja. Við getum gert Ísland mun meira gildandi á þeim vettvangi en við höfum gert til þessa.

Ísland hefur smám saman verið að komast á kortið á undanförnum árum sem þekkt þjóð meðal þjóða, þrátt fyrir smæðina. Þetta gerðist í skrefum, fyrst með glæsilegum fyrsta kvenforseta okkar, Vigdísi Finnbogadóttur, og síðan eftirmanni hennar, Ólafi Ragnari Grímssyni, sem blómstraði bæði í forsetatíð sinni og gerir enn í samskiptum og alþjóðlegum tengslum. Ekki má svo gleyma gosinu í Eyjafjallajökli né afrekum okkar öfluga íþróttafólks. Nú eru augu okkar komin á kvikmyndabransann og án nokkurs vafa á okkar frábæra fagfólk eftir að gera góða hluti þar. Innleiða gleðina í samskipti þjóða.

Litlar spýjur hafa komið úr fjallshlíðum okkar, nógu stórar samt til að valda stórhættu á viðkomandi landsvæðum. Þær eru áminning og viðvörun til okkar um það sem fram undan kann að leynast. Undir Grænlandsjökli og Suðurskautslandinu eru milljarðar tonna af vatni sem bíða eftir að komast út. Þar er stóra skriðuhættan og vísindin eiga í vanda með að fullyrða hvort eða hvenær stórviðburða er að vænta á næstunni.

Áætlun okkar þarf ekki bara að fjalla um leiðir til að fyrirbyggja stórslys á við flóðbylgjur og skyndilega hækkun sjávar, það þarf líka að takast á við þann möguleika að vegna þrjósku margra þjóða til að bregðast tímanlega við loftlagsvandanum verði hér enn stærri viðburðir sem breyta algerlega framtíðarlífi á jörðinni. Það er flókið verkefni því við höfum aldrei séð slíkt áður.

Á næstu vikum mun ég fjalla nánar um einstaka þætti opinberrar þjónustu og einnig um einstakar atvinnugreinar og hvernig breytingarnar hafa áhrif á þær aðferðir sem við notum við áhættumat og áhættustýringu, í þeirri von að það sem við gerum nú geti ekki aðeins nýst okkur til frambúðar, heldur líka sem flestum öðrum þjóðum.

Við erum ein fjölskylda, án tillits til búsetulands, trúar, litarháttar, stéttar eða kyns.

Höfundurinn er endurskoðandi á eftirlaunum.