Rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla verður að laga

Fréttablaðið er hætt að koma út og útgefandinn gjaldþrota, svo þá er eftir eitt dagblað í landinu, Morgunblaðið.

Þróun á fjölmiðlamarkaði undanfarin ár hefur verið mörgum áhyggjuefni, vegna hins sérstaka hlutverks fréttamiðla í þróttmiklum lýðræðissamfélögum.

Þar hafa dagblöð og í seinni tíð netmiðlar sérstakt erindi. Án þess að lítið sé gert úr fréttaflutningi ljósvakamiðla, þá sinna þeir ekki fréttum og upplýsingu borgaranna með sama hætti. Í útvarpi og sjónvarpi eru fréttir hafðar með, en eru ekki nauðsynlegar, enda meginefnið afþreying. Dagblöð eru beinlínis gefin út með það að meginmarkmiði að flytja fréttir.

Það má einnig sjá af fjölda frétta, en nú er svo komið að Morgunblaðið og mbl.is segja vel rúmlega helming allra frétta í landinu. Á Íslandi eru nú aðeins þrjár eiginlegar fréttastofur sem sinna almennum frumfréttum: Morgunblaðið, Sýn og Ríkisútvarpið.

Það er ábyggilega ekki minna að frétta nú en fyrir liðlega 40 árum, þegar út komu sjö dagblöð í landinu – Alþýðublaðið, Dagblaðið, Dagur, Morgunblaðið, Tíminn, Vísir og Þjóðviljinn. Þá voru Íslendingar 227 þúsund, en eru nú 387 þúsund. Fréttaþorsti almennings og þörf fyrir áreiðanlegar fréttir er ekki minni nú en þá, hvað þá nauðsyn þess að valdhöfum eða valdaöflum sé haldið við efnið.

Fjölmiðlun er eina greinin sem ekki rétti ærlega úr sér eftir að bankahrunið gekk yfir. Stjórnmálamenn hafa gengist við vandanum og skipað ótal nefndir, en lyktirnar urðu sú tilraun með styrkjakerfi fjölmiðla, sem nú hefur beðið þetta skipbrot.

Þó þannig hefði ekki farið var það frá öndverðu óheppilegt hvaða leið var farin til að styðja frjálsa fjölmiðlun.

Annar ríkisstyrkur er fjölmiðlun enn skeinuhættari, en það er styrkurinn sem Ríkisútvarpið fær á hverju ári, hátt í 6.000 milljónir króna. Aðrir miðlar eiga lítið í keppinaut með slíka forgjöf, en þess utan sækir það 2.000 milljónir á auglýsingamarkað.

Ekki verður lengur umflúið að laga rekstrarumhverfi fjölmiðla. Skerpa þarf á hlutverki og umfangi Rúv. og koma því af auglýsingamarkaði, líkt og hjá evrópskum ríkismiðlum.

Meira þarf þó til, eins og Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra vék að á dögunum, og þar koma skattalegar ívilnanir helst til greina, til dæmis með því að fjölmiðlar séu undanþegnir virðisaukaskatti og tryggingagjaldi. Það tryggir að fjölmiðlar sitji allir við sama borð, að heilbrigð samkeppni ríki þeirra á milli og velgengni þeirra sé undir miðlunum sjálfum komin en ekki skömmtunarstjórum hins opinbera.

Þannig þrífast frjálsir fjölmiðlar í frjálsu samfélagi og þar munu Morgunblaðið og mbl.is áfram vera í forystu í flutningi frétta, menningarefnis og þjóðmálaumræðu.