Blaðamaður Gísli J. Ástþórsson starfaði á Morgunblaðinu og fleiri blöðum.
Blaðamaður Gísli J. Ástþórsson starfaði á Morgunblaðinu og fleiri blöðum. — Morgunblaðið/Emilía B. Björnsdóttir
Hundrað ár eru liðin í dag, 5. apríl, frá fæðingu Gísla J. Ástþórssonar blaðamanns. Hann var fyrsti íslenski menntaði blaðamaðurinn og var þekktur á sinni tíð sem ritstjóri, blaðamaður, rithöfundur, teiknari og samfélagsrýnir

Hundrað ár eru liðin í dag, 5. apríl, frá fæðingu Gísla J. Ástþórssonar blaðamanns. Hann var fyrsti íslenski menntaði blaðamaðurinn og var þekktur á sinni tíð sem ritstjóri, blaðamaður, rithöfundur, teiknari og samfélagsrýnir.

Gísli lagði áherslu á fréttaflutning óháðan flokkspólitík og beitti sér fyrir breytingum á umbroti og útliti blaða. Hann er einnig höfundur Siggu Viggu, fyrstu íslensku myndasöguhetjunnar, og teiknaði um árabil ádeiluseríuna Þankastrik.

Vegna tímamótanna í dag flytur Stefán Pálsson sagnfræðingur erindi um líf og störf Gísla í Bókasafni Kópavogs kl. 12.15. Einnig stendur yfir sýning á verkum hans í fjölnotasal bókasafnsins. Þá munu afkomendur Gísla afhenda handrit og frumteikningar hans til Landsbókasafnsins í dag, en safnið minnist einnig afmælisins með sýningu í Þjóðarbókhlöðunni.

Eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins 11. mars síðastliðinn hefur heildarsafn bókanna um Siggu Viggu verið endurútgefið, í tilefni 100 ára fæðingarafmælis Gísla. Myndasögurnar þóttu einstakar, sprottnar upp úr íslenskum veruleika, útgerð og fiskvinnslu. Sögurnar birtust fyrst í Alþýðublaðinu og síðar í Morgunblaðinu.

Gísli lauk prófi í blaðamennsku frá háskóla í Bandaríkjunum árið 1945 og var þar með fyrsti Íslendingurinn með menntun í því fagi. Fyrstu árin starfaði hann á Morgunblaðinu, var síðan m.a. ritstjóri Vikunnar og Alþýðublaðsins en kom aftur á Morgunblaðið 1973, og starfaði þar í 20 ár. Gísli lést árið 2012, 89 ára að aldri.