Atlantshafsbandalagið Finnskir hermenn draga hér finnska fánann að húni við höfuðstöðvar NATO í Brussel í gær. Athöfnin markaði sögulega inngöngu Finnlands í bandalagið.
Atlantshafsbandalagið Finnskir hermenn draga hér finnska fánann að húni við höfuðstöðvar NATO í Brussel í gær. Athöfnin markaði sögulega inngöngu Finnlands í bandalagið. — AFP/John Thys
Finnland varð í gær formlega 31. aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Var fáni landsins dreginn að húni við höfuðstöðvar bandalagsins í Brussel í fyrsta sinn í gær við hátíðlega athöfn, en bandalagið fagnaði jafnframt 74 ára afmæli sínu í gær

Finnland varð í gær formlega 31. aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Var fáni landsins dreginn að húni við höfuðstöðvar bandalagsins í Brussel í fyrsta sinn í gær við hátíðlega athöfn, en bandalagið fagnaði jafnframt 74 ára afmæli sínu í gær.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði að Finnar ættu nú öflugustu vini og bandamenn sem hægt væri að finna í veröldinni. Sagði Stoltenberg að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði viljað skella dyrum bandalagsins í lás. „Nú sýnum við heiminum öllum að honum mistókst, að ofbeldi og hótanir skila engu.“

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, sagði að nú væri hafin ný stund í sögu Finnlands, þar sem landið léti af áratugalöngu hlutleysi sínu í öryggis- og varnarmálum. Þá myndi aðildin styrkja stöðu og svigrúm Finna á alþjóðavettvangi.

Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði hins vegar að inngangan myndi knýja Rússa til að grípa til gagnaðgerða gegn Finnum og bandalaginu. » 15 og 18