Snædís Eva Sigurðardóttir
Snædís Eva Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svar við rannsókn Virk á kulnunareinkennum út frá greiningarviðmiðum WHO, sem útilokar stóran fólks sem misst hefur heilsuna vegna álags.

Snædís Eva Sigurðardóttir (t.v.) og Sigrún Ása Þórðardóttir (t.h.)

Kulnunarhugtakið hefur nýlega orðið að umræðuefni í samfélaginu í tengslum við nýlega rannsókn á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs á skjólstæðingahópnum sem sækir sér starfsendurhæfingu vegna kulnunareinkenna. Þar var farið eftir nýlegri skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á kulnun (e. burnout). Þar vísar kulnun til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að nota til að lýsa reynslu á öðrum sviðum. Einkenni kulnunar skv. þessari skilgreiningu eru orkuleysi eða örmögnun, andleg fjarvera í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað og minni afköst í vinnu. Rannsókn Virk sýnir að aðeins 6,1% skjólstæðinga þeirra uppfyllir þessi skilyrði, þrátt fyrir að 58% telji að orsakir veikindaleyfis síns megi rekja til langvarandi álags.

Undirritaðar sinna greiningu og meðferð á streituvanda og fara eftir klínískum viðmiðum Svía á „utmattning“ (kulnun eða örmögnun á íslensku). Áhersla er lögð á heilsubrestinn og að einkenni komi í kjölfar mikils álags í a.m.k. sex mánuði með skorti á nauðsynlegri hvíld. Einkenni geta lýst sér sem orkuleysi og ofurþreyta, erfiðleikar við að endurheimta orku þrátt fyrir hvíld, svefnvandamál, minnis- og einbeitingarvandi, aukinn pirringur eða reiði og aukin viðkvæmni við skynáreitum. Geta til að hugsa og gera áætlanir skerðist, sem gerir útfærslu á almennum verkefnum lífsins afar erfiða. Mannsheilinn er sérstaklega vel útbúinn til að takast á við og forða okkur úr tímabundinni hættu með virkjun á svokölluðu streituviðbragði (fight/flight).

Við erum þó ekki útbúin til að þrífast ef áskoranirnar eru viðvarandi til langs tíma án möguleika til viðeigandi endurheimtar. Í þeim tilvikum þarf líkaminn að forgangsraða verkefnum til að tryggja að einstaklingurinn lifi af, á kostnað annarra mikilvægra verkefna á borð við meltingu, minnisúrvinnslu, hvíld og bata. Þá er viðbúið að hrörnun og niðurbrot eigi sér stað á kerfum líkamans, með tilheyrandi einkennum. Heilabúið hefur þó ekki getu til að aðgreina hvaðan álagið eða „ógnin“ kemur, hvort það sé á vinnustað, í einkalífi eða jafnvel í hugskoti einstaklingsins. Birtingarmynd streituvanda verður sú sama.

Niðurstöður rannsókna á áhrifum ofálags á mannsheilann eru óyggjandi en fjöldi sænskra rannsókna hefur varpað ljósi á skaðann. Þar er dr. Ingibjörg H. Jónsdóttir, forstöðumaður Institutet för Stressmedicin og prófessor við háskólann í Gautaborg, í broddi fylkingar. Nýleg skilgreining WHO á kulnun er gagnleg til að knýja vinnustaði til að axla ábyrgð og skapa vinnuumhverfi sem stuðlar að uppbyggingu en ekki niðurbroti. Forsenda endurkomu til vinnu eftir kulnun (sama hvers konar álag stuðlaði að veikindunum) er fyrst og fremst að hlúa að einstaklingnum, en ekki síst að skoða hvaða þættir í vinnu gætu hafa stuðlað að þróun veikindanna og gera þar bragarbót á svo viðkomandi eigi afturkvæmt á vinnustaðinn án þess að eiga á hættu að veikjast á nýjan leik.

Niðurstöður rannsóknar Virk um að 6,1% sjúklinganna uppfylli nýju greiningarskilmerkin samræmist ágætlega reynslu undirritaðra, þar sem lítill hluti skjólstæðinga okkar getur rakið ofálagið einvörðungu til vinnunnar. Mun stærri er sá hópur sem misst hefur heilsuna vegna gríðarlegs álags sem rekja má bæði til vinnu og einkalífs. Svo er þriðji hópurinn sem rekur álagið einvörðungu til erfiðleika í einkalífi og lítur jafnvel á vinnuna sem griðastað, en veikist samt sem áður. Allir hóparnir eiga það sameiginlegt að birtingarmynd streitueinkenna er sú sama og leiðir að bata þær sömu. Persónueiginleikar sem almennt einkenna þennan hóp eru metnaður, rík ábyrgðarkennd, samviskusemi og miklar innri kröfur. Eiginleikar sem flestir vinnuveitendur meta hjá starfsfólki sínu en geta þó einnig verið akkilesarhæll þegar seiglan stuðlar að því að fólk heldur áfram lengur en góðu hófi gegnir. Ef einvörðungu á að gefa þeim sem tilheyra þessum fyrsta hópi formlega streitutengda greiningu útilokum við stóran hóp fólks sem þjáist af þessum sömu einkennum, en af fjölbreyttari ástæðum.

Fyrir flesta skiptir töluverðu máli að fá skýringu og viðurkenningu á sínum veikindum. Þeir sem missa heilsuna á þennan hátt eru oft afar gagnrýnir á eigið ástand og upplifa jafnvel skömm yfir að geta ekki lengur staðið undir skuldbindingum og útfært verkefni daglegs lífs. Ekki endilega vegna þess að þau hafi misst áhugann, heldur vegna þess að getuna skortir. Áhyggjur af ástandinu hindra svo að streitukerfið nái að róast, sem er einmitt forsenda þess að líkaminn geti hafið viðgerðir á skaðanum og einkenni rénað. Breyting á skilmerkjum þýðir mögulega að sjúklingar fá greiningar á öðrum geðröskunum, t.d. þunglyndi, sem er ekki besta skýringin á vandanum ef hann er tilkominn vegna langvarandi ofálags og áherslur í meðferð að mörgu leyti ólíkar. Þá er hætta á að stór hópur sjúklinga fái ekki bót sinna meina og þá aukast líkur á fjarveru vegna veikinda til lengri tíma. Sjúklingarnir eru til staðar og þeir eru að kljást við alvarlegan heilsubrest, hvað svo sem breytingum á skilgreiningum líður.

Höfundar eru sálfræðingar hjá Styðjandi sálfræðiþjónustu, Heilsuklasanum.